| Heimir Eyvindarson

Fyrsti sigurinn undir stjórn Klopp


Liverpool tók á móti Bournemouth í deildabikarnum á Anfield í kvöld og leikurinn fer í sögubækurnar fyrir það að vera fyrsti sigurleikur Liverpool undir stjórn Jürgen Klopp.

Klopp gerði 9 breytingar á liðinu frá því í leiknum gegn Southampton um helgina. James Milner tók út leikbann og eins og við var að búast fékk Adam Bogdan að taka stöðu Simon Mignolet í markinu. Skrtel, Sakho, Moreno, Can, Lucas, Coutinho og Lallana fengu einnig kærkomna hvíld.

Connor Randall hóf leikinn í hægri bakverði, Nathaniel Clyne í vinstri og Toure og Lovren voru í miðju varnarinnar. Á miðjunni voru tveir ungir strákar, Cameron Brannagan og Joao Texeira og Firmino og Ibe byrjuðu leikinn einnig. Einu mennirnir sem héldu sæti sínu frá því um helgina voru Clyne og Origi.  

Strax í upphafi leiks komst Firmino í ágætt færi en skot hans fór rétt framhjá. Á fimmtu mínútu mínútu fékk Stanislas hörkufæri hinum megin en Bogdan kom vel út og breiddi úr sér að hætti Peter Schmeichel og varði mjög vel.

Á 15. mínútu átti Firmino þrumuskot frá vítateigslínunni sem Federici varði vel í horn.   

Tveimur mínútum síðar skoraði Liverpool markið sem réð úrslitum í kvöld. Origi, Firmino og Texeira spiluðu sig þá laglega í gegnum vörn Bournemouth og Texeira náði glæsilegri hælspyrnu á markið. Varnarmaður Bournemouth náði að bjarga á línu og boltinn barst til Nathaniel Clyne sem smellti honum í tómt markið með vinstri. Staðan 1-0 á Anfield.

Á 19. mínútu átti Stanislas hörkuskalla að marki Liverpool af stuttu færi, en Bogdan varði vel. 

Á 35. mínútu átti Firmino ágætt skot að marki Bournemouth, eftir góða rispu Ibe og varnarmistök gestanna, en Federici varði vel.  

Á 39. mínútu var Stanislkas enn einu sinni á ferðinni, nú með gott skot af stuttu færi en enn einu sinni varði Bogdan vel. Liverpool í raun nokkuð heppið að halda forystunni og máttu þakka Ungverjanum í markinu fyrir að vera yfir í hálfleik.

Síðari hálfleikur var tíðindalítill. Liverpool var betra liðið en gerði engar sérstakar rósir. Það var þó mjög jákvætt að liðið hélt boltanum vel og stjórnaði leiknum í raun ágætlega. Bournemouth skapaði í raun minna í síðari hálfleik en þeim fyrri. Firmino og Ibe voru sprækustu mennirnir fram á við, rétt eins og í fyrri hálfleik og áttu báðir ágætar rispur sem sköpuðu hættu.

Lucas Leiva kom inn á fyrir Brannagan á 65. mínútu og við það þéttist leikur Liverpool enn frekar og þrátt fyrir að enn einu sinni hafi liðið aðeins náð að skora eitt mark þá héldum við hreinu og lönduðum kærkomnum sigri. 

Niðurstaðan á Anfield í kvöld 1-0 sigur í deildabikarnum. Fyrsti sigurinn undir stjórn Jurgen Klopp staðreynd og Þjóðverjinn fagnaði því innilega í leikslok.

Það er erfitt að dæma liðið af frammistöðunni í kvöld. Liverpool stillti upp hálfgerðu varaliði og sömuleiðis vantaði sterka leikmenn í lið gestanna. Það hlýtur þó að gefa hópnum í heild aukið sjálfstraust að hafa loks náð sigurleik og vonandi liggur leiðin bara upp á við úr þessu.  

Liverpool: Bogdan, Clyne, Touré (Skrtel á 33. mín.), Lovren, Randall, Allen, Brannagan (Lucas á 65. mín.), Ibe, Teixeira, Firmino (Lallana á 86. mín.), Origi. Ónotaðir varamenn: Fulton, Moreno, Coutinho, Sinclair. 

Mark Liverpool: Firmino

Gult spjald: Joe Allen

Bournemouth: Federici, Smith, Distin, Francis, Daniels, Stanislas (Rantie á 82. mín.), Arter (King á 70. mín.), McDonald, Ritchie, Pugh, Kermorgant (Tomlin á 70. mín.). Ónotaðir varamenn: O´Kane, Allsop, Cook, Cargill.

Gult spjald: MacDonald

Áhorfendur á Anfield Road: 41.948.-

Dómari: Mike Jones

Maður leiksins: Maður leiksins á SKY var Roberto Firmino. Hann var sérstaklega sprækur í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik bar ekki eins mikið á honum. Nathaniel Clyne fannst mér einnig heilt yfir góður, bæði í vörn og sókn. Ég ætla þó að velja Adam Bogdan mann leiksins. Hann varði þrisvar sinnum mjög vel frá Stanislas í fyrri hálfleik og einnig varði hann vel frá Ritchie undir lokin. Traustur leikur hjá Ungverjanum.

Jürgen Klopp: „Það var mikilvægt að landa sigri í kvöld. Þetta var betra en jafntefli! Það var margt jákvætt í sóknarleiknum og leikmennirnir lögðu sig alla fram. Ég er mjög ánægður með frammistöðu ungu strákanna og alls liðsins."

Fróðleikur:

-Þetta var fyrsta mark Nathaniel Clyne fyrir Liverpool.

-Connor Randall lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir aðallið Liverpool.

-Joao Carlos Texeira byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool á Anfield í kvöld.

-Þetta var 8. leikur Liverpool og Bournemouth frá upphafi. Liverpool hefur unnið sex sinnum og tvisvar hefur orðið jafntefli.

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan