| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er gegn Bournemouth á útivelli og fer leikurinn fram sunnudaginn 17. desember klukkan 16:30.

Maður er með hálfgert óbragð í munni þegar hugsað er til síðasta leiks þessara liða á heimavelli Bournemouth en hann fór einmitt fram í desember í fyrra.  Liverpool komst í 2-0 og 3-1 en glutruðu leiknum niður þar sem Bournemouth skoraði þrjú mörk á síðasta korterinu og unnu 4-3.  Síðan þá höfum við séð svipað hrun hjá liðinu gegn Sevilla og vonandi er þá komið gott af slíku á þessu tímabili.  Síðustu tveir leikir Liverpool hafa svo ekki verið góðir eins og flestir vita og töpuð stig á Anfield gegn erkifjendunum í Everton og WBA hafa svo aðeins slegið á bjartsýnina eftir stórsigurinn á Spartak sem tryggði liðinu efsta sæti riðilsins í Meistaradeild.

Fyrir þennan leik er Liverpool í 5. sæti með 31 stig eftir 17 leiki og Bournemouth sitja í 14. sæti með 16 stig.  Bournemouth hafa verið að gæla við falldrauginn á þessu tímabili og það þarf ekki mikið til að þeir sitji í fallsæti þar sem tvö næstneðstu lið deildarinnar eru með 14 stig.  Í síðustu fimm leikjum hafa þeir tapað þremur og gert tvö jafntefli.  Í síðustu umferð töpuðu þeir fyrir Manchester United á útivelli 1-0 og þóttu standa sig vel í þeim leik, það er því ljóst að leikurinn verður mjög erfiður fyrir okkar menn.  Þess má svo geta, til að bæta gráu ofaná svart að undir stjórn Jürgen Klopp hefur gengið gegn þessu ágæta suðurstrandarliði ekki verið gott, heimaleikurinn í deild við þá á síðasta tímabili endaði t.a.m. með 2-2 jafntefli.

En þetta er nýr leikur og leikmenn Liverpool hljóta að vilja bæta upp fyrir slakt gengi í síðustu tveim leikjum.  Af meiðslalistanum er það að frétta að Moreno verður ekki með vegna ökklameiðsla, óvíst er með þátttöku Daniel Sturridge þar sem hann glímir við smávægileg meiðsli aftaní læri, Marko Grujic er víst með brákaðan fingur og Joel Matip er aðeins byrjaður að hlaupa og honum verður væntanlega ekki teflt fram í þessum leik þar sem vonir standa til að hann verði klár í þarnæstu umferð þegar Liverpool heimsækir Arsenal.  Adam Lallana er loksins orðinn leikfær á ný og verður í leikmannahópnum að sögn Klopp á blaðamannafundi fyrr í dag.  Klopp staðfesti það svo að Simon Mignolet verði í markinu gegn Bournemouth en hann spilaði ekki síðasta leik þar sem hann gat lítið æft fyrir leikinn.  Belginn er því ekki búinn að missa sæti sitt í liðinu eins og margir héldu.  Bournemouth eru einungis með tvo menn meidda hjá sér en það eru þeir Brad Smith og Tyrone Mings.

Leikmenn liðsins þurfa að rífa sig í gang eftir slaka frammistöðu gegn WBA og nú er tækifæri til þess gegn liði sem er í ströggli í deildinni.  Það er hinsvegar oft þannig að þegar Liverpool mætir liði sem er að berjast fyrir stigum á útivelli að þá vill oft illa fara.  En við skulum hafa trú á því að leikurinn við WBA hafi verið eitthvað tilfelli sem kemur ekki fyrir aftur í bráð.  Klopp hefur væntanlega gert sínum mönnum ljóst að hann var ekki sáttur með frammistöðuna og sagði hann á áðurnefndum blaðamannafundi að þó svo að leikurinn hefði endað með 1-0 sigri hefði hann ekki verið sáttur með leikinn í heild.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn ná með herkjum að knýja fram sigur enda veitir ekki af í harðri samkeppni um að lenda í einum af fjórum efstu sætum deildarinnar.  Bournemouth munu selja sig dýrt en lokatölur verða 1-2 þar sem Sadio Mané hristir af sér slyðruorðið frá síðasta leik og skorar sigurmarkið.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er sem fyrr markahæstur í deild hjá félaginu og í deildarkeppninni allri með 13 mörk.

- Markahæstur hjá Bournemouth er Callum Wilson með 4 mörk í öllum keppnum.

- Bournemouth hafa dreift markaskorun sinni vel á tímabilinu en alls hafa 12 leikmenn skorað 1 mark eða meira.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan