| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Fyrsti Evrópuleikur tímabilsins er gegn franska liðinu Bordeaux í Frakklandi í dag. Leikurinn hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma.

Leikmannahópurinn sem ferðaðist til Frakklands vakti nokkra athygli en Brendan Rodgers ákvað að velja ekki þá Christian Benteke, James Milner, Lucas Leiva, Dejan Lovren, Nathaniel Clyne og Martin Skrtel. Það er því ljóst að byrjunarliðið verður mjög frábrugðið því sem við eigum að venjast það sem af er tímabili. Jordan Henderson er svo ennþá meiddur og spilar ekki þennan leik. Góðar fréttir hafa svo borist af Adam Lallana en hann er búinn að ná sér af sínum meiðslum og er í leikmannahópnum.

Rodgers hefur staðfest að Mamadou Sakho byrji leikinn sem og Divock Origi, þá er einnig talið að Alberto Moreno, Kolo Toure, Jordan Rossiter og Jordon Ibe verði allir í byrjunarliðinu. Philippe Coutinho er svo kominn til baka eftir að hafa verið í leikbanni í síðasta leik og væntanlega spilar hann einhverja rullu í dag. Einnig verður fróðlegt að fylgjast með því hvort að ungliðarnir Connor Randall, Cameron Brannagan og Dan Cleary fái tækifæri til að koma inná.

Bordeaux hafa byrjað tímabilið á svipuðum nótum og okkar menn. Eftir fimm leiki sitja þeir í 12. sæti deildarinnar með 6 stig. Á heimavelli hafa þeir unnið einn og tapað einum en í síðasta leik náðu þeir góðu jafntefli á útivelli gegn PSG sem verður að teljast góð úrslit. Heimavöllur þeirra er glænýr, var tekinn í notkun í upphafi tímabils og vonandi hafa heimamenn ekki alveg vanist nýja vellinum ennþá.

Margir stuðningsmenn félagsins eru farnir að kalla eftir því að Brendan Rodgers verði rekinn eftir þessa byrjun í deildinni sem skilað hefur 7 stigum. Það er svosem ekki skrýtin krafa þannig séð en þó verður að horfa í það að tímabilið er nýbyrjað og byrjunin hefur ekki verið alslæm. Einu almennilega slæmu úrslitin voru gegn West Ham heima en það sem hringir meiri aðvörunarbjöllum er að Rodgers virðist bara alls ekki vita hvaða leikkerfi á að spila sem nýtist liðinu best. Christian Benteke hefur verið einangraður frammi og fáir skilja af hverju er ekki spilað með tvo framherja. Einnig hefur mönnum ítrekað verið spilað út úr stöðu og varkárni virðist vera það sem Rodgers hefur að leiðarljósi nú. Varkárni hefur hinsvegar ekki verið hans aðalsmerki á stjóraferlinum og nokkrir málsmetandi menn, þar á meðal Paul Tomkins, hafa bent á að Rodgers þarf einfaldlega að snúa sér aftur að þeirri uppstillingu á liðinu sem skýtur mótherjunum skelk í bringu frekar en hitt.

En hlutirnir eru víst aldrei svo einfaldir í þessum bolta. Við stuðningsmenn erum alls ekki að biðja um flókna hluti. Við viljum að liðið sýni baráttu í hverjum leik og að leikmenn berjist til síðasta blóðdropa. Tölfræðin á móti Manchester United í síðasta leik var benti því miður ekki til þess, leikmenn Liverpool varla tækluðu leikmenn United inná miðsvæðinu og lítil barátta var í mönnum. Nú þurfa allir að leggjast á eitt í þessu liði og berjast til síðasta manns.

Spáin er að þessu sinni sú að heimamenn í Bordeaux sigra 2-1 og pressan heldur áfram að aukast á Rodgers í starfi. Hafa ber þó í huga að þetta er klárlega erfiðasti leikur riðilsins svona fyrirfram en það eitt og sér á ekki að ráða úrslitum. Ef liðið mætir til leiks frá fyrstu mínútu með festu og gefur ekkert eftir, þá gætu heimamenn átt erfitt uppdráttar. En því miður hefur maður litla trú á því að leikmenn muni mæta til leiks með höfuðið hátt og brjóstkassann fram.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan