| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur okkar manna er gegn West Ham United á Anfield. Leikurinn hefst klukkan 17:30 í dag, síðasta dag októbermánaðar.

Meiðsli, meiðsli og meiðsli er það sem við stuðningsmenn hugsum mest um þessa dagana því það er ansi fáliðað í miðvarðasveitinni hans Jürgen Klopp. Fabinho meiddist í vikunni og verður frá fram að landsleikjahlé ef marka má fréttir. Ekki er víst að Joel Matip verði klár í slaginn fyrir þennan leik og ekki myndi ég veðja á það. Klopp þarf því að ákveða hvort hann noti hinn unga Rhys Williams í jafn krefjandi deild og úrvalsdeildin er eða hvort að einhver annar miðjumaður verði notaður við hlið Joe Gomez. Ég hallast að síðari valmöguleikanum þar sem West Ham eru líkamlega sterkt lið og þeir fá blóð á tennurnar ef hinn óreyndi Rhys Williams verður í byrjunarliðinu. Það kæmi þá ekki á óvart ef Gini Wijnaldum eða Jordan Henderson verði settir í miðvarðastöðuna en þetta kemur auðvitað allt í ljós. Alls eru sjö leikmenn á listanum alræmda núna, Fabinho, Keita, Tsimikas, Thiago, Matip, van Dijk og Oxlade-Chamberlain og enginn þeirra er líklegur til að vera með. Ef maður reynir að ímynda sér hvernig byrjunarliðið verður myndi ég skjóta á eitthvað svona:


Gestaliðið frá Lundúnum eru bara með tvo leikmenn á sínum meiðslalista, Said Benrahma sem kom frá Brentford í haust og Michail Antonio sem er jú þeirra helsti sóknarmaður það sem af er tímabils. Þeir byrjuðu ekki vel, töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum gegn Newcastle heima og Arsenal úti en síðan þá hafa þeir rétt úr kútnum með fínum úrslitum. Úlfarnir lágu 4-0, næst Leicester 0-3 og svæ mættu Hamrarnir Tottenham á útivelli og náðu 3-3 jafntefli eftir að hafa lent 3-0 undir, jöfnunarmarkið var flautumark ef þannig má að orði komast, þrumuskot frá Lanzini fyrir utan teig sem söng í samskeytunum og dómarinn flautaði til leiksloka. Í síðasta leik náðu þeir svo fínu 1-1 jafntefli heima gegn Manchester City. Þeir hafa því náð vopnum sínum á ný og ljóst að þeir mæta með gott sjálfstraust á Anfield vitandi það að heimamenn eru í tómum vandræðum með að manna vörnina.

Hamrarnir unnu síðast leik á Anfield í ágúst árið 2015, ekki svo löngu áður en Jürgen Klopp kom til starfa og er það eini sigur liðsins á Anfield í úrvalsdeild. Alls hafa liðin mæst 24 sinnum á Anfield í úrvalsdeild, Liverpool eru með 17 sigra og sex sinnum hafa liðin gert jafntefli. Okkar menn hafa unnið síðustu þrjár viðureignir liðanna á Anfield en í síðasta leik liðanna þar þurftu okkar menn að hafa töluvert fyrir sigrinum. Lokatölur voru 3-2 þar sem gestirnir komust yfir 1-2 í seinni hálfleik en Salah og Mané sneru dæminu við.

Spáin segir að það sé erfiður leikur fyrir höndum. Sheffield United mættu á Anfield um síðustu helgi og gáfu okkar mönnum alvöru leik, fengu reyndar gefins víti en það breytti því ekki að þeir fengu sín færi og voru fastir fyrir. Eitthvað sem má búast við að West Ham geri einnig. En það tekst að herja fram sigur, lokatölur verða 2-1 þar sem við stuðningsmenn verðum með hjartað í buxunum á lokamínútunum eins og svo oft áður. Svo er bara að vona að VAR dómgæslan verði ekki í ruglinu eins og í öðrum leikjum Liverpool á tímabilinu.

Fróðleikur:

- Liverpool sitja í öðru sæti deildarinnar með 13 stig eftir sex leiki, jafnmörg og Everton en lakari markatölu.

- West Ham eru í 12. sæti með 8 stig eftir sex leiki.

- Trent Alexander-Arnold spilar líklega sinn 100. deildarleik fyrir félagið.

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna það sem af er með sjö mörk alls, þar af sex í deildinni.

- Michail Antonio og Jarrod Bowen hafa báðir skorað þrjú mörk í deildinni fyrir West Ham það sem af er.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan