| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Um helgina halda Liverpoolmenn norður í land í margvíslegum skilningi. Leikmenn félagsins spila við Newcastle en sú borg er norðan við Liverpool og á Akureyri fer fram fánadagur þar sem mikið verður um dýrðir.

Leikurinn hefst kl. 12:45 (athugið að Bretar eru komnir á vetrartíma og því fara allir leikir nú fram á sama tíma og hér heima). Á Sportvitanum á Akureyri verður líklega margt um manninn því félagsmenn í Liverpoolklúbbnum sem og aðrir stuðningsmenn félagsins fjölmenna til að taka þátt í fánadegi klúbbsins. Vegleg verðlaun verða í boði í happdrætti dagsins, verðlaun verða veitt fyrir best klædda stuðningsmanninn og þeir sem vilja skrá sig í klúbbinn geta gengið frá því á staðnum. Vonandi sjáum við sem flesta á laugardaginn.

En að leiknum sjálfum. Brendan Rodgers var á blaðamannafundi fyrr í dag og tilkynnti að José Enrique á enn við hnémeiðsli að stríða sem hafa haldið honum frá síðustu tveim leikjum. Að öðru leyti eru ekki frekari meiðsli í leikmannahópnum og það styttist því alltaf í endurkomu Daniel Sturridge sem vonandi heldur sér heilum það sem eftir er tímabils.

Að öllum líkindum koma þeir Steven Gerrard og Raheem Sterling aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa verið hvíldir gegn Swansea í miðri viku. Auk þess má gera ráð fyrir að Martin Skrtel, Simon Mignolet, Alberto Moreno og Mario Balotelli byrji leikinn. Leikmenn Newcastle United eiga við þónokkur meiðsli að stríða líka en alls eru 7 á sjúkralistanum þegar þetta er skrifað. Þó er líklegt að tveir þeirra, Papiss Cisse og Mike Williamson nái þessum leik. En þeir Cheick Tioté, Jonas Gutierrez, Siem De Jong, Davide Santon og Curtis Good eru allir frá vegna meiðsla.

Heimamenn hafa verið á góðu skriði undanfarið eftir að hafa byrjað deildarkeppnina herfilega. Þeir unnu ekki leik í deildinni fyrr en í þessum mánuði eða þegar Leicester komu í heimsókn þann 18. október. Síðan þá hafa þeir leikið einn deildarleik og einn Deildarbikarleik og unnið þá báða, Tottenham úti í deild og Manchester City úti í Deildarbikar nú í vikunni. Það er því ljóst að Skjórarnir eru komnir á skrið og þeir mæta til leiks fullir sjálfstrausts.

Okkar menn ættu líka að hafa fengið eitthvað sjálfstraust eftir að hafa komið til baka gegn Swansea í miðri viku. Mario Balotelli komst loks á blað á ný og Dejan Lovren skoraði gott sigurmark í lok leiks. Það er óskandi að Brendan Rodgers átti sig á því að Ítalinn spilar mun betur þegar annar framherji er inná með honum og Fabio Borini má alveg fá tækifæri á laugardaginn, þó ekki væri nema bara fyrir þá staðreynd að hann hefur verið naskur að skora á móti Newcastle á sínum ferli. Á síðustu leiktíð skoraði hann í báðum viðureignum Newcastle og Sunderland, sem eru erkifjendur, og komst þar með nánast í dýrlingatölu hjá stuðningsmönnum Sunderland.

Síðast þegar þessi lið mættust á heimavelli Newcastle skildu liðin jöfn, 2-2 í leik þar sem Steven Gerrard skoraði úr víti og jafnaði metin 1-1. Heimamenn misstu jafnframt mann af velli þegar vítið var dæmt en þeir komust engu að síður yfir á ný í síðari hálfleik með marki eftir fast leikatriði (kunnuglegt). Daniel Sturridge jafnaði svo metin eftir undirbúning Luis Suarez en lengra komust gestirnir ekki þann daginn. Rúmt ár er síðan þetta var eða þann 19. október 2013.

Þegar litið er á síðustu sex viðureignir liðanna á þessum velli má sjá að Liverpool hafa unnið þrjá leiki, tveir hafa endað með sigri Newcastle og einn með jafntefli. Steven Gerrard jafnar goðsögnina Ian Callaghan ef hann spilar leikinn, þetta verður í 27. skipti sem hann mætir Newcastle í treyju Liverpool, nái fyrirliðinn að skora mark jafnar hann Ian Rush að metum í 2. sæti yfir markahæstu menn félagsins gegn Newcastle, Rush skoraði alls 9 mörk gegn þeim á ferlinum. Markahæstur er Michael Owen með 14 mörk í 11 leikjum, geri aðrir betur.

Stóra spurningin er sú hvort liðið nær að nýta sér góð úrslit í Deildarbikarnum í vikunni, óneitanlega eru úrslit Newcastle manna betri, það eru ekki mörg lið sem fara á heimavöll Manchester City og vinna þar. En það má ekki vanmeta hvað markið hans Balotelli getur hafa hjálpað sjálfstrausti hans og vonandi hefur hann nú reimað á sig markaskóna til frambúðar. Leikir þessara liða hafa ávallt verið fjörlegir í gegnum árin og mörk hafa litið dagsins ljós. Það munar aðeins 4 stigum á liðunum í deildinni sem segir okkur að það er stutt á milli þess að vera við toppinn eða botninn. Vonandi hirða okkar menn þrjú stig úr þessum leik og stimpla sig enn frekar inn í baráttunni á tímabilinu. Sigur í leiknum væri líka ágætt veganesti í næsta leik sem er útileikur við Real Madrid á Spáni.

Spáin er svona: Fjörugur leikur eins og við er að búast, svei mér þá ef Liverpool menn ná ekki að nýta færin sín að þessu sinni og knýja fram 1-2 sigur. Það er of mikið að biðja um að vörnin haldi hreinu annan deildarleikinn í röð, Newcastle menn skora mark í leiknum, það er nánast bókað.

Fróðleikur:

- Steven Gerrard spilar í 27. sinn gegn Newcastle á ferlinum komi hann við sögu í leiknum.

- Jafnar hann þar með Ian Callaghan yfir leikjahæstu menn félagsins gegn Newcastle.

- Liverpool eru í 7. sæti deildarinnar með 14 stig eftir 9 leiki.

- Newcastle eru í 14. sæti deildarinnar með 10 stig eftir 9 leiki.

- Eftir 9 leiki á síðasta tímabili voru okkar menn með 20 stig í þriðja sæti deildarinnar.

- Sé litið til nákvæmlega sömu leikja og á síðasta tímabili náði Liverpool í 19 stig í þessum leikjum sem spilaðir hafa verið.

Hér má sjá myndir af leikmönnum á æfingu í dag.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan