| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur er gegn Burnley á Turf Moor og hefst hann klukkan 14:00 sunnudaginn 13. febrúar.

Það eru sérdeilis góðar fréttir sem Jürgen Klopp flutti á blaðamannafundi fyrir leik helgarinnar því svo virðist sem enginn leikmaður eigi við meiðsli að stríða þessa stundina. Sadio Mané mætti á æfingu á föstudaginn og gæti mögulega komið inní hópinn á ný og Jordan Henderson er orðinn góður af bakmeiðslum sínum. Þá sagði Klopp að þó svo að þeir Divock Origi og Joe Gomez hafi ekki verið á bekknum í síðasta leik hafi það ekki verið vegna meiðsla heldur einfaldlega vegna þess að það var ekki pláss fyrir þá í hópnum. Vissulega vonbrigði fyrir þá tvo en þegar lítið er um meiðsli verða ákvarðanir Klopp ekki auðveldari fyrir hann. Hjá Burnley eru þeir Jóhann Berg, Vydra og Taylor frá vegna meiðsla en Cornet er klár í slaginn eftir að hafa meiðst lítillega í síðasta leik þeirra.

Liðin eru á sitthvorum endanum í stigatöflunni og það vekur nú alltaf smá óhug þegar okkar menn mæta á útivöll hjá liði í fallbaráttu. En sú tilfinning hefur reyndar minnkað stórlega undanfarin ár þar sem liðið er einfaldlega það gott og vel smurt að svona leikir eru ekki eins hættulegir og áður. Engu að síður er ljóst að Burnley munu berjast fyrir lífi sínu í leiknum og þeir ættu að hafa fengið aukið sjálfstraust eftir að hafa gert jafntefli við Manchester United á heimavelli í síðasta leik sínum. Auk þess hafa þeir ekki tapað í síðustu sex heimaleikjum sínum en þar af er reyndar bara einn sigurleikur og restin jafntefli. Liðin hafa mæst sjö sinnum á Turf Moor í úrvalsdeildinni og hafa Burnley menn unnið einn og okkar menn sex leiki. Á síðasta tímabili vannst góður 0-3 sigur í mikilvægum leik í baráttunni um að enda í topp fjórum í deildinni og í síðustu þrem leikjum liðanna á þessum velli hafa Liverpool skorað þrjú mörk í þeim öllum. Við vonum auðvitað að þetta góða gengi haldi áfram.

Eins og venjulega er ekki gott að spá fyrir um byrjunarliðið og það má gera ráð fyrir að Klopp vilji hafa góða skallamenn inná til að verjast háum boltum og föstum leikatriðum heimamanna. Burnley misstu Chris Wood í janúarglugganum en fengu til sín í staðinn Wout Weghorst sem er 197cm á hæð og er því töluverð ógn fremst á vellinum. Þó svo að mikilvægur leikur sé framundan gegn Inter Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeildar þá mun Klopp ekki vera með annað augað á þeim leik, fyrir utan þá staðreynd að Joel Matip er kannski ekki treystandi til að spila þrjá leiki á einni viku. Ég tippa því á að Konaté komi inn við hlið van Dijk í miðri vörninni sem verður annars óbreytt frá sigrinum á Leicester. Á miðjunni gerum við ráð fyrir að Henderson komi inn aftur og ég tel að Keita geri það líka en Fabinho haldi sæti sínu. Þá er spurningin hvort að Mané fari beint í liðið en við giskum á að hann setjist á bekkinn og að Luis Díaz haldi sínu sæti, Salah og Jota verða með honum fremst sem þýðir að Firmino sest einnig á bekkinn.

Spáin að þessu sinni er sú að áfram tekst að skora þrjú mörk á Turf Moor, eitt mark í fyrri hálfleik og tvö í þeim seinni. Það verður hart barist í þessum leik og okkar menn mega alls ekki leyfa Burnley að spila sinn tuddabolta eða láta þá pirra sig of mikið. En sigur verður niðurstaðan !

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með 16 mörk.

- Maxwel Cornet er markahæstur Burnley manna með sex mörk.

- Andy Robertson spilar líklega sinn 150. deildarleik fyrir félagið.

- Joel Matip gæti spilað sinn 150. leik fyrir félagið í öllum keppnum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan