| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool heimsækir Rubin Kazan á útivelli í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöld og stefnir að því að ná í sinn fyrsta sigur í Evrópukeppni í tæp 3 ár. 

Það er allt á uppleið hjá Liverpool þessa dagana. Sigurinn á Chelsea um liðna helgi hefur örugglega gefið liðinu mikið sjálfstraust og leikmenn hafa verið duglegir að tala um þátt Jurgen Klopp í breyttu hugarfari liðsins. 

Sigurinn á Chelsea markaði enda nokkur tímamót. Fyrir það fyrsta tókst liðinu í fyrsta sinn síðan í desember að sigra leik eftir að hafa lent undir. Sem segir heilmikið um hvernig hugarfar liðsins var undanfarna mánuði. Það þoldi afar illa mótlæti. Klopp talaði um það strax eftir fyrsta leik liðsins undir hans stjórn, að þetta yrði að lagast. Það virðist vera að gerast. Sigurinn á laugardaginn var í það minnsta skref í rétta átt.

Það er líka gaman að segja frá því að á laugardaginn skoraði liðið 3 mörk á útivelli, í fyrsta sinn frá því í desember. Sigurinn var líka sá fyrsti á Stamford Bridge í 4 ár - og vonandi sá fyrsti af mörgum undir stjórn Klopp gegn Chelsea, Arsenal og Manchester liðunum báðum, en undir stjórn Brendan Rodgers tókst liðinu einungis einu sinni að vinna þessi lið á útivelli. Það var á Old Trafford þegar David Moyes réð þar ríkjum.

Liðið hefur nú leikið 5 leiki undir stjórn Jurgen Klopp. Jafntefli varð í fyrstu þremur leikjunum, en tveir síðustu leikir hafa endað með sigri. Fyrst gegn Bournemouth í deildabikarnum á miðvikudaginn í síðustu viku og svo gegn Chelsea í deildinni á laugardaginn. Vonandi landar liðið þriðja sigrinum í röð í Kazan á fimmtudagskvöld. Það væri ekki amalegt að ná þremur sigurleikjum í röð í jafnmörgum keppnum - á einungis 8 dögum. 

En það má ekki tapa sér í bjartsýninni, það er ekkert grín að þurfa að þvælast alla leið til Kazan og spila þar í vetrarkuldanum við Volgu. Kazan er um það bil 800 kílómetrum austar en Moskva og tilheyrir evrópska hluta Rússlands. Borgin er áttunda stærsta borg landsins, með rúmlega 11 hundruð þúsund íbúa, og er oft nefnd íþróttahöfuðborg Rússlands.

Í sumar var HM í sundi haldið í borginni og þá var fótboltavöllurinn einfaldlega grafinn upp og tveimur 50 metra laugum komið fyrir í staðinn fyrir iðagrænt grasið!

Rubin liðið má í raun muna sinn fífil fegurri, en liðið sigraði rússnesku deildina 2008 og 2009 og var farið að laða til sín stór nöfn, enda var til fullt af olíupeningum þarna austurfrá. Hin síðari ár hefur minnkað heilmikið í veskinu og fótboltaæðið í borginni á hröðu undanhaldi. Áhugi almennings á liðinu hafði raunar dvínað svo svakalega að það var ekki talið neitt forgangsmál að fjarlægja sundlaugarnar og gera Kazan Arena aftur að fótboltavelli. Liðið mátti gera sér annan og minni völl að góðu. Það var ekki fyrr en liðið dróst með Liverpool í riðli, að skurðgröfurnar voru ræstar og nú er völlurinn orðinn hinn glæsilegasti. 


Fyrri leikurinn gegn Rubin Kazan hinn 22. október s.l. var annar leikur Liverpool undir stjórn Klopp. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli, eftir að gestirnir höfðu komist yfir með stórfínni afgreiðslu Marko Devic. Emre Can jafnaði síðan metin. Leikurinn var þriðji leikur liðsins í Evrópudeildinni á leiktíðinni og jafnframt þriðja 1-1 jafntefli liðsins í keppninni í ár. 

Það sást glögglega í fyrri leiknum að Rússarnir kunna ýmislegt fyrir sér. Markið hjá Devic var auðvitað stórglæsilegt og ekki eina færi gestanna í leiknum. Leikur okkar manna var svosem ekki upp á marga fiska, enda einungis annar leikurinn eftir stjóraskiptin og liðið hálf vængbrotið, þannig að það er kannski ekki mikið að hægt að segja um Rússana út frá þeim leik.

Það skyldi samt enginn búast við því að það verði létt verk og löðurmannlegt að leggja Rubin Kazan að velli á fimmtudaginn. Í fyrsta lagi verður örugglega erfitt að spila í Rússlandi eftir langt ferðalag og í öðru lagi gefur frammistaða Liverpool í Evrópukeppnum undanfarin ár hreint ekki tilefni til bjartsýni. Síðasti útisigur liðsins í Evrópukeppni kom í desember 2012 á móti Udinese í Evrópudeildinni. Þá skoraði Jordan Henderson eina mark leiksins. 

Henderson verður vitanlega ekki með á fimmtudaginn, en hann er þó allur að koma til samkvæmt nýjustu fréttum. Mikið óskaplega verður gott að fá hann til baka. Klopp fer samt sem áður með sterkan hóp á flugvöllinn í Liverpool í fyrramálið. Það verður enginn aðalliðsmaður skilinn eftir heima nema Texeira, sem er ekki í Evrópuhópnum - og þeir sem eru meiddir. Sá listi samanstendur nú af Kolo Toure, Jon Flanagan, Joe Gomez, Danny Ings og Daniel Sturridge. Auk Henderson. 

Þetta er aðeins önnur nálgun á Evrópudeildina en í fyrsta útileiknum í riðlinum þegar Liverpool mætti Bordeaux í september. Þá skildi Brendan Rodgers þá Christian Benteke, Dejan Lovren, James Milner, Lucas Leiva, Nathaniel Clyne og Martin Skrtel alla eftir heima. Það er hæpið að halda því fram að sú hvíld hafi gert mikið fyrir liðið, því helgina eftir ferðina til Frakklands voru sexmenningarnir allir í byrjunarliði Liverpool sem gerði ákaflega máttleysislegt 1-1 jafntefli við nýliða Norwich.  

Ég hef auðvitað ekki hugmynd um það hvernig Klopp kemur til með að stilla upp liðinu gegn Rubina Kazan en hann mun örugglega stilla upp sterku liði, miðað við hópinn sem hann tekur með sér. Mér finnst þó líklegt að hann hvíli Firmino og jafnvel Coutinho, Skrtel, Lucas og Lallana einnig. Joe Allen og Jordon Ibe eru líklegir kandidatar í byrjunarliðið og eins finnst mér líklegt að Lovren byrji inn á. Það væri auðvitað gott ef hægt væri að veita Clyne einhverja hvíld líka, en það er vandséð hver ætti þá að taka hægri bakvörðinn. Nema þá kannski Can.

Ég ætla að spá því að Klopp leiði Liverpool til sigurs í Kazan á fimmtudagskvöld með sannfærandi 0-2 útisigri. Ég er ekki frá því að Belgarnir Origi og Benteke skipti með sér mörkunum.

YNWA! 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan