| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool heimsækir Arsenal á Emirates á mánudagskvöldið. Það er alveg ljóst að sá leikur verður gríðarlega erfiður, enda sækja okkar menn sjaldan gull í greipar Arsenal í höfuðborginni. 

Liverpool hefur gengið fremur illa með Arsenal á síðari árum og það hefur alls ekki gerst oft í seinni tíð að Liverpool taki öll stigin á Emirates. Seinast gerðist það í ágúst 2011 þegar 2-0 sigur vannst undir stjórn Kenny Dalglish. Síðan þá hefur Liverpool aldrei unnið Arsenal á Emirates og raunar aðeins einu sinni á Anfield, 5-1 stórsigurinn í febrúar 2014. Sagan er því Liverpool ekkert sérstaklega hliðholl, aldrei slíku vant.

Önnur athyglisverð tölfræði sem vert er að hafa áhyggjur af er sú staðreynd að frá því að Brendan Rodgers tók við Liverpool hefur liðinu aðeins einu sinni tekist að sigra eitt af fjórum stærstu liðunum (Chelsea, M.City, M.United og Arsenal) á útivelli. Það var á Old Trafford leiktíðina 2013-14, en þá tapaði andlaust Manchester United lið David Moyes fyrir okkar mönnum. Þessi tölfræði er hreint ekki glæsileg og má vera öllum ljóst að hana þarf að bæta ef Liverpool ætlar sér í alvöru að keppa við stærstu liðin.

En þrátt fyrir að tölfræðin gegn stærri liðunum sé ekki beysin þá má sjá á henni bjartar hliðar. Að mörgu leyti gefa úrslit Liverpool undir stjórn Rodgers nefnilega raunsærri mynd af stöðu liðsins, en úrslit síðustu 25 ára hafa gefið. Allt frá því á 10. áratug síðustu aldar hefur Liverpool í raun verið óttalegt jójó lið. Unnið bestu lið í heimi einn daginn, en tapað fyrir Wimbledon í næsta leik.

Mér finnst þessum sveiflum hafa fækkað til muna og ég reyni iðulega að selja sjalfum mér þá hugmynd að nú sé loks að komast stöðugleiki á liðið og árangurinn gegn stærstu liðunum gefi einfaldlega ágætlega rétta mynd af stöðu liðsins. Við séum einfaldlega ekki alveg búin að ná þeim, en það fari vonandi að gerast. Liverpool gerir allavega ekki mikið af því að tapa fyrir neðri deildar liðum, þótt frammistaðan mætti vissulega stundum vera betri.    

Brendan Rodgers hefur stillt upp óbreyttu liði í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins og það er ekki hægt að kvarta yfir árangrinum. Liðið er með fullt hús stiga og hefur ekki fengið á sig mark. Það má síðan deila um hver gæði leiks okkar manna hafa verið, en það er önnur saga.

Jordan Henderson þurfti að fara af velli í leiknum gegn Bournemouth á mánudaginn og Brendan Rodgers sagði í morgun að næstu 48 tímar myndu skera úr um það hvort hann yrði leikfær í tæka tíð. Það er mikið áhyggjuefni ef Henderson verður ekki með því það hefur margoft sýnt sig hversu mikilvægur leikmaður hann er. Ef Henderson fær ekki grænt ljós þá er líklegast að annað hvort Emre Can eða Lucas Leiva komi inn í liðið. Lucas virðist þó jafnvel vera á förum til Besiktas, þannig að það er ekki víst að hann fái tækifærið.

Ef Lucas kemur inn í liðið þá er allt eins líklegt að Rodgers stilli upp demantamiðju með Lucas aftastan. Það gæti hann hugsanlega einnig gert ef Can kemur inn. Flestir veðja þó á að hann notist við óbreytt kerfi og Emre Can komi einfaldlega inn í stöðu Hendersons við hlið Milner á miðjunni.

Þá eru vangaveltur um það hvort Jordon Ibe og Adam Lallana haldi sætum sínum í liðinu, en frammistaða þeirra hefur valdið nokkrum vonbrigðum. Lallana spilaði reyndar allan leikinn gegn Bournemouth og var mjög duglegur, en lítið kom út úr honum sóknarlega.

Roberto Firmino hefur komið nokkuð sprækur inn í báða fyrstu leikina og margir veðja á að hann fái loks tækifæri í byrjunarliðinu, en einnig er möguleiki að Alberto Moreno verði settur á kantinn í stað Ibe en hann átti líflega innkomu gegn Bournemouth á mánudaginn og hjálpaði hinum unga Joe Gomez heilmikið á vinstri vængnum.

Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir að varnarlína Liverpool virki mun öruggari nú í upphafi leiktíðar en oft áður þá hefur ekki reynt neitt sérstaklega mikið á hana. Á mánudaginn kemur stóra þolraunin, þegar Arsenal mætir með alla sína flinku sóknarmenn. Ef vörnin og markvörðurinn standast það próf þá er útlitið bjart. Persónulega hef ég áhyggjur af Joe Gomez, þótt hann sé augljóslega gríðarlegt efni. Mér liði altént betur ef Moreno yrði hafður á vinstri vængnum honum til hjálpar.

Eins hef ég áhyggjur af svæðinu milli varnar og miðju ef Rodgers ætlar að spila sama kerfi og hann hefur stillt upp í fyrstu leikjunum. Emre Can hefur einfaldlega ekki sömu yfirferð og Henderson, þannig að þar gætu opnast hættulegar glufur.

Arsenal tapaði óvænt gegn West Ham á Emirates í fyrsta leik tímabilsins og þessvegna er alveg klárt mál að liðið mætir harðákveðið til leiks, enda yrði það þvílíkur skellur fyrir Wenger að tapa tveimur fyrstu leikjunum á heimavelli, á leiktíð þar sem liðinu er jafnvel spáð sigri í deildinni. Danny Welbeck og Jack Wilshere eru báðir meiddir, en aðrir leikmenn eru heilir. Hjá Liverpool eru Allen, Sturridge og Flanagan meiddir og Henderson tæpur.

Það er fátt sem mælir með því að Liverpool muni fara með sigur af hólmi á mánudaginn. Þrátt fyrir að liðið sé með fullt hús stiga og hafi ekki enn fengið á sig mark hefur leikur liðsins ekki verið stórkostlegur, en svo allrar sanngirni sé gætt þá hefur margt jákvætt verið í leik liðsins. Tölfræði síðari ára er hreint ekki í liði með okkar mönnum og síðasti leikur á Emirates gjörtapaðist. Ég get samt ekki með nokkru móti fengið mig til að spá mínum mönnum tapi þannig að ég leyfi mér að spá 1-1 jafntefli í hörkuleik. Markið kemur frá Firmino eða Origi.

YNWA!



 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan