| Sf. Gutt

Páskaglaðningur í London



Segja má að páskagleðin hafi byjað í fyrra fallinu hjá stuðningsmönnum Liverpool í ár! Englandsmeistarar Liverpool buðu stuðningsmönnum sínum nær og fjær upp á páskaglaðning í London í kvöld þegar liðið vann þar góðan 0:3 sigur. Sigurinn færir von um að gerlegt verði að ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar. 

Arsenal var meira með boltann allra fyrstu mínúturnar en svo tók Liverpool öll völd. Engin færi sköpuðust lengi vel og það var ekki fyrr en eftir rétt tæpan hálftíma þegar Sadio Mané slapp inn í vítateiginn eftir hraða sókn. Sadio ætlaði að gefa á Mohamed Salah en boltinn hrökk frá honum og hættan leið hjá. Sóknin hélt áfram og Roberto Firmino átti skot við vítateiginn sem fór rétt framhjá. Á 35. mínútu átti Liverpool góða sókn. Trent Alexander-Arnold sendi fyrir markið á James Milner sem fékk frítt skot í vítateignum en hann skaut framhjá. Þar hefði James átt að hitta markið og skora!

Liverpool réði ferðinni eftir hlé líkt og fyrir. Færi létu á sér standa og hvað þá hjá heimamönnum sem fengu ekki færi í leiknum. Á 61. mínútu kom Diogo Jota inn á sem varamaður. Hann beið ekki boðanna og skoraði þremur mínútum seinna. Trent gaf hárnkvæma sendingu fyrir markið á Portúgalann sem skallaði í markið af stuttu færi. 

Ekki löngu síðar sendi Roberto á Mohamed sem komst inn í vítateiginn en Bernd Leno varði. Egyptinn gerði enginn mistök þegar hann fékk aftur færi á 68. mínútu.  Thiago Alcántara sendi út til hægri á Mohamed sem náði að komast framhjá varnarmanni og alla leið inn á markteig þar sem hann skoraði fram hjá Bernd. Reyndar sendi Mohamed boltann milli fóta Þjóðverjans. 

Liverpol gerði endanlega út um leikinn þegar átta mínútur voru eftir. Eftir útspil Arsenal náði Trent boltanum og sendi fram á Mohamed. Hann gaf til vinstri á Sadio. Senegalinn náði ekki að leggja boltann fyrir sig en Diogo var á næstu grösum og skoraði af öryggi utan við markteiginn. Frábær innkoma hjá Diogo!

Liverpool hefði átt að vinna enn stærri sigur. Í viðbótartíma henti Sadio sér fram með það að markmiði að skalla í mark eftir aukaspyrnu en hann náði ekki að stýra boltanum í markið. Rétt fyrir lokaflautið sparkaði Alisson Becker langt fram. Mohamed komst í gegn. Hann kom boltanum á Sadio en varnarmaður komst fyrir og bjargaði. Liverpool hefði verðskuldað stærri sigur en 0:3 var sannarlega góður páskaglaðningur!

Arsenal: Leno, Chambers, Holding, Gabriel, Tierney (Cédric Soares 45. mín.), Partey, Ceballos (Elneny 58. mín.), Pépé, Ødegaard, Aubameyang (Martinelli 77. mín.) og Lacazette. Ónotaðir varamenn: Ryan, Bellerín, Willian, Marí, Nelson og Nketiah. 

Gult spjald: Gabriel.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Phillips, Kabak (R. Williams 84. mín.), Robertson (Jota 61. mín.), Thiago, Fabinho, Milner, Salah, Firmino (Wijnaldum 78. mín.) og Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Keita, Oxlade-Chamberlain, Jones, Tsimikas og Shaqiri.

Mörk Liverpool: Diogo Jota (64. og 82. mín.) og Mohamed Salah (68. mín.). 

Gult spjald: Diogo Jota.

Maður leiksins: Diogo Jota. Portúgalinn kom til leiks og gerði í raun út um leikinn með því að skora tvö mörk!

Jürgen  Klopp: Í heildina tekið þá var þetta góður leikur hjá okkur. Við kláruðum færin okkar og Arsenal var eiginlega ekki með í leiknum í þessar 95 mínútur. Það var út af því hversu vel við spiluðum. 

Fróðleikur

- Diogo Jota er nú kominn með 12 mörk á keppnistímabilinu. 

- Mohamed Salah skoraði 26. mark sitt á leiktíðinni. 

- Liverpool hefur ekki áður unnið Arsenal á útivelli með þriggja marka mun. 

- Síðustu sex sigrar Liverpool í deildinni hafa allir komið á útivöllum!

- Liverpool hefur nú unnið fjóra útileiki í röð á sömu leiktíðinni, í öllum keppnum, án þess að fá á sig mark. Þetta gerðist síðast í mars 1988. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan