| Sf. Gutt

Draumabyrjun!


Draumabyrjun! Er hægt að byrja feril sinn betur hjá uppeldisfélaginu sínu en með því að skora mark? Líklega ekki. Jordan Rossiter verður með þessa draumbyrjun á ferilskrá sinni hvað sem síðar verður. En hvernig var eiginlega að skora fyrir Liverpool í sínum fyrsta leik? Jordan hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.com eftir draumabyrjun sína.

,,Ég man nú eiginlega ekki nákvæmlega hvað ég hugsaði. Ég hafði bara í huga að reyna að hitta boltann vel. Með því að spila minn fyrsta leik þá rættist draumur sem ég átti mér. Mér var sagt á mánudaginn að ég ætti að vera í byrjunarliðinu og ef satt skal segja þá mig rak í rogastans. En ég gat ekki beðið eftir að spila og allt gekk eins og best varð á kosið. Ég get ekki lýst þessu. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera þegar ég skoraði og hljóp bara eitthvað til að fagna. En þetta var frábær reynsla."


Jordan er búinn að æfa með Liverpool frá því hann var smástrákur og þó svo hann hafði skorað í sínum fyrsta leik þá gerir hann sér grein fyrir því að hann á langt í land með að verða fastamaður í aðalliði Liverpool.

,,Ég veit sjálfur að þetta er bara byrjunin. Ég verð að halda mig á jörðinni. Framkvæmdastjórinn sagði mér að ég hefði staðið mig vel. Ég þarf að halda áfram að bæta mig og halda mig nærri aðalliðinu á meðan ég reyni að taka framförum með undir 21. árs liðinu í hverri einustu viku. Það er langt í aðalliðið fyrir mig. Ég er jú bara 17 ára."

Síðustu árin hefur Jordan Rossiter verið talinn einn allra efnilegasti ungliðinn hjá Liverpool. Hann gat ekki byrjað aðalliðsferilinn betur og það verður fróðlegt að fylgjast með honum á komandi árum. Hvað sem verður þá verður það ekki tekið af honum að hann skoraði í sínum fyrsta leik með Liverpool!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan