| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Stórleikur 11. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar er heimsókn okkar manna til Lundúna að etja kappi við Chelsea á Stamford Bridge. Þetta er fyrsti leikur umferðarinnar og hefst hann kl. 12:45 laugardaginn 31. október.

Staðan í deildinni er svolítið óvenjuleg fyrir þær sakir að Chelsea menn eru í 15. sæti með 11 stig en okkar menn eru í því 9. með 14. Með sigri geta heimamenn náð Liverpool að stigum en það er væntanlega eitthvað sem Jurgen Klopp og félagar ætla sér að koma í veg fyrir. Ensku blöðin eru uppfull af þeim fréttum að þessi leikur sé síðasti séns Portúgalans til að bjarga starfi sínu. Látum það liggja milli hluta en það væri ekki leiðinlegt að kroppa stig af meisturunum og horfa á þá áfram í ströggli í neðri hluta deildarinnar.

Okkar menn eru meiðslum hrjáð lið sem fyrr og í vikunni bættist Kolo Toure á listann en hann verður væntanlega frá í 4 vikur eftir að hafa tognað aftaní læri í Deildarbikarsigrinum á Bournemouth. Sem fyrr eru þeir Christian Benteke, Daniel Sturridge, Jordan Rossiter, Danny Ings, Joe Gomez, Jordan Henderson og Jon Flanagan allir meiddir en sá fyrstnefndi gæti þó náð þessum leik en Daniel Sturridge verður væntanlega ekki með skv. nýjustu fréttum. Hjá heimamönnum eru Costa, Pedro, Ivanovic og Courtois meiddir en þeir Pedro og Ivanovic ættu að vera klárir í þennan leik. Diego Costa verður hinsvegar að öllum líkindum ekki með eftir að hafa meiðst í vikunni.

Bæði lið hafa semsagt verið að ströggla í deildinni það sem af er tímabils og leikurinn gæti verið ansi fróðlegur fyrir þær sakir, pressan er þó ívið meiri á heimamönnum og vonandi ná þeir ekki að sýna sitt rétta andlit í þessum leik. Síðast þegar liðin mættust á þessum velli var staðan allt önnur, Chelsea voru búnir að tryggja sér meistaratitilinn en okkar menn sem fyrr í tómu basli. Leikurinn endaði þó 1-1 þar sem John Terry kom sínum mönnum yfir á 5. mínútu en Steven Gerrard jafnaði rétt fyrir hálfleik með góðum skalla. Úrslit síðustu leikja á Stamford Bridge hafa ekkert verið alveg hrikaleg á að líta fyrir Liverpool, í síðustu 5 heimsóknum hafa Liverpool menn unnið 2 leiki, 2 hafa endað með jafntefli og 1 með sigri Chelsea. Síðasti sigurleikur okkar manna kom 20. nóvember 2011 þar sem Glen Johnson skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok en mark heimamanna skoraði enginn annar en Daniel Sturridge.

Það er ljóst að Jurgen Klopp og leikmenn félagsins þurfa að vera í toppstandi til að ná góðum úrslitum á laugardaginn. Öll merki benda til þess að Klopp hafi náð að koma ágætu skipulagi á leik liðsins en það verður að segjast að þetta er ansi bitlaust fram á við, það er því óskandi að Benteke verði með til þess að valda varnarmönnum meiri vandræðum en kannski Divock Origi hefur gert í undanförnum leikjum. Það má líka alveg létta aðeins pressunni á þessum unga Belga sem hefur væntanlega fengið að leika stærra hlutverk en hann gerði ráð fyrir í upphafi tímabils.

Við sjáum hvað setur í þessu öllusaman en spáin að þessu sinni er nokkuð einföld og miðað við úrslit síðustu leikja liðsins nokkuð örugg verð ég að segja. Sem fyrr nær liðið að skora aðeins 1 mark en mótherjarnir gera slíkt hið sama og niðurstaðan 1-1 jafntefli, eitthvað sem bæði lið eiga erfitt með að sætta sig við en þó sérstaklega heimamenn. Við vonum að sjálfsögðu það besta þó og minnum félagsmenn okkar á að leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á heimavelli okkar, Spot í Kópavogi.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan