| Heimir Eyvindarson

Steindautt jafntefli í Sion


Liverpool gerði 0-0 jafntefli við Sion í lokaleik sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Úrslitin þýða að Liverpool sigrar riðilinn og verður í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í 32 liða úrslitin.  

Jürgen Klopp stillti upp tiltölulega sterku liði í kuldanum í Sion í kvöld. Eini „kjúklingurinn" sem byrjaði leikinn var vinstri bakvörðurinn Brad Smith.

Kolo Toure, sem leysti Skrtel af í vörninni, og Origi sem var fremstur í dag, voru einu mennirnir fyrir utan Smith sem ekki er hægt með góðri samvisku að kalla byrjunarliðsmenn.

Liverpool náði fínni sókn á 4. mínútu leiksins. Firmino og Smith áttu þá gott samspil sem endaði með góðri sendingu á Origi, en Belginn fór illa með ágætt færi. Liverpool nálægt því að komast yfir strax á upphafsmínútunum.

Nokkrum mínútum síðar átti Firmino skot af löngu færi sem olli engum sérstökum vandræðum. Brad Smith átti nokkrar ágætar fyrirgjafir og Origi átti eitt langskot. Annað markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik.

Þetta skjáskot af Vísi.is er ágætlega lýsandi fyrir hálfleikinn.

Hafi fyrri hálfleikur verið tíðindalítill þá veit ég varla hvað ég á að segja um seinni hálfleikinn. Það var nákvæmlega ekkert að gerast og maður gat varla beðið eftir að leiknum lyki. Svisslendingarnir fögnuðu í leikslok, enda þýddu úrslitin að Sion fylgir Liverpool í 32 liða úrslitin.


Sion: Vanins, Ziegler, Lacroix, Ruefli (Adao á 90. mín.), Zverotic, Kuassi, Selatic, Pa Modou, Fernandes, Carlitos, Assifuah (Mujangi Biah á 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Fickentscher, Vanczak, Follonier, Sierro, Akolo.

Gul spjöld:
Kuassi, Assafuah.

Liverpool:
Mignolet, Clyne, Toure, Lovren, Smith, Can, Milner (Coutinho á 61.mín.), Henderson (Rossiter á 77. mín.), Lallana, Firmino (Brannagan á 89. mín.) og Origi. Ónotaðir varamenn: Bogdan, Skrtel, Randall og Benteke.

Gult spjald: Clyne.

Áhorfendur á Stade Tourbillon: 16.000.

Maður leiksins: Brad Smith finnst mér spennandi leikmaður og miðað við innkomur hans að undanförnu er hann alveg möguleg varaskeifa fyrir Moreno. Dejan Lovren stóð vaktina í vörninni sömuleiðis vel og ég hugsa að ég velji hann mann leiksins. 

Jürgen Klopp: „Það voru erfiðar aðstæður hér í kvöld. Frosið undirlag er ekki eitthvað sem maður á að venjast, en við verðum bara að taka því. Í Englandi er oft rigning og rok en maður getur ekki valið að vera bara innandyra þegar þannig stendur á. Ég er mest ánægður með að enginn skyldi meiðast við þessar aðstæður."

Fróðleikur:

-Liverpool verður í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar á mánudag.

-Simon Mignolet hefur leikið allar mínúturnar í Evrópudeildinni á þessari leiktíð. Emre Can og Adam Lallana hafa einnig komið við sögu í öllum leikjunum.

-Þetta var í 14. sinn sem Liverpool mætir svissneskum andstæðingi í Evrópukeppni. Tvisvar hefur liðið lútið í gras gegn Svisslendingum, síðast gegn Basel í Meistaradeildinni á liðinni leiktíð. Ekki svo sællar minningar.

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan