| Heimir Eyvindarson

Crystal Palace draugurinn kveðinn niður!

Liverpool náði dramatískum sigri gegn Crystal Palace í London í dag. Eftir að hafa verið  marki undir og manni færri stóran hluta síðari hálfleiks kom Liverpool til baka og hafði sigur að lokum.

Jürgen Klopp gerði tvær breytingar á byrjunarliðinu frá sigurleiknum gegn Manchester City á miðvikudaginn. Kolo Toure og Nathaniel Clyne viku fyrir Mamadou Sakho og Alberto Moreno. 

Fyrsta færi leiksins kom á 7. mínútu. Þá átti Adebayor góða sendingu á Yannick Bolasie, framhjá varnarlínu okkar manna, en Mignolet bjargaði með frábæru úthlaupi. Örfáum mínútum síðar fékk Adebayor frían skalla þar sem hann stóð milli Lovren og Sakho á markteigshorninu, en til allrar hamingju fór boltinn í slána. Þar skall hurð svo sannarlega nærri hælum.

Í stuttu máli sagt þá gerðist ekki mikið meira markvert í hálfleiknum, Origi átti reyndar ágætis skot yfir markið en okkar menn voru ekkert sérlega hættulegir þrátt fyrir að það væri ágætis barátta í liðinu. Liverpool var meira með boltann en Crystal Palace átti hættulegri færi.

Seinni hálfleikurinn var síðan varla byrjaður þegar Palace var komið yfir. Eftir vandræðagang okkar manna við að hreinsa boltann úr boxinu barst boltinn til Joe Ledley sem skaut hnitmiðuðu skoti neðst í hornið og kom heimamönnum yfir. Fyrsta mark Ledley í 13 mánuði og staðan 1-0 á Selhurst Park.

Á 61. mínútu skipti Klopp Coutinho inná fyrir Jon Flanagan og sendi skilaboð til James Milner um að hann ætti að fara í hægri bakvörðinn. Milner komst þó aldrei þangað því örfáum andartökum síðar fékk hann sitt annað gula spjald í leiknum og þurfti að yfirgefa völlinn. Lítið við þessum dómi að segja og útlitið dökkt gegn Palace. Enn eina ferðina. 

Liverpool hélt þó áfram að berjast og var síst verra liðið á vellinum. Á 72. mínútu fékk Firmino gjafabolta frá McCarthy í marki Palace, sem rann í teignum þegar hann ætlaði að hreinsa frá. Það heppnaðist ekki betur en svo að boltinn fór beint á Firmino sem þakkaði pent fyrir sig og lagði boltann í netið. Staðan 1-1 og enn smá von. 

Eftir jöfnunarmark Liverpool opnaðist leikurinn talsvert. Alan Pardew fjölgaði í sókninni og vildi greinilega freista þess að taka öll stigin, en Liverpool var hinsvegar betra liðið á vellinum og var mun grimmara en í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að vera manni færri.

Á 80. mínútu kom Benteke inn fyrir Origi og minnstu munaði að hann hefði náð að skora með sinni fyrstu snertingu i leiknum. Boltinn barst þá til hans í teignum eftir hornspyrnu og hann átti ágætis skot af stuttu færi, sem McCarthy varði reyndar án mikilla vandkvæða.

Á 87. mínútu átti Moreno frábært skot sem söng í innanverðri stönginni og þar hélt maður að síðasta færi okkar manna hefði litið dagsins ljós, sérstaklega þar sem Kolo Toure var skipt inn á strax í kjölfarið og svo virtist sem Klopp vildi fyrst og fremst tryggja stigið.

En á lokaandartökum leiksins, nánar tiltekið á 94. mínútu var Benteke felldur klaufalega inn í teig af Delaney, sem hafði annars átt mjög góðan leik í vörninni. Eftir talsverða umhugsun og ráðfærslu við aðstoðardómarann benti Andre Marriner á punktinn við litla hrifningu heimamanna.

Benteke fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi eftir að hafa platað McCarthy til að fleygja sér af stað. Sigurinn tryggður á dramatískum lokamínútum og gríðarlega dýrmæt þrjú stig í höfn. Niðurstaðan 1-2 á Selhurst Park. Vonandi fyrsta skrefið í að kveða Palace drauginn niður fyrir fullt og allt.

Liverpool: Mignolet, Flanagan (Coutinho á 61. mín.), Lovren, Sakho, Moreno, Can, Milner, Henderson, Lallana, Firmino (Toure á 88. mín.), Origi (Benteke á 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Ward, Clyne, Allen og Sturridge.

Mörk Liverpool: Firmino á 72. mín og Benteke á 96. mín.

Gul spjöld: Moreno, Henderson og Milner (2 stk.)

Rautt spjald: Milner (2 gul).

Crystal Palace: McCarthy, Ward, Dann, Delaney, Souare, Cabaye (Mutch á 69. mín.), Jedinak, Zaha, Ledley (Gayle á 81. mín.), Bolasie og Adebayor (Sako á 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Speroni, Chamakh, Kelly og Lee. 

Mark Crystal Palace: Ledley á 48. mín.

Gult spjald: Dann. 

Áhorfendur á Selhurst Park:  24,709.

Maður leiksins: Ég ætla að velja Emre Can mann leiksins að þessu sinni. Þjóðverjinn barðist allan leikinn og leysti það vel að vera settur í miðvörðinn þegar Milner var hent út af. Lék þá eiginlega bæði sem miðvörður og tengiliður, yfirferðin var slík. Vissulega stundum pínulítið klaufalegur með boltann, en að mínu mati mikilvægasti leikmaður okkar í dag. Eins var Dejan Lovren rock solid í vörninni annan leikinn í röð, sem er mjög jákvætt.

Jürgen Klopp: „Við ætluðum að fá inn meiri sóknarþunga með því að setja Coutinho inn fyrir Flanagan og færa Milner í bakvörðinn, en svo fauk Milly út af nánast um leið og skiptingin var búin. Þá þurftum við að endurskipuleggja okkur og fórum í 3-4-2. Það gefur auga leið að í svona stöðu, 1-0 undir og manni færri, þá þarf maður svolitla heppni og hún var vissulega með okkur í dag, en ég er á því að við höfum átt skilið að hafa heppnina með okkur í dag. Við börðumst vel og strákarnir sýndu mikla ástríðu í sínum leik."

Fróðleikur:

-Liverpool náði loks að sigra Crystal Palace í dag, en það hafði ekki gerst í Úrvalsdeild síðan á fyrri hluta leiktíðarinnar 2013-14. Liverpool náði reyndar 2-1 sigri á Selhurst Park í FA bikarnum fyrir rétt rúmu ári síðan, en það er eini sigurinn í síðustu 7 viðureignum liðanna. Þar til í dag.

-Sigurinn í dag var merkilegur fyrir þær sakir að Liverpool hefur aldrei áður unnið leik í efstu deild þar sem liðið hefur lent í þeirri stöðu að vera undir þegar það missir mann af velli með rautt spjald. Í leik gegn Fulham 2004 náði Liverpool að sigra 4-2 eftir að Josemi var vikið af velli í stöðunni 2-2, en ég get ekki séð að okkar menn hafi nokkurn tíma snúið töpuðum leik í sigur þegar maður hefur fokið út af. Þeir sem betur þekkja til mega þó gjarnan leiðrétta mig. 

-Crystal Palace hafði unnið þrjár síðustu viðureignir liðanna í deildinni og allt of oft býsna sannfærandi. 

-Þetta var 35. leikur Liverpool undir stjórn Jürgen Klopp.

-Leikurinn í dag var 50. deildarleikur Adam Lallana fyrir Liverpool og 100. deildarleikur Philippe Coutinho.

-Simon Mignolet fagnaði 28 ára afmæli sínu í dag.

-Liverpool hefur nú unnið þrjá síðustu leiki sína í Úrvalsdeild. Kominn tími til því það er u.þ.b. ár síðan liðið náði síðast þremur sigrum í röð í deildinni. 

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

-Hér má sjá viðtal við Jürgen Klopp af sömu síðu 




        
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan