| Heimir Eyvindarson

Þægilegur sigur á Stoke

Liverpool rúllaði yfir Stoke á Anfield í dag. Niðurstaðan 4-1 sigur í virkilega sannfærandi leik af hálfu okkar manna. 

Jürgen Klopp gerði 7 breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum við Dortmund á fimmtudagskvöldið. Kolo Toure og Martin Skrtel stóðu vaktina í hjarta varnarinnar og Kevin Stewart og Joe Allen tóku stöður Emre Can og Jordan Henderson á miðjunni, en sá fyrrnefndi er í banni og fyrirliðinn meiddur, en hann mætti á leikinn á hækjunum. Sturridge byrjaði frammi og Sheyi Ojo hóf einnig leikinn, sem kom kannski aðeins á óvart. 

Liverpool byrjaði leikinn betur í blíðunni á Anfield og strax eftir 8 mínútur kom fyrsta mark leiksins. Milner sendi boltann á Moreno sem hamraði honum í netið af rúmlega 20 metra færi. Flott mark hjá Spánverjanum og staðan orðin 1-0 á Anfield.

Fyrsta korterið var eiginlega eign Liverpool en eftir það komst Stoke aðeins meira inn í leikinn og svo fór að á 22. mínútu náðu gestirnir að jafna leikinn. Peter Crouch náði í frekar ódýra aukaspyrnu og upp úr henni skoraði Bojan með skalla eftir innlegg frá Shaqiri. Ekki alveg nógu vel gert hjá okkar mönnum og staðan orðin jöfn, sem var algjör óþarfi á þessum tímapunkti. 

Á 32. mínútu lék hinn 18 ára gamli Ojo Shaqiri sundur og saman á kantinum og sendi svo flottan bolta inn í teiginn sem Daniel Sturridge þurfti ekki að hafa mikið fyrir að stanga í netið framhjá varnarlausum Haugaard í marki Stoke. Flott tilþrif hjá Liverpool og staðan orðin 2-1. 

Á 39. mínútu var Shawcross nálægt því að jafna metin fyrir gestina þegar hann fékk að skalla í rólegheitunum framhjá marki okkar manna. Varnarleikurinn ekki alveg upp á það besta þarna eins og stundum áður, en það slapp í þetta sinn. 

Staðan 2-1 fyrir Liverpool í hálfleik og nokkuð jafnræði með liðunum eftir sterka byrjun Liverpool. 

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn af svipuðum krafti og þann fyrri og eftir fimm mínútna leik var staðan orðin 3-1. Divock Origi, sem hafði komið inn á fyrir Ojo í hálfleik, skoraði  markið eftir góða fyrirgjöf frá James Milner.

Á 53. mínútu voru leikmenn Stoke reyndar rétt einu sinni hættulegir eftir fast leikatriði. Í þetta sinn átti Cameron góðan skalla að marki Liverpool, en Mignolet bjargaði vel við mikinn fögnuð áhorfenda á Anfield.

Á 57. mínútu átti Firmino ágætt skot utan úr teig sem Haugaard varði í horn. Á 61. mínútu átti Sturridge síðan tilþrif leiksins. Hann fékk boltann við teiginn og sendi fáránlega flotta hælsendingu á Moreno sem lagði boltann fyrir á Origi, með viðkomu í varnarmanni Stoke. Origi náði því miður ekki að klára dæmið, en virkilega glæsileg tilþrif hjá Liverpool. Leiftrandi sóknarleikur.

Örfáum mínútum síðar skoraði svo Origi laglegt mark með skoti sem átti líklega að vera sending á Sturridge, en Sturridge lét boltann fara þannig að hann sigldi framhjá varnarmönnum Stoke og Haugaard og hafnaði í fjærhorninu. Staðan 4-1 og sigurinn í höfn. Öflug innkoma hjá Origi! 
Það er lítið meira um þennan leik að segja. Liverpool var mun sterkara liðið á vellinum í síðari hálfleik og seinna mark Origi slökkti algerlega í gestunum. Sterkur sigur í dag og jákvætt að geta róterað liðinu svona vel fyrir leikinn gegn Dortmund á fimmtudaginn.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Toure, Skrtel, Moreno, Allen (Lucas á 79. mín.), Milner, Stewart, Ojo (Origi á 46. mín.), Firmino (Lallana á 63. mín.), Sturridge. Ónotaðir varamenn: Ward, Lovren, Coutinho og Smith.

Mörk Liverpool: Moreno á 8. mín., Sturridge á 32. mín. og Origi á 50. og 65. mín.

Stoke: Haugaard, Bardsley, Shawcross, Wollscheid, Pieters (Muniesa á 82. mín.), Cameron, Imbula, Shaqiri (Diouf á 71. mín.), Afellay, Bojan (Joselu á 71. mín.), Crouch. Ónotaðir varamenn: Given, Ireland, Adam og Texeira.

Gul spjöld: Shawcross og Pieters.

Áhorfendur á Anfield Road: 43.856

Jürgen Klopp:
,,Ég er virkilega stoltur af strákunum í dag. Mér fannst við spila mjög vel og baráttan í liðinu var til fyrirmyndar. Það var ákveðið vandamál hvað við höfðum lítinn tíma til að undirbúa okkur fyrir þennan leik og ég er mjög ánægður með hversu vel liðið náði saman þrátt fyrir miklar breytingar á uppstillingunni frá síðasta leik."

Maður leiksins:
Það koma nokkuð margir til greina eftir svo góða frammistöðu. Mér fannst Daniel Sturridge virkilega góður í leiknum. Það skapast alltaf hætta þegar hann fær boltann og hann tekur gríðarlega mikið til sín. Origi var auðvitað sterkur líka, en tölfræðin segir t.d. að Sturridge átti mun fleiri heppnaðar sendingar í dag. Þá voru Milner og Allen virkilega sterkir á miðjunni. Valið hjá mér stendur á milli Milner og Sturridge og ef ég þarf að velja einhvern þá vel ég Milner. Algerlega ódrepandi baráttuhundur og ótrúlega drjúgur í stoðsendingum. Tvær stoðsendingar í dag og heilar níu stoðsendingar komnar hjá honum á þessari leiktíð, það er ekki amalegt fyrir leikmann sem hefur viðurnefnið boring. 

Fróðleikur:

-Liverpool hefur ekki tapað deildarleik fyrir Stoke á Anfield síðan 1959.

-Sheyi Ojo var í dag í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool.

-James Milner hefur gefið 9 stoðsendingar á tímabilinu.

-Daniel Sturridge hefur skorað 9 mörk í 13 leikjum í byrjunarliði á tímabilinu.

-Markið sem Moreno skoraði í dag var fyrsta mark hans fyrir Liverpool síðan í desember 2014.

-Hér má sjá viðtal við Klopp af Liverpoolfc.com

-Hér 
má sjá myndir úr leiknum af sömu síðu.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan