| Grétar Magnússon

Seiglu sigur á Hömrunum

2-1 sigur vannst á West Ham í lokaleik október mánaðar í úrvalsdeildinni. Eins og oft áður lentu okkar menn undir en náðu að knýja fram sigur.

Byrjunarlið Jürgen Klopp kom kannski á óvart því Nathaniel Phillips var í hjarta varnarinnar með Joe Gomez og bakverðirnir voru auðvitað Alexander-Arnold og Robertson og í markinu stóð Alisson. Á miðjunni voru Jones, Henderson og Wijnaldum, fremstu þrír auðvitað Salah, Mané og Firmino. Hamrarnir stilltu upp kunnuglegu liði en fremstur var Sebastian Haller sem fékk tækifæri í fjarveru Michail Antonio.

Fyrri hálfleikur var kannski kunnuglegt stef miðað við síðasta heimaleik því gestirnir komust yfir. Á 10 mínútu áttu þeir sókn sem endaði með fyrirgjöf á teiginn sem Gomez skallaði frá en því miður beint fyrir fætur Pablo Fornals sem lagði boltann fyrir sig og skaut góðu skoti sem Alisson kom engum vörnum við. Sóknarleikur Liverpool var hægur og lítið að frétta þannig séð uppvið markið enda voru gestirnir mjög þéttir til baka. Henderson og Robertson reyndu fyrir sér með skotum sem hittu ekki markið og allt leit nokkuð þægilega út fyrir gestina. En undir lok hálfleiksins braut Arthur Masuaku á Salah í teignum og vítaspyrna réttilega dæmd. Egypski kóngurinn fór auðvitað sjálfur á punktinn og brást ekki bogalistin með öruggri vítaspyrnu. Staðan 1-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var ekkert svo ólíkur þeim fyrri en heimamenn voru þó beittari í sínum aðgerðum. Fyrsta færi hálfleiksins féll reyndar gestunum í skaut en Robertson varðist vel þegar Fornals virtist vera kominn í gott skotfæri. Tuttugu mínútum fyrir leikslok ákvað Klopp svo að gera breytingar sem áttu eftir að bera árangur þegar Shaqiri og Jota komu inná fyrir Firmino og Jones, sem báðir höfðu ekki haft sig mikið í frammi. Þeir voru ekki búnir að vera lengi inná þegar Jota hafði skorað. Mané var í baráttu í teignum og renndi sér í boltann á markteig, Fabianski kom út á móti og lenti í samstuði við Mané, boltinn barst til Jota sem skaut í markið. Dómarinn dæmdi hinsvegar brot á Mané og markið stóð ekki. Fimm mínútum fyrir leikslok var svo klárlega ekki hægt að dæma neitt gegn Liverpool þegar Shaqiri sendi frábæra sendingu innfyrir vörnina á Jota sem kláraði færið sitt örugglega framhjá Fabianski. Gestirnir reyndu að jafna metin og fengu hornspyrnu í uppbótartíma sem Phillips skallaði örugglega frá og seiglu sigri var því siglt í höfn !



Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Phillips, Gomez, Robertson, Jones (Shaqiri, 70. mín.), Henderson, Wijnaldum, Salah (Milner, 90. mín.), Firmino (Jota, 70. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, R. Williams, N. Williams og Minamino.

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (42. mín. (víti)) og Diogo Jota (85. mín.).

West Ham: Fabianski, Coufal, Balbuena, Ogbonna, Cresswell, Masuaku (Lanzini, 88. mín.), Bowen (Benrahma, 89. mín.), Soucek, Rice, Fornals, Haller (Yarmolenko, 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Randolph, Diop, Snodgrass og Fredericks.

Mark West Ham: Pablo Fornals (10. mín.).

Gult spjald: Rice.

Maður leiksins: Nathaniel Phillips stóð sig mjög vel í leiknum, var yfirvegaður í sínum aðgerðum og fastur fyrir í að verjast háum sendingum. Hann hlýtur nafnbótina að þessu sinni en vissulega mætti tilfnefna Dioto Jota einnig fyrir sterka innkomu af bekknum.

Jürgen Klopp: ,,Þetta er mjög erfitt því við erum að spila svo marga leiki. Að sjá einbeitni og vilja strákanna, viljann til að spila fótbolta, hvernig þeir bregðast við áföllum er virkilega stórkostlegt. Það erfiða er að maður þarf að vera þolinmóður en einnig að halda mótherjanum á hreyfingu. Það þarf að halda einbeitingu allan tímann og þeim tókst það en reyndar kannski fyrir utan markið sem þeir skoruðu."

Fróðleikur:

- Trent Alexander-Arnold spilaði sinn 100. deildarleik fyrir félagið.

- Mohamed Salah skoraði sitt 7. deildarmark á leiktíðinni.

- Diogo Jota skoraði sitt þriðja deildarmark á leiktíðinni.

- Ekkert meistaralið hefur fengið á sig jafn mörg mörk í fyrstu sjö leikjum sínum og Liverpool hafa gert til þessa, fyrir utan meistaralið Aston Villa tímabilið 1897-98. Liverpool hafa fengið á sig 15 mörk en það þurfti 23 leiki á síðasta tímabili til þess.

- Liverpool hafa lent undir í þrem af fjórum heimaleikjum á tímabilinu en á síðasta tímabili gerðist það aðeins þrisvar í öllum 19 heimaleikjum liðsins.


- Liverpool eru aðeins annað liðið í sögu úrvalsdeildarinnar sem lendir undir í þrem heimaleikjum í röð en tekst að snúa stöðunni í sigur. Fyrsta liðið sem náði því voru Blackburn Rovers árið 2009.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan