| Grétar Magnússon

Verðum að spila stórkostlega

Jürgen Klopp segir að sínir menn verði að eiga stórkostlegan leik ætli þeir sér að komast áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar. Mikil spenna er að byggjast upp fyrir seinni leik Liverpool og Bayern Munchen sem fram fer á miðvikudagskvöldið.

Markalaust jafntefli í fyrri leik liðanna þýðir að Liverpool kemst áfram með sigri í Þýskalandi eða ef leikar standa jafnir þar sem bæði lið skora. Það verður allt undir á Allianz Arena annað kvöld. Klopp segir að venjulegur leikur sinna manna muni ekki duga til að ná úrslitum gegn liði sem hefur unnið síðustu þrjá leiki sína í deild síðan liðin mættust á Anfield með markatölunni 12-1.

,,Það er ekki mitt að dæma hvað þeir gera, eða gerðu." Sagði Klopp aðspurður hvort að hann búist við breyttri leikaðferð Þýskalandsmeistaranna frá því í leiknum á Anfield. ,,Þeir eru klárlega í annari stöðu núna, allt er mun jákvæðara hjá þeim - þeir eru aftur komnir á toppinn í deildinni, sigra leiki sína nokkuð þægilega og allt það. Þeir eru klárlega komnir á rétta braut á ný, ef þeir fóru einhverntímann af henni. Mér líkar þetta, ekki af því að ég held að hlutirnir verði auðveldari heldur bara af því að greining okkar sýnir hversu sterkir þeir eru."

,,Við erum nógu góðir til að gefa þeim alvöru leik og það er það eina sem búast má við í stöðu sem þessari og staðan er góð. Ég er sífellt að hugsa um hvernig við getum valdið þeim vandræðum í leiknum, vandræðum sem þeir hafa kannski ekki mætt til þessa á tímabilinu. Þeir eiga auðvitað erfiða mótherja í okkur og þegar við erum uppá okkar besta erum við stórkostlegir. Við verðum líka að vera það, ef við spilum venjulegan leik, ef svo má að orði komast, eigum við ekki möguleika og ljúkum keppni. En ef við getum ýtt okkur áfram í sérstakan gír og spilað alvöru fótbolta þá eigum við góðan möguleika og það er allt sem ég þarf."

Strax eftir fyrri leikinn sagði Klopp að úrslitin myndu með tímanum verða ívið betri fyrir Liverpool og sömuleiðis örlítið verri fyrir Bayern. Nú þegar stundin er að renna upp hversu bjartsýnn er stjórinn á það að liðið komist áfram ?

,,Eins bjartsýnn og hægt er að vera fyrir leik gegn mjög sterkum mótherja," svarar Klopp. ,,Þetta er opinn leikur og meira þurfum við ekki fyrir seinni leikinn. Í fyrra vorum við í annari stöðu, við vorum 3-0 yfir gegn City og 5-2 yfir gegn Roma fyrir seinni leikina og það er ávallt smá falin hætta í því. Ef maður hugsar OK við erum komnir áfram þá er maður það auðvitað ekki. Í stöðunni 0-0 er allt nokkuð skýrt, við verðum að vinna leikinn. Það er það sem maður vill alltaf. Í þessu tilfelli getum við unnið leikinn með jafntefli líka, en þetta er allt morgunljóst og við verðum að eiga mjög góðan leik. Ekkert hefur gerst ennþá. Það eru tveir leikir, sá seinni byrjar á miðvikudagskvöldið og þannig er staðan."



Markahæsti leikmaður Meistaradeildar er Robert Lewandowski með átta mörk, eins og allir vita þekkjast þeir Klopp mjög vel frá tíma þeirra hjá Dortmund. Klopp segir að mikilvægast sé að stöðva sendingar og fyrirgjafir ætlaðar Lewandowski ef það á að takast að láta hann hafa sig hægan í leiknum. En það þýðir þó auðvitað ekki að einblína um of á Pólverjann því mikil gæði séu í leikmannahópi Bayern.

,,Robert er heimsklassa sóknarmaður, það er enginn vafi á því. En hann hefur mismunandi styrk- og hæfileika, það er ekki hægt að segja að ef við stoppum þetta þá getur hann ekki gert hitt. Við erum nógu reynslumiklir og góðir til að átta okkur á því. En svona er þetta alltaf þegar hættulegir sóknarmenn eiga í hlut, því meira sem við stöðvum sendingar og fyrirgjafir til hans því betra. Við erum allir að vinna í því og þannig á þetta auðvitað að virka hjá okkur."

,,En auðvitað er þetta ekki bara Robert. Það eru aðrir leikmenn þarna; Coman er byrjaður að æfa aftur, Ribery er í góðu standi, þeir hafa hvílt hann nokkrum sinnum undanfarið og hann verður klár í slaginn. Gnabry er sennilega að eiga sitt besta tímabil til þessa, hann er virkilega góður. Og hérna er ég bara að tala um sóknarþenkjandi leikmenn þeirra. Á miðjunni hafa þeir marga möguleika - Goretzka er kominn aftur, James Rodriguez gæti spilað, Martinez mun spila, Thiago Alcantara getur og mun væntanlega spila. Þeir hafa uppá mikið að bjóða."

,,Það er þetta sem gerir þetta svo spennand, maður horfir á þetta Bayern lið og hugsar með sér, vá þeir eru virkilega sterkir og svo hugsar maður á móti, ah, við erum nú ekki sem verstir heldur. Það er flott. En ég hef alltaf sagt þetta, ef maður vill hafa áframhald okkar staðfest, ekki horfa á leikinn. Ef þú vilt sjá möguleikann á því að fara áfram, horfðu þá á leikinn!"

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta endar í Þýskalandi annað kvöld en eitt er ljóst að Liverpool þarf að spila mun betur en það hefur gert á útivöllum í Meistaradeild til þessa. Allir þrír útileikir liðsins í riðlakeppninni töpuðust og spilamennskan var svo sannarlega ekki góð í a.m.k. tveimur leikjanna. Ætli liðið sér áfram verður liðið, eins og Klopp réttilega bendir á, að eiga stórkostlegan leik.

Við förum ekki fram á meira en að menn leggi sig fram, hvað svo sem kemur út úr því kemur í ljós en spennan eykst og vonandi er magnað Evrópukvöld í vændum hjá Liverpool.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan