| Sf. Gutt

Skref í átt að Wembley!

Liverpool tók mikilvægt skref í átt að úrslitaleiknum í Deildarbikarnum með því að vinna fyrri leikinn við Stoke City í undanúrslitunum. Liverpool vann 0:1 í Stoke en sigurinn kostaði sitt.

Liðshópur Liverpool er þunnskipaður þessa dagana og Jürgen Klopp gat því ekki breytt liðinu sínu mikið. Kolo Toure, Joe Allen og Adam Lallana komu þó inn í liðið og Christian Benteke var settur á bekkinn.  

Reiði Jürgen eftir tapið fyrir West Ham United á laugardaginn hafði greinilega skilað sér í því að leikmenn hans lögðu sig alla fram og það var tvennt ólíkt að sjá sömu mennina og þá voru með hangandi haus. Nú voru allir tilbúinir frá fyrstu mínútu! Jack Butland þurfti að verja langskot frá Roberto Firmino á fyrstu mínútunni og litlu síðar aftur frá Adam Lallana. Stoke komst varla fram fyrir miðju fyrstu 20 mínúturnar og Liverpool réði lögum og lofum. Philippe Coutinho fór af velli á 18. mínútu eftir að hafa tognað aftan í læri og eftir rúman hálftíma fór Dejan Lovren sömu leið af sömu orsökum. Báðir höfðu spilað mjög vel áður en þeir meiddust. Það fer ekki að vera einleikið með tognanir aftan í læri hjá leikmönnum Liverpool á leiktíðinni!

James Milner kom inn á fyrir Dejan og var gott að fá hann aftur til leiks eftir meiðsli. Á 37. mínútu sendi James boltann fram hægri kantinn. Adam fékk boltann og tók rispu fram áður en hann sendi fyrir markið. Joe Allen virtist hugsa sér að skjóta að marki en tilraun hans var mislukkuð. Þó ekki alveg því boltinn fór á varamanninn Jordan Ibe og pilturinn sýndi yfirvegun þegar hann lagði boltann fyrir sig áður en hann skoraði frá markteignum framhjá Jack. Prýðilega gert hjá Jordan sem vonandi eflist við að hafa skorað. 

Liverpool lenti ekki í vandræðum fyrr en í viðbótartíma hálfleiksins en þá varði Simon Mignolet frá fyrrum félaga sínum Glen Johnson sem átti skot eftir horn. Afbragsstaða í hálfleik og stuðningsmenn Liverpool voru kátir. 

Heimamenn komu ákveðnir til leiks eftir hlé en Liverpool átti aldrei í teljandi vandræðum. Simon var öruggur í markinu og Kolo var magnaður í vörninni. Jordan sýndi góð tilþrif á 68. mínútu þegar hann lék inn í vítateiginn en skot hans fór í hliðarnetið. Heppnin var svo með Stoke þegar stundarfjórðungur var eftir. Jack sparkaði þá boltanum í Roberto sem var rétt við vítateginn en af honum hrökk boltinn aftur til Jack en ekki í markið eins og hefði getað gerst.

Eins og í fyrri hálfleiknum fékk Stoke sitt besta færi þegar komið var fram í viðbótartíma. Jonathan Walters, sem oft hefur verið Liverpool óþægur ljár í þúfu, slapp þá inn í vítateiginn og komst í gott skotfæri en hann hitti ekki markið. Stuðningsmenn Liverpool gætu því fagnað mikilvægum sigri og stórt skref var tekið í átt að ferð á Wembley. En það er ekki allt búið enn og leikmennn Liverpool verða að vera vel á verði þegar liðin mætast í seinni leiknum á Anfield en skrefið í kvöld var óneitanlega stórt!

Stoke City: Butland; Johnson, Shawcross, Wollscheid, Pieters; Cameron (Walters 46. mín.), Whelan; Shaqiri (Crouch 83. mín.), Afellay, Arnautovic og Bojan (Joselu 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Haugaard, Wilson, van Ginkel og Adam.

Liverpool: Mignolet; Clyne, Toure, Lovren (Milner 34. mín.), Moreno; Can, Leiva, Allen (Benteke 79. mín.); Lallana, Firmino og Coutinho (Ibe 18. mín.). Ónotaðir varamenn: Bogdan, Brannagan, Smith og Randall.

Mark Liverpool: Jordan Ibe (37. mín.).

Gult spjald: Simon Mignolet.

Áhorfendur á Britannia leikvanginum: 
27.369.

Jürgen Klopp: Ég var mjög reiður fyrir nokkrum dögum en í kvöld er ég stoltur því liðið brást frábærlega við í mjög erfiðum leik. Liðin léku vel og það var líf í leiknum og leikmenn börðust vel. Við unnum bara eitt núll og svo meiddust tveir leikmenn illa og þess vegna var lánið ekki með okkur í öllu í kvöld.

Maður leiksins: Kolo Toure. Kolo spilar ekki oft en það má treysta því að hann leggur alltaf allan fram. Kannski spiluðu einhverjir betur í kvöld en Kolo barðist eins og ljón og fórnaði sér fyrir liðið sitt. Undir lokin haltraði hann um. Svona eiga leikmenn að leggja sig fram í hverjum einasta leik. 

Fróðleikur

- Liverpool hefur unnið Deildarbikarinn átta sinnum. Ekkert lið hefur unnið keppnina jafn oft.

- Stoke City hefur unnið keppnina einu sinni. 

- Í þrjú síðustu skipti sem Liverpool hefur mætt Stoke í Deildarbikarnum hefur liðið endað á að vinna keppnina. 

- Liverpool er að spila í 16. sinn í undanúrslitum í Deildarbikarnum. Ekkert lið hefur spilað jafn oft í undanúrslitum keppninnar. 

- Jordan Ibe skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni. 

- Þetta var annar sigur Liverpool í Stoke á leiktíðinni. Liðið vann þar 0:1 í fyrstu umferð deildarinnar í ágúst. 

- Tveir leikmanna Stoke, Glen Johnson og Charlie Adam urðu Deildarbikarmeistarar þegar Liverpool vann keppnina síðast árið 2012. 

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan