| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Þá hefst úrvalsdeildin á nýjan leik eftir enn eitt landsleikjahléð. Ekki er bjart yfir Melwood eða Anfield þessa dagana, það verður að segjast. En ætli menn sér að ná einhverju út úr þessu tímabili þá er sigur í næsta leik lífsnauðsynlegur.

Okkar menn mæta Crystal Palace á útivelli og hefjast leikar kl. 13:30 sunnudaginn 23. nóvember.

Það er svosem ekkert nýtt að frétta af meiðslum úr herbúðum Brendan Rodgers. Eins og allir vita er Daniel Sturridge búinn að meiðast enn og aftur og spilar hann ekki meir á þessu ári. Þegar litið er á sóknarlínu liðsins er fátt um fína drætti en þeir sem eiga að heita sóknarmenn hafa ekki skorað eitt deildarmark það sem af er tímabili, það styttist þá vonandi í fyrsta deildarmark hjá einhverjum af Mario Balotelli, Rickie Lambert eða Fabio Borini. Jon Flanagan er ennþá meiddur en þeir Mamadou Sakho, Mario Balotelli og Jordan Henderson eru allir tæpir en þó líklegast að sá síðastnefndi nái þessum leik. Sakho hefur verið frá lengi vegna sinna meiðsla og því ólíklegt að hann komi inn í þessum leik.

Hjá heimamönnum í Crystal Palace er aðeins einn leikmaður á sjúkralista, McArthur en hann gæti náð sér af sínum meiðslum. Neil Warnock og hans menn munu geta stillt upp sínu sterkasta liði og fyrrum leikmaður Liverpool, Martin Kelly verður ábyggilega á vaktinni í hægri bakverði í leiknum.


Það er nú ekki gaman að rifja upp síðasta leik þessara liða á Selhurst Park en það var næst síðasti leikur Liverpool á tímabilinu. Liðið var enn í baráttu um sigur í deildinni og þurfti stóran sigur í þessum leik. Allt leit vel út þangað til seint í seinni hálfleik, staðan 0-3 fyrir gestina en á hreint ótrúlegan hátt tapaði liðið niður forystunni og leikurinn endaði 3-3. Liverpool hafa ekki unnið leik á Selhurst Park síðan 1997 en reyndar hafa bara verið leiknir tveir leikir á þessum velli síðan þá, annar tapaðist og hinn endaði með jafntefli eins og áður sagði. Liðin hafa bara mæst 14 sinnum á þessum velli í deildarkeppni, Liverpool unnið 5, Palace 4 og 5 endað með jafntefli.

Gestirnir þurfa að hafa góðar gætur á Dwight Gayle sóknarmanni Palace en hann skoraði 3 mörk gegn Liverpool á síðustu leiktíð, eitt mark í 3-1 tapi á Anfield og svo tvö mörk í þessum áðurnefnda jafnteflisleik. Það kæmi því ekki á óvart ef hann yrði í byrjunarliði en Warnock er reyndar fastheldinn á sitt byrjunalið og líklega byrjar Gayle á bekknum en kemur svo inná. Það er nú ekki beint traustvekjandi að hugsa til þess að hann komi ferskur inná gegn vandræðalega slakri vörn okkar manna.

Spáin að þessu sinni er 1-1 jafntefli, sem fyrr er ólíklegt að Liverpool haldi markinu hreinu og ekki er nú líklegt heldur að liðið skori en það næst þó að pota inn einu marki í þessum leik. Svörtu skýin yfir Liverpool hreinsast því ekki alveg í burtu að þessu sinni en við hljótum að fara að sjá til sólar bráðlega.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan