| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Í dag taka okkar menn á móti Watford á Anfield og hefjast leikar kl. 14:15 að íslenskum tíma.  Ef sigur vinnst mun Liverpool tylla sér á toppinn í deildinni.

Eftir leikina sem fram fóru í gær, laugardag, er ljóst að með sigri halda okkar menn toppsætinu en Arsenal geta einnig tyllt sér á toppinn með sigri í dag.  En það er auðvitað alltof snemmt að fara að tala um titilbaráttu í nóvember þegar aðeins 10 umferðir eru búnar af deildinni.  En við stuðningsmenn reynum að njóta þess að vera í toppbaráttu á meðan á henni stendur.  Sjáum svo til hvernig þetta fer alltsaman.

Af leikmönnum liðsins og meiðslum er svosem ekki mikið að frétta fyrir utan alvarleg meiðsli Danny Ings sem við fluttum fréttir af fyrr í vikunni.  James Milner sem misst hefur af síðustu leikjum vegna veikinda ætti að vera klár í slaginn í dag, sem þýðir að Alberto Moreno mun líklega setjast á bekkinn.  Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að breyta liðinu sem spilað hefur svo vel og náð góðum úrslitum það sem af er tímabilinu.   Gestirnir í Watford eru með 6 leikmenn á meiðslalistanum fyrir þennan leik en það eru þeir Sebastian Prödl, Isaac Success, Kenedy, Craig Cathcart, Stefano Okaka og Brice Dja Dejédjé sem eru allir taldir líklegir til að missa af leiknum.  Watford hafa staðið sig mjög vel það sem af er tímabilinu og sitja í 7. sæti með 15 stig sem verður að teljast nokkuð gott þar sem þeir eru með nýjan stjóra sem breytt hefur leikskipulaginu en hann virðist hafa náð að setja saman sterkt lið sem er erfitt viðureignar.

Liverpool og Watford hafa ekki oft mæst í Úrvalsdeildinni í gegnum tíðina en liðin hafa alls mæst 6 sinnum frá árinu 1999 í Úrvalsdeildinni, sé horft til allra leikja í efstu deild Englands eru leikirnir 18 en Watford voru með afskaplega gott lið á árunum 1980-1990 og voru í toppbaráttu í nokkur tímabil á þessum árum.  Flestir vita svo einnig að John Barnes var keyptur til Liverpool frá Watford á sínum tíma.  En þrátt fyrir fáa leiki í Úrvalsdeild hafa Watford náð að vinna tvo af þessum leikjum.  Fyrsti sigur þeirra kom árið 1999 á Anfield 0-1 og flestir muna svo eftir hörmungarleiknum á heimavelli Watford í desember í fyrra þar sem þeir unnu 3-0 auðveldlega.

En síðast þegar liðin mættust í deildinni vannst 2-0 sigur á Anfield þar sem Joe Allen og Roberto Firmino skoruðu mörkin.  Leikurinn var þann 8. maí og skipti svosem litlu máli fyrir liðin uppá stöðuna í deild að gera og Liverpool var komið með annað augað á úrslitaleikinn í Evrópudeildinni.

Spáin að þessu sinni er sú að áfram haldi okkar menn að spila vel og vinna sigra.  Eigum við ekki að segja að lokatölur verði 3-1 fyrir Liverpool.  Það tekst auðvitað ekki að halda hreinu frekar en venjulega en þrjú mörk duga til sigurs.

Fróðleikur:

- Nathaniel Clyne er eini leikmaður félagsins sem hefur tekið þátt í öllum leikjum tímabilsins, 13 talsins.

- Sem fyrr er markaskorun leikmanna mjög jöfn en að þessu sinni eru Brasilíumennirnir Coutinho og Firmino markahæstir með 5 mörk í öllum keppnum.

- Hjá Watford er miðjumaðurinn Etienne Capoue markahæstur með 4 mörk á tímabilinu.

- Eftir þennan leik tekur við landsleikjahlé og okkar menn spila ekki aftur fyrr en 19. nóvember næstkomandi.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan