| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool vs Porto

Nú er uppi fágæt staða! Það eru tveir leikir eftir af riðlakeppni Meistaradeildinni og Liverpool hefur nú þegar tryggt sæti sitt. Það þýðir að leikmenn Liverpool þurfa ekki að mæta til leiks og spila upp á sigur í tveimur síðustu leikjum riðilsins til að komast áfram. Oftast hafa leikmenn Liverpool, síðustu árin, þurft að berjast til loka síðasta leiks til að tryggja sér áframhald í útsláttarkeppnina. Sem betur fer ekki núna. Það þýðir þó ekki að leikmenn Liverpool mæti rólegir til leiks. Jürgen Klopp hefur lagt áherslu á að stefnt verði að sigri í þeim tveimur leikjum sem eru eftir. 


Liverpool vann auðvitað stórsigur í Portó eins og síðustu árin. Liðið ætti því að geta unnið öruggan sigur á Anfield en reyndar hafa útisigrarnir á móti Porto verið mun stærri en heimasigrarnir. Það er þó ekkert fast í hendi og leikmenn Porto vilja án efa bæta fyrir niðurlaginguna í haust. En ef Liverpool spilar álíka vel og á móti Arsenal um helgina þá vinnst sigur.


Ekki er ólíklegt að Liverpool liðið verði eitthvað breytt frá leiknum á móti Arsenal. Hugsanlega fá einhverjir af ungu leikmönnunum að spreyta sig og sumir hafa gert því skóna að Tyler Morton fái tækifæri á miðjunni. Það getur haft áhrif á gang mála annað kvöld ef sterkasta liði verður ekki teflt fram. 

Liverpool sýndi á móti Arsenal að liðið er ekki af baki dottið. Í raun sýndi liðið meistaratakta! Ég spái því að Liverpool vinni 3:0 sigur á Porto. Diogo Jota skorar tvo og Takumi Minamino eitt. 

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan