| Grétar Magnússon

Jafnt gegn Leeds

Liverpool og Leeds gerðu 1-1 jafntefli í kaflaskiptum leik á Elland Road. Gestirnir voru betri í fyrri hálfleik en heimamenn í þeim síðari.

Byrjunarlið Jürgen Klopp kom kannski aðeins á óvart en Fabinho var miðvörður ásamt Ozan Kabak og hinir í vörninni eins og við eigum að venjast. Á miðjunni voru Gini Wijnaldum, James Milner og Thiago og frammi þeir Roberto Firmino, Sadio Mané og Diogo Jota. Bekkjarseta Mohamed Salah kom því kannski mest á óvart í þessari liðsuppstillingu en það er nú ágætt að geta róterað aðeins á fremstu þrem og þurfa ekki að treysta á að þeir spili allar mínútur.

Gestirnir byrjuðu betur og voru heilt yfir sterkara liðið í fyrri hálfleik eins og áður sagði. Firmino, Thiago og Jota áttu allir marktilraunir á fyrsta korterinu en það mætti kannski kalla það hálffæri í öllum tilvikum. Liðið var að halda boltanum ágætlega og héldu Leeds mönnum frá marki. Reyndar skall hurð nærri hælum þegar slök sending frá Fabinho inná miðjuna varð til þess að Phillips hjá Leeds náði boltanum og sendi Bamford nánast einan í gegn. Alisson kom hinsvegar vel út á móti og varði skot hans, boltinn hrökk svo af Fabinho og rúllaði aftur fyrir markið. Eftir rétt rúman hálftíma leik kom svo flott sókn okkar manna sem endaði með marki. Jota fékk boltann á miðjunni, var fljótur að hugsa og sendi innfyrir á Trent Alexander-Arnold sem var kominn í fína stöðu uppvið teiginn. Markvörður Leeds kom út á móti og Alexander-Arnold sendi boltann beint fyrir fætur Mané sem þakkaði fyrir sig og skaut boltanum í tómt markið. Vel útfærð sókn og forystan verðskulduð. Eftir þetta litu kannski fleiri hálffæri dagsins ljós en liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik í stöðunni 0-1.



Í seinni hálfleik voru Leedsarar mun sterkari og það var Alisson að þakka að þeir jöfnuðu ekki metin fyrr en seint í leiknum. Framan af hálfleiknum voru okkar menn aðeins meira með en eftir því sem leið á var nánast einstefna uppvið mark Liverpool. Alisson varði mjög vel frá Harrison sem var kominn í ágætt en þröngt færi vinstra megin á markteig og heppnin var með þeim rauðu þegar Bamford lyfti boltanum yfir Alisson og í slána, skömmu síðar varði Brasilíumaðurinn aftur vel þegar Roberts fékk fínt skotfæri í teignum. Skyndisóknir Liverpool voru því miður ekki margar og því miður náði Salah ekki að setja mikla hættu í þær eftir að hann kom inn á á 71. mínútu. Leeds jafnaði svo metin með skallamarki eftir hornspyrnu á 87. mínútu þar sem varnarvinnan hefði klárlega mátt vera betri en Llorente fékk nánast frían skalla á markteig og hitti auðvitað á markið. Lokatölur 1-1 og það kannski heilt yfir sanngjörn úrslit.

Leeds: Meslier, Ayling, Llorente, Struijk, Alioski (Klich, 79. mín.), Phillips, Hélder Costa (Poveda-Ocampo, 67. mín.), Dallas, Roberts (Hernández, 86. mín.), Harrison, Bamford. Ónotaðir varamenn: Koch, Casilla, Davis, Berardi, Gelhardt, Shackleton.

Mark Leeds: Diego Llorente (87. mín.).

Gul spjöld: Alioski og Dallas.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Fabinho, Kabak, Robertson, Thiago, Wijnaldum, Milner, Jota (Oxlade-Chamberlain, 81. mín.), Firmino, Mané (Salah, 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, R. Williams, N. Williams, Davies, Tsimikas, Keita, Shaqiri.

Mark Liverpool: Sadio Mané (31. mín.).

Gult spjald: Roberto Firmino.

Maður leiksins: Það var ánægjulegt að sjá Mané loksins skora mark í deildinni en maður leiksins var klárlega Alisson sem var ávallt vel á verði þegar hætta skapaðist. Hann gat svo lítið sem ekkert gert í markinu sem Leeds skoruðu og þar hefðu liðsfélagar hans klárlega átt að gera betur.

Jürgen Klopp: ,,Þetta eru sennilega sanngjörn úrslit þegar upp er staðið. Við spiluðum mjög góðan leik í fyrri hálfleik. Þeir sem fylgjast með vita að það er mjög erfitt að spila gegn Leeds en við gerðum vel. Þeir gera völlinn stóran og vilja spila í öðruvísi svæði, eru beinskeittir, hlaupa innfyrir og allskonar. Við stýrðum þessu frekar vel og sköpuðum þeim vandræði, skoruðum flott mark og hefðum getað skorað fleiri. Í seinni hálfleik hefðum við átt að skora úr skyndisóknum en við gerðum það ekki og þá heldur maður því miður leiknum of opnum."

Fróðleikur:

- Sadio Mané skoraði sitt áttunda deildarmark á leiktíðinni.

- Liverpool hafa tapað 13 stigum eftir að hafa verið í forystu í deildarleik á tímabilinu. Tveimur stigum meira en tvö síðustu tímabil samanlagt.

- Liverpool voru aðeins með boltann 38.8% í leiknum og hefur þessi tala ekki verið lægri síðan í nóvember árið 2018 gegn Arsenal.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan