| Sf. Gutt

Robbie Fowler fertugur


Fertugur er í dag Robert Bernard Fowler. Robbie er einn af mestu markaskorurum í sögu Liverpool. Þegar hann var upp á sitt besta stóðust fáir varnarmenn honum snúning og hann skoraði að vild að því manni virtist. Fáir leikmenn í seinni tíð hafa verið vinsælli hjá stuðningsmönnum Liverpool og er óhætt að segja að hann skipi sérstakan sess hjá þeim.

 

Robbie fæddist í Liverpool 9. apríl 1975. Hann æfði með yngri liðum Liverpool og þótti snemma hafa mikla hæfileika í að skora mörk. Hann komst í aðallið Liverpool haustið 1993 og upphóf strax mikla markaskorun. Hann skoraði í sínum fyrsta leik þegar Liverpool vann 1:3 útisigur á Fulham í Deildarbikarnum. Í seinni leik liðanna skoraði hann öll mörkin í 5:0 sigri!


Ekkert virtist geta stöðvað Robbie þar til hann varð fyrir hnjámeiðslum á leiktíðinni 1997/98. Hann skoraði vissulega mikið eftir það en meiðslin settu strik í reikninginn. Það óhugsandi gerðist í nóvember 2001 að Robbie var seldur til Leeds United. Hann lék síðar með Manchester City en í janúar 2006 fékk hann óvænt tækifæri til að koma aftur til Liverpool. Hann var auðvitað búinn með sitt besta en bætti leikjum og mörkum á afrekaskrá sína áður en hann yfirgaf Liverpool vorið 2007. Hann segir þessa óvæntu sendurkomu hafa verið hápunktinn á ferli sínum. Robbie endaði ferilinn á Englandi með Cardiff City og Blackburn Rovers áður en hann lék um tíma í Ástralíu og Tælandi.


Robbie lék alls 369 leiki með Liverpool og skoraði 183 mörk. Hann er fimmti markahæsti leikmaður í sögu Liverpool ásamt Steven Gerrard. Robbie varð Deildarbikarmeistari 1995 og 2001. Hann vann svo F.A. bikarinn, Evrópukeppni félagsliða og Stórbikar Evrópu 2001. Hann lék 26 landsleiki fyrir England og skoraði sjö sinnum. 


Robbie Fowler var gestur á árshátíð Liverpool klúbbsins í fyrra. Koma hans vakti mikla athygli og aðdáendur kappans hópuðust að honum hvar sem hann kom. Robbie er núna sendiherra Liverpool Football Club og kemur fram við ýmis tækifæri fyrir hönd félagsins. Hann rekur líka knattspyrnuskóla ef rétt er vitað.


Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Robbie Fowler til hamingju með daginn!

Hér má lesa allt um feril Robbie á LFChistory.net.



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan