| Grétar Magnússon

Jafntefli í lokaleik

Liverpool gerði 1-1 jafntefli við Basel á heimavelli í síðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það dugði ekki til að komast áfram upp úr riðlinum.

Rodgers gerði breytingar á byrjunarliðinu, Dejan Lovren kom inn í stað Kolo Toure sem átti við meiðsli að stríða, José Enrique kom inn í stað Alberto Moreno, Joe Allen í stað Adam Lallana og Steven Gerrard í staðinn fyrir Philippe Coutinho.

Það er skemmst frá því að segja að fyrri hálfleikur var hörmulegur hjá heimamönnum eins og svo oft hefur verið raunin á tímabilinu. Svissneska liðið gekk á lagið og á 25. mínútu skoruðu þeir fyrsta mark leiksins. Það sem eftir lifði hálfleiks voru þeir betri og óheppnir að bæta ekki við marki. Þegar flautað var til hálfleiks var ljóst að Rodgers þyrfti að gera breytingar.

Hann gerði það, setti Moreno inná fyrir José Enrique og tók Lambert útaf fyrir Markovic. Við þetta hresstust heimamenn eitthvað en á 51. mínútu var Markovic rekinn útaf fyrir að slá til eins leikmanns Basel. Afskaplega óviturlegt hjá Serbanum þarna en hann hafði spilað vel fram að þessu og verið ógnandi.

Þrátt fyrir að vera manni færri gáfust Liverpool menn ekki upp og fyrirliðinn Steven Gerrard skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnu á 81. mínútu og gaf öllum von um að sigurmarkið gæti litið dagsins ljós. Það gerðist hinsvegar ekki þrátt fyrir ágætar tilraunir og lokaflautið gall í stöðunni 1-1.

Veru liðsins í Meistaradeildinni þetta tímabilið og í fyrsta skipti í fimm ár er nú lokið og við tekur Evrópudeildin. Afskaplega svekkjandi svo ekki sé meira sagt.


Liverpool:
Mignolet, Johnson, Skrtel, Lovren, José Enrique (Moreno, 45. mín.), Leiva (Coutinho, 74. mín.), Allen, Henderson, Gerrard, Sterling og Lambert (Markovic, 45. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Sakho, Lallana og Can.

Mark Liverpool: Steven Gerrard, 81. mín.

Gul spjöld: Dejan Lovren, Alberto Moreno og Lucas Leiva.

Rautt spjald: Lazar Markovic.

Basel: Vaclik, Xhaka, Schär, Suchy, Safari, Elneny (Díaz, 83. mín.), Frei, Zuffi (Samuel, 88. mín.), González, Streller (Embolo, 74. mín.), Gashi. Ónotaðir varamenn: Degen, Delgado, Vailati, Hamoudi.

Gult spjald: Fabian Schär.

Mark Basel: Fabian Frei, 25. mín.

Áhorfendur á Anfield: 43.290.


Brendan Rodgers: ,,Í fyrri hálfleik vorum við ekki nógu góðir - það er svo einfalt. Tæknilega vorum við langt á eftir. Þetta er keppni, þar sem tækni er gríðarlega mikið atriði og maður þarf að vera mun betri en við sýndum í fyrri hálfleik. Staðsetningar okkar voru ekki góðar, möguleikar mannsins með bolta voru ekki nærri í þeim gæðaflokki hjá liði sem byggir leik sinn upp á tæknilegan hátt. Í seinni hálfleik vorum við mun betri hvað þetta varðar og vorum hugrakkari í okkar leik."

Fróðleikur

- Basel vann riðilinn. 

- Liverpool lenti í öðru sæti og tekur þátt í Evrópudeildinni eftir áramót. 

- Steven Gerrard skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni.

Hér má sjá myndir úr leiknum.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan