Torsóttur sigur
Brendan Rodgers gerði eina breytingu frá leiknum við Aston Villa um helgina. Inn í byrjunarliðið kom Raheem Sterling fyrir Lazar Markovic sem er enn í leikbanni í Evrópukeppni eftir að hafa fengið rautt spjald í undanúrslitaleik Evrópudeildarinnar í vor.
Leikurinn byrjaði eins og við var að búast, frá fyrsta flauti æddu leikmenn Liverpool fram völlinn til að skora mark snemma leiks. Leikmenn Ludogorets voru samt ekki á þeim buxunum að láta það gerast og héldu velli. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn komust gestirnir meira inní leikinn en það var þó Mario Balotelli sem átti fyrsta markverða færi leiksins er hann fékk sendingu fram völlinn. Ítalinn sneri sér laglega fyrir framan vítateiginn og skaut að marki, varnarmaður komst fyrir skotið og boltinn féll til Adam Lallana sem skaut að marki en skot hans var varið.
Bæði lið reyndu svo fyrir sér í sóknaraðgerðum sínum án þess að ná að koma alvöru skotum á markið. Skömmu fyrir leikhlé hefðu þó heimamenn átt að skora þegar góð sókn endaði með því að Lallana fékk boltann í teignum en varnarmenn gestanna komust fyrir skotið og hættunni var bægt frá. Búlgarirnir voru þó ekki hættir fyrir leikhlé og góð varnarvinna hjá Mamadou Sakho kom í veg fyrir að sóknarmaður þeirra, Bezjak kæmist einn í gegn.
Staðan í hálfleik markalaus og margir á Anfield voru farnir að spyrja sig hvort það næðist að vinna sigur í þessum fyrsta Evrópuleik í nokkur ár. Seinni hálfleikur hófst þó á svipuðum nótum og sá fyrri. Heimamenn voru beittari í sínum aðgerðum en komust ekki nein teljandi færi. Einhverjir stuðningsmenn vildu fá víti þegar Lallana féll í teignum en dómari leiksins var ekki á sama máli, enda hefði það verið mjög harður dómur að dæma víti. Skömmu síðar átti svo Javier Manquillo skot yfir markið úr ágætri stöðu.
Búlgarska liðið ógnaði líka með sínum aðgerðum, snöggt innkast á sóknarmanninn Bezjak skapaði smá hættu er hann lék áfram í átt að vítateignum en skot hans fór yfir markið. Skömmu síðar gerði svo Brendan Rodgers breytingar á liðinu, inná komu þeir Fabio Borini og Lucas Leiva, af velli fóru Lallana og Coutinho. Borini var ekki búinn að vera lengi inná vellinum þegar hann átti svo góðan skalla að marki frá miðjum vítateig en skallinn var beint á markvörðinn sem sló boltann yfir.
En það voru gestirnir sem hefðu átt að skora fyrsta markið þegar góð sókn þeirra endaði með því að títtnefndur Bezjak var kominn í gott færi. Skot hans fór framhjá Mignolet sem gat lítið annað en horft á boltann smella í stönginni og út. Jordan Henderson átti svo skalla framhjá markinu úr teignum þegar hann hefði kannski átt að hitta á markið að minnsta kosti.
Allt leit út fyrir að leikurinn myndi enda með markalausu jafntefli en Mario Balotelli var á öðru máli. Aðdragandinn að markinu var þannig að Alberto Moreno vann boltann í eigin vítateig með góðri tæklingu þegar allt leit út fyrir að einn leikmanna Ludogorets væri að komast í skotstöðu. Boltanum var leikið fram á Sterling sem lagði hann aftur til Gerrard, fyrirliðinn sendi boltann út til vinstri þar sem Moreno var mættur. Hann fékk tíma til að leggja boltann fyrir sig og senda hárnákvæma sendingu á Balotelli inní teignum. Ítalinn var þar í baráttu við tvo varnarmenn en hann náði að nikka boltanum framhjá þeim og skjóta honum í fjærhornið. Fallegt mark hjá Balotelli og hann fagnaði því vel með liðsfélögum sínum.
Liverpool: Mignolet, Manquillo, Lovren, Sakho, Moreno, Gerrard, Henderson, Lallana (Borinni, 67. mín.), Coutinho (Leiva, 68. mín.), Sterling, Balotelli. Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, José Enrique, Suso, Lambert.
Mörk Liverpool: Mario Balotelli (82. mín.) og Steven Gerrard (90. mín. vítaspyrna).
Ludogorets Razgrad: Borjan, Aleksandrov, Minev, Moti, Caicara, Ivanov, Andrianantenaina, Dyakov (Espinho, 85. mín.), Misidjan (Abalo, 72. mín.), Bezjak (Younes, (86. mín.), Marcelo. Ónotaðir varamenn: Gospodinov, Angulo, Zlatinski, Wanderson.
Mark Ludogorets: Dani Abalo (90. mín.).
Gul spjöld: Milan Borjan, Aleksandar Aleksandrov, Yordan Minev og Junior Caicara.
Áhorfendur á Anfield: 43.307.
Maður leiksins: Alberto Moreno var besti maður leiksins að þessu sinni. Hann var sífellt ógnandi upp vinstri kantinn og skilaði varnarvinnu sinni mjög vel líka. Hann átti svo stóran þátt í því að Liverpool komst yfir í leiknum. Spánverjinn hefur verið fljótur að aðlagast lífinu í Englandi og er það vel.
Brendan Rodgers: ,,Við sýndum mikla ákveðni. Á stundum vorum við með réttu gæðin í leik okkar en á síðasta þriðjungi vallarins náðum við ekki að koma úrslitasendingunni á réttan stað. En kvöldið snerist um að staðfestu, ef ég ætti að lýsa þessu í einu orði. Þetta er eiginleiki sem maður þarf að búa yfir, sérstaklega þegar komið er á þetta stig í knattspyrnunni. Við gáfumst ekki upp, héldum áfram eins og við gátum. Stuðningsmennirnir voru greinilega ánægðir með það. Þetta er keppni sem snýst um að vinna leiki og stundum spilar maður vel og nær samt ekki góðum úrslitum. Það var öruggt að þetta yrði alltaf erfiður leikur fyrir okkur því þeir eru meistarar í sínu landi og það eru ekki mörg léleg lið eftir í þessari keppni."
Fróðleikur:
- Mario Balotelli skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið.
- Steven Gerrard skoraði sitt 40. mark í Evrópukeppni fyrir félagið.
- Þetta var annað mark hans á leiktíðinni.
- Alls spiluðu átta leikmenn liðsins sinn fyrsta Evrópuleik fyrir félagið.
- Aðeins þeir Raheem Sterling, Jordan Henderson og Steven Gerrard höfðu spilað áður í Evrópukeppni með Liverpool þegar leikurinn hófst.
- Ludogorets Razgrad er 120. liðið sem Liverpool mætir í Evrópukeppni.
Hér má sjá myndir úr leiknum.
Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leik.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni