| Elvar Guðmundsson

Jafntefli á Goodison Park

Liverpool og Everton mættust í grannaslag númer 224 og niðurstaðan markalaust jafntefli. Leikið var á Goodison Park í þetta skipti og leikurinn frekar bragðdaufur en taktísk undiralda þeim mun sterkari. Everton kom inn í leikinn 12 stigum á eftir okkur í töflunni en virtust hafa meiri áhuga á að halda þeim mun frekar en að minnka hann. 

7815__6577__462914996.jpgJordan Ibe var óvænt í byrjunarliðinu og tók stöðu Markovic á hægri vængnum og Lucas var einnig leikfær og byrjaði inná ásamt Henderson sem þýddi að Gerrard færðist framar á völlinn í 3-4-2-1 leikkerfinu sem virðist vera farið að virka mjög vel. Persónulega er ég gríðarlega ánægður með hvað Brendan er óhræddur við að henda ungum leikmönnum í djúpu laugina, flestir hefðu líklega valið "auðveldari" leik en nágrannarimmu á útivelli fyrir Ibe að byrja inná í.

Bæði Balotelli og Borini voru utan hóps í gær.

Gerrard var í gær að spila sinn 33. og líklega síðasta leik gegn Everton og hafði frekar hægt um sig eins og flestir á vellinum. Hann átti fyrstu atlöguna að marki Everton er aukaspyrna hans var varin í horn alveg uppi í markvinklinum vinstra megin. 

Á 16. mínútu varð Lucas að yfirgefa völlinn, líklega vegna meiðsla á læri sem héldu honum utan vallar gegn Bolton í vikunni. Joe Allen tók hans stöðu og gerði það alveg ágætlega.

Mínútu síðar munaði engu að Liverpool kæmist yfir. Skot Sterling fór af varnarmanni og rúllaði fyrir markið hægra megin þar sem aðvífandi Ibe var hársbreidd frá því að skora en aftur varði Robles í horn.

Liverpool komst svo enn nærri marki er mjög svo frískur Ibe lék með boltann innað vítageig heimamanna og lét vaða af 25 metrunum, boltinn í utanverða fjærstöngina. 

Snemma í síðari hálfleik komst svo Sterling innfyrir vinstra megin eftir stungusendingu Coutinho en skot hans varið í horn. Eftir hornspyrnuna fékk Gerrard færi á að stimpla sig út úr þessum derby leikjum á alvöru hátt, en hjólhestaspyrna hans fór af Naismith í horn.7815__6577__462914996.jpg

Sturridge kom svo inn eftir 56 mínútna leik og átti skot sem fór af Jagielka eftir 70 mínútur. 

Það næsta markverða sem gerðist voru handalögmál á milli Henderson og Naismith seint í leiknum, áður en annar varamaður, Lambert, átti slakt skot úr ágætu færi beint á Robles. 

Mignolet varði svo vel frá Coleman á síðustu mínútum leiksins, eina skot heimamanna á markið!

Leikurinn í heild mikill baráttuleikur þar sem fá færi litu dagsins ljós. Liverpool áttu 17 skot að marki (6 á rammann) á móti 6 (eitt á markið) frá Everton.

Ljóst er að öll töpuð stig eru erfið að kyngja á þessu stigi mótsins en þó skárra gegn liðum sem eru ekki, eins og staðan er núna, í beinni samkeppni við okkur um fjórða sætið. Við fáum hins vegar lið í heimsókn næsta þriðjudag, Tottenham, sem eru 4 stigum ofar en við og það er leikur sem verður að vinnast.

Það virtist sem það væri smá þreyta í mönnum eftir erfiðan bikarleik gegn Bolton, og Couthinho og Sterling hafa verið sprækari, sem og fyrirliðinn Gerrard. En það verður samt að gefa Everton "kredit" fyrir skipulagðan leik og ljóst að lið eru aftur farin að hræðast flæðið í sóknarleik okkar manna og farin að bakka meira gegn okkur.

Stig á Goodison niðurstaðan og vonum að þau verði þrjú á Anfield Road næsta þriðjudag.

Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Ibe, Henderson, Lucas (Allen, 16. mín.), Moreno, Gerrard, Sterling (Lambert, 82. mín.), Coutinho (Sturridge, 56. mín.)

Gul spjöld: Henderson.

Everton: Robles, Coleman, Stones, Jagielka, Oviedo, McCarthy, Barry, Besic (Alcaraz, 86. mín.), Mirallas (Lennon, 60. mín.), Naismith (Barkley, 85. mín.), Lukaku.

Gul spjöld: Oviedo, McCarthy, Besic og Naismith.

Áhorfendur á Goodison Park: 39.621.

Maður leiksins: Tveir menn sem ég vel að þessu sinni. Annars vegar er það 19 ára strákur sem var að byrja sinn 2. leik í Liverpool treyjunni, Jordan Ibe. Var sprækur og óragur að keyra að vörn Everton. Hins vegar er það Emre Can sem steig vart feilspor og nánast pakkaði Lukaku saman allan leikinn.

Brendan Rodgers: "Heilt yfir vorum við betri aðilinn í leiknum og jafnvægið gott í liðinu. Það slokknaði á okkur í lokin þegar þeir fengu sitt eina færi en annars vorum við vel skipulagðir, pressuðum vel og vorum hættulegir framávið.  Kannski hefðum við þurft smá heppni með okkur á síðasta þriðjung en þetta var enn eitt "clean sheet", eitt stig í safnið og við höldum áfram. Stjórinn var ánægður með framlag ungu leikmannanna. "Sjáiði Emre Can, 21 árs, hann var Rolls Royce varnarlega séð, varðist frábærlega og flottur á boltann. Við þurfum að meta Lucas, hann fann aftur fyrir innanverðu læri og við sjáum til hvað athugun leðir í ljós".

Fróðleikur:

- Steven Gerrard lék sinn 23. leik gegn Everton.

- Liverpool er ósigrað í 8 deildarleikjum.

- Liverpool hélt hreinu í sínum 4. deildarleik í röð.

- Everton með aðeins 1 sigur í síðustu 8 deildarleikjum.

- Jordan Ibe öðru sinni í byrjunarliði Liverpool.

Hér eru myndir frá leiknum.

Hér má sjá viðtöl eftir leik.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan