| Elvar Guðmundsson

Góður sigur gegn Burnley


Liverpool tók á móti Burnley í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Góður 2-0 sigur vannst og liðið ósigrað í síðustu 12 deildarleikjum.

Brendan gerði eina breytingu frá sigrinum á meisturum síðasta árs og henti Sturridge inn fyrir Markovic, sem þýddi að Sterling fór niður í hægri vængstöðuna og Sturridge tók stöðu hans uppi á topp.

Það er skemmst frá því að segja að Liverpool átti þennan leik frá fyrstu mínútu. Sturridge fékk gott færi eftir 25 sekúndur og frábæra sókn en Heaton, besti maður Burnley í kvöld, varði vel niðri í vinstra horninu. 

Henderson fékk því næst gott skallafæri eftir horn á 4. mínútu en stangaði boltann uppí Kop stúkuna. Hann var aftur á ferðinni á þeirri 10. en skot hans yfir. Enn reyndi Henderson en Heaton varði hnitmiðað innanfótar skot hans í horn um miðjan fyrri hálfleik. Sturridge var svo klaufi að ná ekki betri snertingu á boltann í markteig Burnley manna eftir hornspyrnuna.

Enn skapaðist hætta á 26. mínútu er títtnefndur Henderson átti frábæra sendingu innfyrir á Sturridge sem misreiknaði sendinguna örlítið og náði ekki til knattarins.

Það var svo á 28. mínútu sem e-ð varð hreinlega undan að láta og fyrirliðinn Jordan Henderson skoraði með góðu skoti frá vítateig eftir að skot frá Coutinho hafði verið blokkerað. Þrumuskot á lofti og ekki laust við að smá "Gerrard stíll" hafi verið yfir markinu.

Eftir markið róaðist leikurinn aðeins enda frekar ósanngjarnt hvernig Liverpool var að leika sér að mótherja sínum. Síðasta færi okkar manna í hálfleiknum kom á 42. mínútu er Sturridge var settur í gegn með snilldarsendingu Coutinho en Heaton varði með góðu úthlaupi. Þarna hefði Sturridge átt að gera betur og hann veit það manna best.

Mignolet greip svo vel inní skalla fyrir markið á lokasekúndu hálfleiksins og því 1-0 sanngjörn forysta í hálfleik. Heimamenn með 13 marktilraunir gegn aðeins 4 Burnley manna.

Okkar menn gerðu svo útum leikinn á 51. mínútu er Hendo átti frábæra sendingu beint á kollinn á Sturridge sem urðu ekki á nein mistök og skallaði í nærhornið frá markteig. 2-0 og nokkuð þægileg staða.

Nánast ekkert markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og þrjú dýrmæt stig í safnið. 

Mjög þægilegur sigur og mun auðveldari en ég hélt fyrir leik. Menn mættu greinilega vel stemmdir og tilbúnir í verkefnið og þá virka svona sigrar mjög léttir. Heilt yfir spilaði liðið vel og sérstaklega miðjubræðurnir, þeir Allen og fyrirliði kvöldsins, Henderson. Ekki laust við að Hendo hafi minnt á Gerrard, bæði í markinu sem hann gerði og ekki síður sendingunni af hægra miðsvæðinu inná Sturridge.

Vel gert strákar og nú er bara að gíra sig inná bikarleikinn gegn Blackburn um helgina og koma okkur í undanúrslit þar!

Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Lovren, Sterling (Lambert, 90. mín.), Henderson, Allen, Moreno (Toure, 73. mín.), Lallana, Coutinho, Sturridge (Johnson, 83. mín.).

Mörk Liverpool: Jordan Henderson, 28. mín. og Daniel Sturridge, 51. mín.

Burnley: Heaton, Trippier, Keane, Shackell, Mee, Boyd, Arfield, Jones, Kightly (Wallace, 52. mín.), Barnes (Vokes, 66. mín.), Ings (Jutkiewicz, 90. mín.).

Gul spjöld: Mee.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.717.

Maður leiksins: Allt liðið að tikka vel í þessum leik. Fannst varnarlínan afar sannfærandi með Skrtel fremstan meðal jafningja, sá er heldur betur að spila vel þessar vikurnar. Á miðsvæðinu var það svo Henderson sem var allt í öllu og fær mann leiksins að þessu sinni.

Brendan Rodgers: "Þetta var mjög góð frammistaða í kvöld. Þetta geta alltaf verið erfiðir leikir þar sem allir búast við sigri. Það er mjög erfitt að sigra þetta Burnley lið, en við vorum mjög skipulagðir í okkar varnarleik og mjög hættulegir fram á við"

Fróðleikur:


- Liverpool er nú ósigrað í 12 deildarleikjum í röð.

- Jordan Henderson skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. 

- Henderson náði sinni 7. stoðsendingu í kvöld.

- Daniel Sturridge skoraði fjórða mark sitt á sparktíðinni. 

- Burnley með aðeins 1 sigur í síðustu 12 leikjum þeirra.

Hér má skoða myndir úr leiknum.

Hér er viðtal við Brendan eftir leik.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan