| Heimir Eyvindarson

Þrennt sem Brendan á eftir að taka ákvörðun um

Blaðamenn Liverpool Echo fara yfir það nú í morgunsárið hvaða atriði í Liverpool liðinu valda Brendan Rodgers mestu hugarangri, nú þegar styttist í fyrsta alvöruleik tímabilsins.

Á sunnudag mætir Liverpool Stoke á Brittania Stadium í fyrsta leik okkar manna í Úrvalsdeild á komandi leiktíð.

Liverpool galt algjört afhroð í síðasta leik liðanna, sem var einmitt lokaleikur síðustu leiktíðar. Vonandi getum við bráðum gleymt þeim leik fyrir fullt og allt, en þar var líklega um að ræða einhverja verstu frammistöðu Liverpool liðs í manna minnum. 

Blaðamenn Liverpool Echo hafa margir hverjir ansi góða tengingu við Liverpool liðið og í pistli dagsins í dag er því slegið fram að það séu einkum þrjú atriði sem Brendan Rodgers eigi erfitt með að taka ákvörðun um fyrir leikinn mikilvæga á sunnudag.

Í fyrsta lagi er það endanleg leikaðferð. Það hefur sést í æfingaleikjunum að leikaðferðin sem byggt verður á verður einhverskonar afbrigði af 4-3-3, en spurning hvort það verði 4-2-3-1, 4-1-2-2-1 eða eitthvað annað. Það eina sem virðist alveg ljóst er að vörnin verður fjögurra manna og væntanlega verður Benteke einn upp á topp, þannig að 4-2-3-1 hljómar sennilega. Aðalspurningin er þó hvort Brendan hyggst nota djúpan miðjumann eða ekki.

Í Liverpool Echo reikna menn með að Brendan muni ekki byrja með djúpan miðjumann og þá verði Henderson og Milner aftastir á miðjunni og Coutinho þar fyrir framan.

Vinstri bakvarðarstaðan veldur stjóranum einnig hugarangri, en valið stendur á milli Alberto Moreno og hins 18 ára gamla Joe Gomez, sem hefur fengið að spila heldur meira í æfingaleikjunum en talið var fyrirfram. Þar sem Moreno hefur ekki verið nægilega sannfærandi þykir mönnum á Echo heldur líklegra að Gomez verði í byrjunarliðinu.

Byrji Gomez leikinn á sunnudag verður það að teljast ákveðinn skellur fyrir Moreno því Gomez er í fyrsta lagi barnungur og í öðru lagi ekki vanur að spila vinstri bakvörð. Hann er í grunninn miðvörður en hefur spilað bakvörð af og til, þá frekar hægra megin þar sem hann er réttfættur. Það væru því skýr skilaboð til Spánverjans að taka sig saman í andlitinu, ef Gomez verður tekinn fram yfir hann.

Svo eru það blessaðir miðverðirnir. Martin Skrtel er sá eini sem er öruggur með sitt sæti, en Rodgers viðurkenndi um helgina að hann væri ekki enn búinn að ákveða hvort hann stillti Dejan Lovren eða Mamadou Sakho upp með Slóvakanum. Blaðamenn Echo hallast að því að Lovren verði fyrir valinu, einkum vegna þess að hann spilaði leikinn gegn HJK Helsinki á laugardaginn.

Það er eðlilega mikil pressa á stjóranum, eftir síðustu leiktíð og flestir telja að hann fái ekki marga mánuði með liðið ef illa gengur til að byrja með. Það er þessvegna gríðarlega mikilvægt að liðið standi sig á sunnudaginn og alveg morgunljóst að Rodgers fær að heyra það frá stuðningsmönnum ef illa fer. Fari til dæmis svo að Lovren verði í byrjunarliðinu og standi sig illa er öruggt mál að netmiðlar munu fyllast af óhróðri um þrjósku og þvermóðsku stjórans. Króatinn er ekki beint vinsælasti leikmaður félagsins um þessar mundir og samkvæmt könnunum á vefmiðlum vilja stuðningsmenn miklu frekar sjá Sakho í byrjunarliðinu en Lovren.

Liverpool Echo dregur þær ályktanir af þessum vangaveltum öllum að líklegt byrjunarlið á sunnudaginn sé svona: Mignolet, Clyne, Skrtel, Lovren, Gomez, Henderson, Milner, Coutinho, Lallana, Ibe, Benteke. Þetta þýðir að Roberto Firmino byrjar á bekknum, en óhætt er að segja að stuðningsmenn Liverpool bíði þess með mikilli eftirvæntingu að sjá hann í alvöru leik með félaginu.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan