Góður sigur á toppliðinu
Brendan Rodgers gerði nokkrar breytingar á liðinu frá leiknum gegn Manchester City á mánudag. Mesta athygli vakti að Mario Balotelli var í byrjunarliðinu í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool. Hann kom inn fyrir Coutinho sem varð að gera sér að góðu að verma bekkinn allan leikinn. Javier Manquillo og Glen Johnson komu inn í liðið fyrir Glen Johnson og Martin Skrtel sem báðir eiga við smávægileg meiðsl að stríða.
Strax á 3. mínútu lét Mario Balotelli til sín taka. Daniel Sturridge átti þá góða fyrirgjöf á fjærstöngina frá vinstri kanti þar sem Balotelli stökk hæst allra og skallaði á mark Tottenham. Skallinn var ekki nógu hnitmiðaður og Hugo Lloris náði að verja.
Á 8. mínútu kom Raheem Sterling Liverpool síðan yfir með laglegu marki eftir góða og snarpa sókn okkar manna. Daniel Sturridge átti þá frábæra rispu úti á hægri kantinum, sendi boltann á Henderson sem renndi honum þvert yfir teiginn þar sem Sterling kom á fleygiferð og renndi honum í bláhornið. Staðan 0-1 á White Hart Lane.
Nokkrum mínútum síðar átti Sturridge aftur góða rispu sem endaði með því að hann skaut sjálfur að markinu, en boltinn fór hárfínt framhjá.
Tveimur mínútum síðar átti Balotelli aftur skalla að marki en nú fór boltinn framhjá. Mikið líf í Sturridge, Balotelli og Sterling í upphafi leiks og varnarmenn Tottenham oft í vandræðum með þríeykið.
Eftir fyrstu fimmtán mínúturnar róaðist leikurinn aðeins og það var ekki fyrr en á 30. mínútu sem næsta marktækifæri leit dagsins ljós. Balotelli sendi þá skemmtilega hælsendingu á Sturridge sem skaut fallegu skoti að marki sem Lloris varði vel.
Aðeins mínútu síðar var Lloris ekki alveg eins öflugur, en þá hljóp hann út úr vítateignum til þess að stöðva sókn Liverpool. Ekki vildi betur til en að hann sendi boltann beint fyrir fætur Mario Balotelli sem hefði getað sett hann í opið markið af 30 metra færi ef hann hefði náð góðu skoti. Það gerði Ítalinn hinsvegar alls ekki og boltinn fór lengst framhjá. Lloris stálheppinn að fá ekki á sig ódýrt mark.
Á 42. mínútu mátti ekki miklu muna að Tottenham næði að jafna metin. Sakho og Lovren fóru út í sama manninn fyrir utan teig, sem varð til þess að boltinn barst til Nacer Chadli sem var dauðafrír á vítateigslínunni. Sem betur fer varði Mignolet skot Chadlis glæsilega. Óhætt að segja að okkar menn hafa sloppið með skrekkinn þarna.
Staðan 0-1 í hálfleik á White Hart Lane og okkar menn frískir fram á við. Samvinna Sakho og Lovren í vörninni aftur á móti dálítið áhyggjuefni. Sérstaklega var Sakho óöruggur í sendingum. Sama má reyndar segja um Steven Gerrard sem átti óvenju margar feilsendingar í hálfleiknum.
Strax í upphafi síðari hálfleiks, nánar tiltekið á 48. mínútu dró til tíðinda. Þá fékk Joe Allen nokkuð ódýrt víti eftir viðskipti sín við Eric Dier í vítateig heimamanna. Steven Gerrard fór á punktinn og skoraði fram hjá Lloris sem var óþægilega nálægt því að ná til boltans. Staðan 0-2 í höfuðborginni og útlitið bjart fyrir okkar menn.
Eftir markið sótti Tottenham liðið nokkuð stíft og var meira með boltann næstu mínúturnar. Á 60. mínútu braut Moreno eina af mörgum sóknum heimamanna á bak aftur þegar hann vann boltann á miðjum vallarhelmingi Liverpool. Spánverjinn ungi var ekkert að tvínóna við hlutina heldur brunaði alla leið inn í vítateig Tottenham þar sem hann þrumaði boltanum neðst í fjærhornið, stöngin inn! Stórkostlegt mark. Staðan 0-3 og úrslitin svo gott sem ráðin.
Á 67. mínútu átti Sturridge ágæta marktilraun, en Lloris sá við honum. Þremur mínútum síðar tók svo Raheem Sterling ótrúlega syrpu inn í vítateig Tottenham þar sem hann dansaði framhjá allri vörn heimamanna og kom sér í algjört dauðafæri. Skotið var því miður ekki í neinu samræmi við töfrabrögðin sem á undan komu og Lloris átti ekki í neinum vandræðum með að handsama knöttinn.
Undir lok leiksins hefði Phil Dowd líklega getað dæmt heimamönnum vítaspyrnu þegar Lovren togaði hressilega í peysu Adebayors inni í teig, en hann lét leikinn halda áfram enda stóð Tógó maðurinn í lappirnar, öfugt við Allen hinum megin fyrr i hálfleiknum. Lokatölur á White Hart Lane 0-3 fyrir Liverpool. Virkilega sterkur sigur á toppliði deildarinnar.
Liverpool: Mignolet, Manquillo, Sakho, Lovren, Moreno, Gerrard, Allen (Can á 61. mín.), Henderson, Sterling (Enrique á 86. mín.), Sturridge og Balotelli (Markovic á 61. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Coutinho og Lambert.
Mörk Liverpool: Raheem Sterling á 8. mín., Steven Gerrard á 49. mín (víti) og Alberto Moreno á 60. mínútu.
Gul spjöld: Joe Allen, Alberto Moreno, Raheem Sterling og Javier Manquillo.
Tottenham: Lloris, Dier, Kaboul, Vertonghen, Rose (Davies á 72. mín.), Capoue, Bentaleb (Dembelé á 59. mín.), Lamela, Chadli, Eriksen (Townsend á 59. mín.) og Adebayor. Ónotaðir varamenn: Friedel, Kane, Holtby og Chiriches.
Áhorfendur á White Hart Lane: 36.130.
Maður leiksins: Það eru tveir ungir menn sem berjast um þessa nafnbót í dag, þeir Raheem Sterling sem var gríðarlega frískur í leiknum og Alberto Moreno. Báðir skoruðu í leiknum og báðir börðust eins og ljón allan tímann. Moreno virkar mjög öflugur vinstri bakvörður, sem er mikið fagnaðarefni, og svo var markið hans auðvitað algjörlega frábært. Ég varpa hlutkesti og útnefni Spánverjann unga mann leiksins að þessu sinni.
Brendan Rodgers: Þetta var góður sigur. Ég var mjög ánægður með margt í okkar leik. Spilið var gott og við sköpuðum okkur mörg færi. Við hefðum getað skorað enn fleiri mörk, en við hefðum líka getað fengið mörk á okkur. Heilt yfir stóð vörnin sig vel, Sakho verður öruggari á boltanum með meiri leikæfingu og bakverðirnir ungu stóðu sig gríðarlega vel. Ég er mjög sáttur við þennan góða sigur.
Fróðleikur:
- Þetta var 100. leikur Brendan Rodgers með Liverpool liðið. Með sigrinum í dag komst hann upp að hlið Bill Shankly og Rafa Benítez, sem báðir stýrðu Liverpool til sigurs í 56 af 100 fyrstu leikjum sínum við stjórnvölinn. Einungis Kenny Dalglish getur státað af betri byrjun, en Rauði herinn vann 62 af fyrstu 100 leikjum hans í brúnni um miðjan 9. áratuginn.
- Byrjunarlið Liverpool í dag er yngsta lið sem Rodgers hefur teflt fram í þessum 100 leikjum, en meðalaldur liðsins í dag var einungis rétt rúm 24 ár.
- Raheem Sterling skoraði í annað sinn á leiktíðinni.
- Steven Gerrard setti tvö félagsmet með marki sínu af vítapunktinum. Þetta var 43. vítaspyrnan sem hann skorar úr en enginn leikmaður Liverpool hefur skorað úr fleiri vítum. Markið var hans fyrsta á þessu tímabili og þar með hefur þessi frábæri leikmaður skorað á hverri leiktíð 16 leiktíðir í röð sem er líka nýtt met.
- Alberto Moreno opnaði markareikning sinn fyrir Liverpool.
- Martröð Tottenham gegn Liverpool heldur áfram. Liverpool hefur nú unnið síðustu þrjár viðureignir liðanna samanlagt 12-0!
- Liverpool hefur skorað 33 mörk í Úrvalsdeild á White Hart Lane. Einungis St. James Park hefur reynst fengsælli leikvöllur fyrir okkar menn, en þar hefur Liverpool skorað 36 mörk frá stofnun Úrvalsdeildarinnar.
- Mario Balotelli lék í dag sinn fyrsta leik fyrir Liverpool.
- Jose Enrique kom inn á í sínum fyrsta alvöruleik síðan í október 2013.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.
Hér má horfa á viðtal sem tekið var við Brendan Rodgers eftir leik.
-
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Sf. Gutt
Heilsteypt lið!