| Sf. Gutt

Þriðja jafnteflið í röð

Liverpool gerði þriðja jafntefli sitt í röð í Evrópudeildinni í fyrsta leiknum sem Jürgen Klopp stýrði liðinu á Anfield Road. 

Jürgen hafði biðlað til áhorfenda um að taka þátt í því verkefni sem hann og samverkamenn hans eru að hefja. The Kop lét ekki sitt eftir liggja. Þjóðsöngurinn var sunginn af krafti fyrir leikinn og það var greinilegt að áhorfendur ætluðu að sýna sínar bestu hliðar. 

Það var ekki jafn mikill kraftur í leikmönnum Liverpool í upphafi eins og hafði verið þegar liðið mætti Tottenham. Gamalkunnugt stef skaut svo upp kollinum á 15. mínútu þegar gestirnir náðu forystu. Marko Devic tók vel við hárri sendingu inni á vítateignum og afgreiddi boltann laglega framhjá Simon Mignolet sem átti ekki möguleika. Sama gerðist oft síðustu mánuði hjá Brendan Rodgers. Eitt færi fyrir andstæðingana og mark!

Nú studdu áhorfendur liðið eins og þeir eiga að gera. Strax og Rússarnir skoruðu fóru þeir að syngja og hvetja liðið. Þetta hefur sárlega vantað síðustu mánuðina. Rétt eftir markið átti Adam Lallana, sem var mjög góður, skot sem smaug framhjá markinu. Á 20. mínútu fékk Divock Origo gott færi en hann náði ekki að hitta boltann fyrir miðju marki.

Liverpool sótti nú af krafti og Philippe Coutinho komst inn í sendingu, lék inn í vítateiginn en skaut framhjá. Brasilíumaðurinn hefur ekki náð takti í frá því í byrjun leiktíðar og munar um minna. En Rússarnir voru hættulegir og Blagoy Georgiev fékk boltann frír í teignum, náði góðu skoti en Simon varði meistaralega með því að slá boltann yfir. 

Liverpool jafnaði á 37. mínútu. Upphafið var að dæmd var aukaspyrna á  Oleg Kuzmin og fékk hann reisupassann fyrir vikið með tvö gul spjöld. Philippe gaf fyrir frá vinstri úr aukaspyrnunni. Divock stökk upp með varnarmönnum og af þeim hrökk boltinn fyrir fætur Emre Can sem smellti boltanum í markið af stuttu færi. Þjóðverjinn var magnaður í leiknum og varð þarna fyrstur manna til að skora á valdatíð landa síns. Jafnt var í hálfleik.

Liverpool sótti allan síðari hálfleikinn enda manni fleiri en það gekk ekki þrautalaust að opna vörn Rubin sem var mjög sterk. Christian Benteke og Roberto Firmino komu inn á og Belginn hefði átt að skora á 74. mínútu eftir góða fyrirgjöf frá Nathaniel Clyne en hann skaut yfir. Þegar tíu mínútur voru eftir átti Christian skot við vítateiginn sem fór í stöng. Allt kom fyrir ekki. Enn eitt jafnteflið leit dagsins ljós og miðað við þennan leik gæti orðið erfitt að vinna sigur í Rússlandi en það dugir ekki annað en að fara að vinna eigi eitthvað að komast áleiðis í keppninni. 

Það voru ágætir samleikskaflar hjá Liverpool í leiknum en eins og svo oft þá gengur ekkert að skora. Leikir vinnast ekki öðruvísi en í báðum þeim leikjum sem Jürgen hefur stjórnað hafa sést batamarki. Það var líka tilbreyting í að stuðningsmenn Liverpool sýndu liðinu sínu stuðning í heilan leik. 

Liverpool: Mignolet, Clyne, Skrtel, Sakho, Moreno, Can, Allen (Leiva 45. mín.), Milner, Lallana, Coutinho (Benteke 63. mín.) og Origi (Firmino 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Bogdan, Toure, Ibe og Randall.

Mark Liverpool: Emre Can (37. mín.).

Gul spjöld: Martin Skrtel  og Joe Allen.

Rubin Kazan: Ryzhikov, Kuzmin, Nabiullin, Kverkvelia, Carlos Eduardo (Portnyagin 63. mín.), Devic, Ozdoev, Gokdeniz Karadeniz (Dyadyun 81. mín.), Georgiev, Kambolov og Kanunnikov. Ónotaðir varamenn: Haghighi, Lemos, Bilyaletdinov, Cotugno og Akhmetov.

Mark Rubin Kazan: Marko Devic (15. mín.).

Gult spjald: Oleg Kuzmin.

Rautt spjald: Oleg Kuzmin.

Áhorfendur á Anfield Road: 42.951.

Maður leiksins: Emre Can. Þjóðverjinn var magnaður á miðjunni. Spilaði boltanum vel, átti góðar tæklingar og skoraði fyrsta mark á valdatíð landa síns. 


Jürgen Klopp: Þetta var nú ekki neinn meistaraleikur en þetta var heldur ekki versti dagur lífs míns. Við verðum að halda áfram að leggja hart að okkur í næsta leik eins og við gerðum í kvöld. Við höldum bara áfram á sömu braut.

Fróðleikur

- Emre Can skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Liverpool gerði þriðja jafntefli sitt í röð í Evrópudeildinni. 

- Allir leikirnir hafa endað 1:1.

- Liverpool hefur gert sjö jafntefli í síðustu átta leikjum. 

- Aðeins í einum þessara leikja hefur tekist að skora meira en eitt mark.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan