| Heimir Eyvindarson

Tvö töpuð stig

Það liggur við að maður segi helvítis fokking fokk, en slíkt orðbragð er okkur ekki sæmandi. En Martin Atkinson er allavega ekki að fara að fá neinar fálkaorður eftir þetta kvöld. 

Stóra spurningin fyrir leikinn var hver yrði í hægri bakverðinum, en það kom í hlut fyrirliðans. Að öðru leyti var liðið tiltölulega fyrirsjáanlegt, nema að það kom kannski aðeins á óvart að Keita skyldi byrja.

Það voru erfiðar aðstæður á Anfield í kvöld. Töluverður snjór og bleyta á vellinum og erfitt að senda boltann með jörðinni. 

Liverpool byrjaði leikinn samt frábærlega og strax á 3. mínútu var komið mark. Það skoraði Sadio Mané gríðarlega fagmannlega við erfiðar aðstæður. 
Það sem eftir var hálfleiksins var Liverpool miklu betra liðið, var miklu meira með boltann og skapaði nokkur fín færi. Á 41. mínútu hefði Harry Maguire hæglega getað fengið rauða spjaldið þegar hann felldi Mané sem aftasti maður rétt við miðlínuna. Af einhverjum ástæðum kaus Atkinson að sýna honum bara gula spjaldið. Brotið var klárt og allan daginn morgunljóst að Mané hefði alltaf kosið það miklu frekar að komast í gegn og stinga Maguire af heldur en að fá aukaspyrnu 45 metra frá marki. 

Til að kóróna gleðina með þessa furðulegu ákvörðun Atkinson var það svo auðvitað Maguire sem jafnaði leikinn rétt fyrir leikhlé. Ansi hreint súrt mark í flesta staði. Fyrir það fyrsta gaf Robertson óþarfa aukaspyrnu úti á kanti og svo gekk okkur herfilega að eiga við hana. Hálfgerður aulagangur í vörninni, en kannski er maður óþarflega pirraður ennþá......ég veit ekki. 

Staðan allavega 1-1 í hálfleik, sem var fáránleg staða miðað við yfirburði okkar manna fyrstu 40 mínúturnar.

Leicester byrjaði seinni hálfleikinn allt of frísklega og eftir 6-7 mínútur voru komin tvö fín færi hjá þeim. 

Á 58. mínútu hefði Liverpool átt að fá víti þegar Pereira steig á fótinn á Keita í þann mund sem hann var að fara að hleypa af á markteig. Stórkostlega undarleg ákvörðun hjá Atkinson, sem var að mér sýndist ágætlega staðsettur. Pereira hefði vel getað fengið sitt annað gult spjald líka, þannig að á þessum tímapunkti hefði staðan getað verið 2-0 og við tveimur fleiri. Ef og hefði.......

Liverpool náði að pressa aðeins síðustu 10 mínúturnar c.a. en því miður var seinni hálfleikurinn alls ekki nógu góður og því fór sem fór. 

Liverpool: Alisson, Henderson, Matip, Van Dijk, Robertson, Keita (Lallana á 66. mín.), Wijnaldum, Shaqiri (Fabinho á 66. mín.), Firmino (Sturridge á 82. mín.), Mané og Salah. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Lovren, Origi, Camacho.

Mark Liverpool: Mané á 3. mínútu. 

Mark Leicester: Maguire á 45. mínútu.

Maður leiksins: Sadio Mané
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan