| Heimir Eyvindarson

Jafntefli í fyrsta leik

                                                   
Liverpool og Sevilla gerðu 2-2 jafntefli á Anfield í kvöld, í fyrsta leik Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildarinnar frá því í desember 2014.

Það kom fátt á óvart í liðsuppstillingu Jürgen Klopp í kvöld, þrjár breytingar frá stórtapinu gegn City, Lovren og Gomez komu inn í vörnina og Karius í markið eins og gefið hafði verið út. 

Það voru ekki nema fimm mínútur liðnar af leiknum þegar kauðslegur varnarleikur Liverpool kostaði mark, í fyrstu sókn Sevilla í leiknum. Klúðrið byrjaði í raun þegar Can fór allt of soft í tæklingu fyrir utan teig, þaðan barst boltinn út á kantinn þar sem Escudero kom boltanum of auðveldlega inn á Ben Yedder sem þurfti ekki annað en að leggja tuðruna í netið af markteignum.

Can og Gomez litu illa út, en þó ekki eins illa og Lovren sem kiksaði á markteig. Skelfilega slysalegt hjá Króatanum, en auðvitað agaleg óheppni fyrst og fremst. Staðan 0-1.

Liverpool var nálægt því að jafna mínútu síðar þegar Wijnaldum átti ágætt skot sem fór af Simon Kjær og rétt framhjá marki gestanna. Næstu mínútur voru síðan skuldlaus eign okkar manna. Salah, Mané og Firmino gerðu mikinn usla í vörn Sevilla og Alberto Moreno fór sömuleiðis mikinn á vinstri vængnum.

Á 21. mínútu kom svo jöfnunarmarkið, en það skoraði Firmino eftir snarpa sókn. Henderson átti flotta sendingu fram á öskufljótan Moreno sem lúðraði boltanum inná markteig og Firmino náði að ýta honum inn áður en Rico í marki Sevilla komst í hann. Virkilega flott sókn og til marks um það hvað Liverpool liðið getur verið hrikalega flott fram á við. Staðan 1-1.
                        
Tveimur mínútum síðar hefði Can átt að skora en vinstri fótar skot hans, eftir flotta skyndisókn, fór rétt framhjá fjærstönginni. Mikill kraftur í Liverpool og útlitið ljómandi gott.

Á 37. mínútu komst Liverpool yfir með skrautlegu marki. Salah vann boltann fyrir utan teig, sneri sér við og lét vaða á markið. Boltinn fór í Kjær og þaðan í markið. Hugsanlega var Salah brotlegur þegar hann vann boltann af N´Zonzi, en mark er mark og staðan 2-1. 
Á 41. mínútu fékk Liverpool eitt sanngjarnasta og augljósasta víti sem sögur fara af. Moreno skallaði boltann inn í teig á Mané sem rauk fram úr Parejo sem byrjaði á því að stoppa boltann með höndinni og tók Mané svo niður. Dómarinn gat ekkert annað en bent á punktinn.

Firmino tók vítið, sendi Rico í vitlaust horn en setti boltann í utanverða stöngina. Hefði verið hrikalega notalegt að fara inn í klefa með 3-1 forystu.

Í lok hálfleiksins átti Moreno fínt skot, eftir sendingu Salah en Rico varði. Staðan 2-1 í hálfleik, eftir ótrúlega skemmtilegar 45 mínútur. 

Eins skemmtilegur og fyrri hálfleikurinn var náði seinni hálfleikurinn einhvernveginn aldrei almennilegu flugi. Skemmtilegasta augnablikið var líklega þegar Eduardo Berizzo stjóri Sevilla var rekinn upp í stúku fyrir að fávitast tvisvar með boltann á hliðarlínunni þegar Joe Gomez ætlaði að taka innkast. Alveg stórundarleg uppákoma og kom ekkert sérstaklega vel út fyrir karlangann.

Á 72. mínútu jafnaði Sevilla. Muriel, sem var nýkominn inná sem varamaður, sendi þá boltann á Correa sem skoraði virkilega laglegt mark framhjá varnarlausum Karius. Góð sókn hjá Sevilla og vel af sér vikið að ná að jafna úr þriðja skoti sínu úr leiknum. Á sama tíma var Liverpool búið að lúðra 22 skotum að marki Spánverjanna. 
                            
Á 76. mínútu kom Coutinho inná og fékk góðar móttökur frá stuðningsmönnum Liverpool. Á 83. mínútu kom Sturridge inná fyrir Mané og undir lok venjulegs leiktíma kom Oxlade-Chamberlain inná fyrir Salah. Sóknarþungi Liverpool var töluverður síðustu mínúturnar, en vörn Sevilla stóðst álagið og niðurstaðan á Anfield 2-2 jafntefli.

Rétt í blálokin fékk Joe Gomes að líta sitt annað gula spjald og Liverpool því manni færri síðustu sekúndurnar, sem kom sem betur fer ekki að sök.

Jafntefli er heldur súr niðurstaða, Liverpool var betra liðið í leiknum en það er því miður ekki alltaf spurt að því. Maribor og Spartak Moskva gerðu 1-1 jafntefli í hinum leik riðilsins, þannig að það er svosem enginn heimsendir að tapa tveimur stigum í kvöld. Vonandi ekki a.m.k.

Liverpool: Karius, Gomez, Lovren, Matip, Moreno, Henderson, Can (Coutinho á 76. mín.), Wijnaldum, Mané (Sturridge á 83.mín.), Firmino og Salah (Oxlade-Chamberlain á 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Klavan, Milner, Robertson. 

Mörk Liverpool: Firmino á 21. mín. og Salah á 37. mín. 

Gul spjöld: Moreno, Gomes (tvö gul=rautt).

Sevilla: Rico, Mercado, Kjær, Pareja, Escudero, N´Zonzi, Banega, Pizzaro (Sarabia á 45. mín.), Navas (Corchia á 83. mín.), Ben Yedder (Muriel á 69. mín.), Correa. Ónotaðir varamenn: Soria, Carrico, Krohn-Dehli, Vazcues.

Mörk Sevilla:
Ben Yedder á 5. mín. og Correa á 72. mín.

Maður leiksins: Mér fannst Salah besti maður Liverpool í kvöld. Hann var stöðugt ógnandi, skoraði mark sem hann bjó til algjörlega upp á eigin spýtur og var mjög öflugur til baka líka. Mané var sömuleiðis stórhættulegur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Lengi framan af leik stefndi reyndar allt í að Moreno yrði maður leiksins, hann var frábær í fyrri hálfleik, en var í kunnuglegum vandræðum á köflum í þeim seinni.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan