| Sf. Gutt

Hefnd í Madríd!


Það er kannski ekki rétt að tala um hefnd í knattspyrnu. En Liverpool hefndi fyrir útslátt Atletico Madrid á Anfield Road á þarsíðustu leiktíð með því að vinna sigur á spænsku meisturunum 2:3 í vígi þeirra í hörkuleik í Madríd. Liverpool er með fullt hús í riðlinum þegar keppni í honum er hálfnuð. 

Þeir Allisson Becker og Fabinho Tavarez biðu liðsfélaga sinna á Spáni en þeir fóru þangað eftir síðasta leik Brasilíu í landsleikjahrotunni um daginn. Þess má geta að Brasilía vann Úrúgvæ 4:1. Fabinho var í byrjunarliðinu í þeim leik en Alisson á bekknum. Luis Suarez var í liði Úrúgvæ og skoraði mark þjóðar sinnar. Hann var á bekknum til að byrja með í Madríd. 

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og á 8. mínútu lá boltann í marki heimamanna. Mohamed Salah fékk boltann hægra megin við vítateiginn. Hann lék inn á völlinn framhjá þremur varnarmönnum og skaut svo utan við vítateiginn. Boltinn fór aðeins í varnarmann og hafnaði svo neðst í vinstra horninu. Enn eitt glæsimarkið hjá Mohamed. Fimm mínútum seinna lá boltinn aftur í marki spænsku meistarana. Varnarmanni mistókst að hreinsa. Boltinn sveif til Naby Keita og þar sem hann stóð rétt utan við vítateiginn tók hann boltann á lofti og hamraði hann í markið. Frábært mark og ekki ósvipað því sem hann skoraði á móti Crystal Palace fyrr í haust. 

Atletico var slegið út af laginu en þetta lið gefst ekki upp og á 20. mínútu komst það inn í leikinn. Antoine Griezmann stýrði þá boltanum í markið af stuttu færi eftir að félagi hans átti skot eftir horn. Markið var skoðað fram og aftur í sjónvarpinu því einn leikmanna Atletico var fyrir innan vörnina og truflaði Joël Matip í að hreinsa. Markið stóð en mörgum fannst að það hefði verið ólöglegt. 

Um átta mínútum seinna komst Antoine í gegn eftir sendingu fram en Alisson Becker kom út á móti og varði með annarri hendinni þegar Frakkinn ætlaði að lyfta boltanum yfir hann. Heimamenn voru nú komnir í gang og á 34. mínútu fékk Antoine boltann rétt utan við vítateiginn. Hann tók boltann laglega framhjá Virgil van Dijk við vítateiginn með góðri snertingu og skoraði svo neðst í fjærhornið. Laglegt mark og staðan orðin jöfn. João Félix komst svo í færi þegar fimm mínútur voru til leikhlés en Alisson varði skot hans sem var úr þröngu færi. Aftur ógnuðu heimamenn þegar Thomas Lemar komst í færi en Alisson sá við honum með góðu úthlaupi. Jafnt í hálfleik.

Jürgen Klopp breytti liðinu í hálfleik og sendi Fabinho inn á fyrir Naby til að styrkja miðjuna. Miðjan varð þéttari eftir þetta. Sadio Mané náði góðum skalla snemma í síðari hálfleik en Jan Oblak varði vel. Atletico fékk gott færi á 50. mínútu þegar  Yannick Carrasco komst í færi eftir sendingu inn í teiginn en Alisson varði enn og aftur með góðu úthlaupi. Brasilíumaðurinn var sannarlega búinn að koma í veg fyrir að Atletico væri komið yfir.  

Á 53. mínútu var Antoine Griezmann rekinn af velli eftir að hafa sparkað í höfuð Roberto Firmino. Um óviljaverk var að ræða en það var ekki annað hægt en að reka franska framherjann út af. Þetta kom sér vel því hann var búinn að skora tvö mörk!

Liverpool hafði nú undirtökin þó svo heimamenn væri ekki af baki dottnir. Liverpool fékk svo víti þegar 12 mínútur voru eftir. Varnarmaður Atletico braut þá mjög klaufalega á varamanninum Diogo Jota. Mohamed Salah tók vítið og sendi Jan í vítlaust horn. Aftur skoraði Egyptinn úr víti í sama markið á Metropolitno leikvaningum. Hann skoraði úr víti í þetta mark í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn  þegar Liverpool vann Tottenham 2:0 2019!

Það var ekki allt búið enn. Nokkrum mínútum seinna dæmdi dómarinn víti á Liverpool eftir að hann taldi að Diogo hafði brotið á einum leikmanni Altetico. Dómarinn endaði á að skoða atvikið í sjónvarpi og hætti þá við að dæma víti. Heppnin kannski með Liverpool en samt kom Diogo varla við manninn sem lét sig detta. Liverpool varði fenginn hlut til leiksloka og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu aftur sigri á Metropolitno leikvaningum!

Þó það eigi kannski ekki að tala um hefnd í knattspyrnu þá er hægt að segja að Liverpol hafi með þessum sigri hefnt fyrir 2:3 sigur Atletico Madrid á Anfield 2020. Liverpool féll með því tapi úr Meistaradeildinni í leik sem liðið átti að vinna. En nú var það Liverpool sem vann 2:3 og sigurinn gefur Liverpool alla möguleika á að komast upp úr riðlinum!

Mörk Atletico Madrid: Antoine Griezmann (20. og 34.).

Rautt spjald:  Antoine Griezmann.

Gult spjald: Luis Suárez. 

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (8. og 78.mín. víti) og Naby Keita (13. mín.).

Áhorfendur á  Metropolitno leikvaningum: 60.725.

Maður leiksins: Alisson Becker. Brasilíumaðurinn fékk tvö mörk á sig sem hann átti ekki möguleika á að verja. En hann varði þrívegis glæsilega og tvær seinni markvörslurnar lögðu grunn að sigri Liverpool. 

Jürgen Klopp: Það kemur mér ekki á óvart að þetta skyldi vera tilþrifamikill leikur. Það er hægt að bóka slíkt þegar þessi lið mætast. Þetta eru baráttulið sem eru vön að berjast fyrir þeim markmiðum sem þau vilja ná. Það er alveg á hreinu. 

Fróðleikur

- Mohamed Salah setti nýtt félagsmet með því að skora í níunda leiknum í röð!

- Mohamed er búinn að skora 12 mörk á þessu keppnistímabili.

- Hann er nú búinn að skora 31 mark í Meistaradeildinni sem er nýtt félagsmet. 

- Naby Keita skoraði í annað sinn á leiktíðinni. 

- Roberto Firmino lék sinn 300. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 93 mörk í þeim leikjum.

- Þetta var fyrsta tap Atletico Madrid á heimavelli í Evrópuleik frá því 2017.

- Þetta var í fyrsta sinn sem Atletico fær á sig þrjú mörk á heimavelli í Evrópukeppni á valdatíma Diego Simeone. Hann tók við liðinu 2012.

- Liverpool hefur nú skorað þrjú eða fleiri mörk í síðustu átta útileikjum í öllum keppnum. Það er met!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan