| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Tottenham Hotspur v Liverpool



Valdatíð Jürgen Klopp hófst fimmtudaginn fyrir viku en þá skrifaði hann undir samning við Liverpool um að vera næsti framkvæmdastjóri liðsins. Daginn eftir var haldinn eftirminnilegur blaðamannafundur á Anfield þar sem Jürgen var kynntur til sögunnar. Óhætt er að segja að þessi fundur sé kominn í þjóðsagnasafn Liverpool. Þjóðverjinn sagðist vera sá venjulegi en hann er kannski ekki alveg eins venjulegur og hann vill vera láta.


Segja má að hann, og samverkamenn hans, hafi unnið kraftaverk þegar þeir rifu Borussia Dortmund á fætur og gerðu liðið að besta liði landsins í tvígang. Þetta var gert með lítil fjárráð en þeim mun meira af dugnaði, skipulagi og eldmóði. Leikmönnunum var blásinn baráttuandi í brjóst og leikinn var knattspyrna af fullum krafti með þungarokk að fyrirmynd. Allt var gefið í leikina og árangurinn skilaði sér. Að auki, og ekki síst, var gríðarlega magnaður stuðningsmannaher virkjaður. Þungarokk var ekki til þegar Bill Shankly var og hét en það mætti segja að áhrif Bill þegar hann tók við Liverpool hafi ekki verið ósvipuð. Hann vakti dottandi risa og virkjaði alla þætti saman. Félagið, leikmenn, starfsfólk, stuðningsmenn og leikvanginn. Allt þetta varð að einu afli sem var á köflum ósigrandi.


Brendan Rodgers gerði góða hluti hjá Liverpool og hann fór langt með að ná enska meistaratitlinum í hús. Það tókst ekki og smá saman, á síðustu leiktíð og þangað til valdatíð hans lauk, dró úr öllu og öllum. Það þarf að rífa Liverpool í gang líkt og þegar Jürgen tók við Dortmund.    


Auðvitað væri magnað ef Jürgen tækist það sama hjá Liverpool. Það er þó rétt að hafa varann á. En Þjóðverjinn mun án nokkurs vafa færa líf í leikmennina og stuðningsmennina. Liðið á eftir að leika betur og komast á sigurbraut. Verkefnið sem allir þeir framkvæmdastjórar Liverpool, frá því Kenny Dalglish sagði af sér 1991, hafa fengið er að vinna enska meistaratitilinn. Engum hefur tekist það að Jürgen mun ekki gera það hér og nú. En hann hefur heillað stuðningsmenn Liverpool og þjappað þeim saman. Ekki ósvipað og Kenny Dalglish gerði þegar hann tók við af Roy Hodgson. Það er fyrsta skrefið og hver veit hvað gerist á næstu árum. Vegferðin með Þjóðverjanum verður að minnsta kosti skemmtileg!


Það verður ekkert áhlaupaverk að vinna á White Hart Lane á morgun. Tottenham hefur verið að eflast eftir því sem liðið hefur á og það eru margir góðir leikmenn í liðinu. Liverpool lék alls ekki sem verst á móti Everton og liðið ætti að spila betur eftir að þýsku þjálfararnir eru búnir að leggja sínar hugmyndir fram. Á móti kemur að það er hið versta mál að hafa misst Danny Ings vegna meiðsla og hann bætist í hóp þeirra Jordan Henderson, Christian Benteke og Roberto Firmino sem eru meiddir.  



Ég spái því að Jürgen fái óskabyrjun og stuðningsmenn Liverpool fái að sjá trylltan fögnuð hans á hliðarlínunni. Leikmenn Liverpool munu hlaupa aðeins hraðar og berjast af aðeins meiri krafti en í fyrstu leikjum leiktíðarinnar. Það mun líka vera meiri leikgleði í liðinu. Liverpool vinnur 1:2. James Milner og Adam Lallana skora. Munum að við, stuðningsmenn Liverpool, eigum að breyta hugarfari okkar frá því að efast og yfir í að trúa! Ég trúi því að þetta sé leikur sem Liverpool hlýtur að vinna!

YNWA


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan