| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Liverpool mætir Bournemouth á Anfield í annað skipti á leiktíðinni annað kvöld, þegar liðin mætast í deildabikarnum. Síðast hafðist naumur sigur, með hjálp dómarans.

Liverpool og Bournemouth áttust við á Anfield 17. ágúst s.l. í annarri umferð Úrvalsdeildar. Liverpool fór með sigur af hólmi í leiknum, eftir umdeilt mark Christian Benteke. Hans fyrsta fyrir félagið. Lærisveinar Eddie Howe gengu þrælsúrir af velli eftir leikinn enda skoruðu þeir mark sem var dæmt af þeim og fengu á sig mark sem hefði tæplega átt að standa.

Á morgun verða 20 dagar liðnir frá því að tilkynnt var um ráðningu Jürgen Klopp og 16 dagar frá fyrstu æfingu hans með liðinu. Frá því að Klopp tók við liðinu hefur liðið leikið þrjá leiki og leikurinn á morgun verður sá fjórði, á aðeins ellefu dögum. Það er ansi mikið leikjaálag fyrir hóp sem er þó nokkuð þjakaður af meiðslum og undarlega þunnskipaður í ákveðnum stöðum.

Rétt um það leyti sem þetta er skrifað tísti James Pearce á Twitter að Christian Benteke yrði ekki með á morgun, vegna smávægilegra hnémeiðsla. Hann bætist þá aftur á meiðslalistann þar sem fyrir eru Henderson, Sturridge, Flanagan, Gomez, Ings, Rossiter og Enrique, en þær fréttir bárust fyrr í kvöld að hann væri meiddur. Spánverjinn hefur ekki spilað leik síðan í janúar og staða hans innan félagsins er ansi dularfull að verða. Hann mun þó hafa verið í plönum Klopp fyrir leikinn á morgun, enda er Moreno búinn að spila 13 leiki í röð, en þá þurfti hann að sjálfsögðu að meiðast.

Klopp þyrstir auðvitað í sinn fyrsta sigur í brúnni hjá Liverpool og mun því væntanlega ekki tefla fram eintómum kjúklingum annað kvöld, en hann þarf þó að taka tillit til þess að strax í hádeginu á laugardaginn er stórleikur gegn Chelsea á Stamford Bridge. Það gengur hvorki né rekur hjá Chelsea og þeir fengu enn einn skellinn í kvöld þegar liðið datt út úr deildabikarnum eftir framlengingu og vítakeppni gegn Stoke. Til að bæta gráu ofan á svart meiddist Diego Costa í leiknum, sem enn eykur á vandræði Mourinho. Við grátum það svosem ekki.

James Milner sem hefur hlaupið manna mest á leiktíðinni fær kærkomna hvíld á morgun, en hann er í leikbanni eftir spjaldið sem hann fékk gegn Southampton. Emre Can, Nathaniel Clyne, Martin Skrtel og Coutinho þurfa allir að fara að fá hvíld og fá hana vonandi á morgun. Þá er líklegt að Simon Mignolet fái hvíld, en Adam Bogdán lék allan leikinn gegn Carlisle í fyrstu umferð keppninnar fyrir rúmum mánuði síðan - og var hetja liðsins í vítakeppninni. Ungverjinn mun væntanlega fá að standa vaktina í deildabikarnum áfram, að minnsta kosti meðan hann gerir engin risamistök.

Liverpool Echo spáir því að Joao Carlos Texeira byrji leikinn, en hann hefur ekki spilað með aðalliðinu síðan í febrúar í fyrra. Texeira var á láni hjá Brighton á síðustu leiktíð og stóð sig vel, en varð fyrir því óláni að fótbrotna þar suðurfrá. Hann er nú kominn á fulla ferð aftur og samkvæmt heimildum Echo eru allar líkur á að hann byrji leikinn. Þá þykir sennilegt að hægri bakvörðurinn Connor Randall, sem hefur verið í hópnum í öllum leikjum liðsins undir stjórn Klopp, leysi Nathaniel Clyne af.

Jürgen Klopp er, rétt eins og Brendan Rodgers, óhræddur við að gefa ungum leikmönnum sjéns og það er aldrei að vita nema fleiri kjúklingar en hér hafa verið taldir upp komi við sögu á morgun. Jerome Sinclair gæti til dæmis fengið tækifæri, en hann er ansi naskur á að finna markið. Ekki veitir okkur af svoleiðis manni. Hann var á bekknum í Tottenham leiknum, en síðan ekki söguna meir. Pedro Chirivella og Cameron Brannagan bönkuðu aðeins á dyr aðalliðsins hjá Rodgers og kannski fá þeir að vera með.

Joe Allen kemur að öllum líkindum inn fyrir Can og Firmino fyrir Coutinho og svo er ekki loku fyrir það skotið að Jordon Ibe fái að byrja leikinn, en hann hefur átt erfitt updráttar það sem af er leiktíðar. Ekki væri verra að fara að fá hann í gang því það býr heilmikið í þeim strák eins og við vitum.

Dejan Lovren mun vera orðinn heill af sínum meiðslum og kæmi ekki á óvart þótt hann yrði í byrjunarliðinu. Væntanlega vill Klopp sjá dýrasta varnarmann félagsins í aksjón. Kolo Toure gæti líka spilað, hver veit. Þetta kemur allt í ljós. 

Hvernig svo sem Klopp stillir upp liðinu á morgun þá gerum við vitanlega kröfu um sigur. Það væri flott að fá fyrsta sigurinn undir stjórn Klopp á Anfield og ekki væri verra ef liðinu tækist nú að skora meira en eitt mark. Líkurnar á því jukust að vísu ekkert sérstaklega við fréttirnar af meiðslum Benteke, en hinir verða einfaldlega að stíga upp. Bournemouth liðið hefur verið í frjálsu falli undanfarið eftir frísklega byrjun. Liðið tapaði til að mynda 5-1 um helgina fyrir Tottenham og með sömu tölu fyrir Manchester City í leiknum þar á undan. Það er þess vegna fullkomlega raunhæft að krefjast sigurs á morgun.

Ég spái 3-1 sigri annað kvöld, með mörkum frá Texeira, Firmino og Sinclair.

YNWA!




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan