| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Fyrsti Meistaradeildarleikur Liverpool í alllangan tíma verður spilaður í kvöld. Mótherjinn er sýnd veiði en ekki gefin.


Að sjálfsögðu er leikurinn í beinni á heimavelli okkar á Spot í Kópavogi. Flautað er til leiks kl. 18:45 og ljóst er að bekkurinn verður þétt setinn enda margir spenntir að sjá liðið loksins aftur í Meistaradeildinni.

Þegar dregið var í riðla í þessari keppni var öllum ljóst að búlgarska liðið Ludogorets Razgrad væri líklega slakasta liðið á pappír en engu að síður hefur félagið verið gríðarlega sigursælt í heimalandinu undanfarin ár. Þeir komust svo í riðlakeppnina á ævintýralegan hátt eftir umspil við Steaua Búkarest frá Rúmeníu.

Seinni leikur liðanna fór alla leið í vítaspyrnukeppni og þar sem markvörður þeirra hafði verið rekinn af velli og allar skiptingar búnar þurfti varnarmaðurinn Cosmin Moti að bregða sér í markið. Hann gerði sér lítið fyrir og varði tvær spyrnur auk þess að skora úr fyrstu spyrnu síns liðs. Var hann skiljanlega hylltur sem hetja eftir leikinn. Þessi markvarðavandræði Ludogorets hafa hinsvegar orðið til þess að þeir þurftu að fá til sín samningslausan markvörð fyrir leikinn í kvöld þar sem aðalmarkvörður þeirra er í banni og varamarkvörðurinn meiddur. Að öðru leyti ættu þeir að geta stillt upp sínu sterkasta liði eftir því sem næst verður komist.

Hvað varðar hópinn hjá Liverpool eru ekki miklar breytingar varðandi meiðsli frá því um helgina. Martin Skrtel er ekki enn klár í slaginn en hann verður líklega búinn að ná sér fyrir leikinn við West Ham um næstu helgi. Þeir Joe Allen, Emre Can, Daniel Sturridge, Glen Johnson og Jon Flanagan eru svo allir ennþá frá vegna meiðsla.


Nú er stutt á milli leikja hjá Liverpool og ekki ólíklegt að Brendan Rodgers geri einhverjar breytingar frá síðasta leik en vegna meiðsla eru þó ekki hægt að breyta eins miklu og hann hefði mögulega viljað. En ekki má vanmeta mótherjann og leikmenn gestanna munu selja sig dýrt í sennilega eina tækifæri sínu til að spila á Anfield á sínum ferli. Búlgarska liðið þurfti að spila sex leiki til að komast í riðlakeppnina og í þessum leikjum fengu þeir aðeins á sig fjögur mörk og héldu markinu hreinu í þremur leikjum. Þeir geta líka spilað sóknarbolta þegar sá gállinn er á þeim en líklega mæta þeir til leiks með það að markmiði að pirra heimamenn eins og þeir geta með því að verjast aftarlega og beita skyndisóknum.

Það er ljóst að stemmningin á Anfield í kvöld verður mögnuð því bið stuðningsmanna félagsins hefur verið löng eftir leik í Meistaradeildinni. Nánar tiltekið eru 1.742 dagar síðan liðið spilaði síðast leik í þessari keppni. Stemmningin mun fleyta leikmönnum langt í leiknum og eftir vonbrigði helgarinnar mæta menn dýrvitlausir til leiks og munu ekki gefa gestunum neinn grið.

Spá undirritaðs er því á þessa leið: Öruggur 3-0 sigur þar sem þó verður einhver smá bið eftir því að fyrsta markið líti dagsins ljós, en þegar það gerist slaka menn á, njóta stundarinnar og landa góðum sigri.

Fróðleikur:

- Ludogorets eru 120. mótherji Liverpool í Evrópukeppni í sögu félagsins og þriðja liðið frá Búlgaríu alls. Áður hefur Liverpool mætt CSKA Sofia og Levski Sofia í Evrópukeppni.

- Félagið situr í 4. sæti búlgörsku deildarinnar með 15 stig eftir 8 leiki. Hafa þeir unnið fjóra leiki, gert þrjú jafntefli og tapað einum leik til þessa.

- Steven Gerrard er markahæstur allra leikmanna félagsins í Meistaradeildinni (þar með talið gömlu Evrópukeppni meistaraliða) með 28 mörk.

- Alls hefur Gerrard skorað 39 mörk í Evrópukeppni fyrir félagið.

- Fyrirliðinn er næst leikjahæstur allra leikmanna félagsins í Meistaradeildinni með 81 leik, Jamie Carragher spilaði alls 91 leik.

- Og meira um Gerrard. Hann er hefur skorað tvær þrennur í Evrópuleik með Liverpool á sínum ferli. Enginn leikmaður í sögu félagsins hefur skorað þrjár þrennur.

- Graeme Souness skoraði eitt sinn þrennu fyrir Liverpool gegn búlgörsku liði. Árið 1981 mætti Liverpool CSKA Sofia og urðu lokatölur 5-1.

- Alls hafa 17 þrennur litið dagsins ljós hjá Liverpool í Evrópukeppni.

Hér má sjá myndir af undirbúningi liðsins fyrir leik kvöldsins.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan