| Sf. Gutt

Góður sigur í Lissabon


Liverpool vann í kvöld góðan sigur á Benfica í Lissabon. Liverpool vann 1:3 á Ljósvangi og nestið fyrir seinni leikinn á Anfield Road í næstu viku er sannarlega gott. Segja má að þetta nesti eigi að duga þó svo ekkert sé enn í hendi. 

Trent Alexander-Arnold og Naby Keita komu inn eftir meiðsli. Ibrahima Konaté var settur við hlið Virgil van Dijk í hjarta varnarinnar. Luis Díaz kom í framlínuna og eins Sadio Mané. Það kom ekki á óvart að Luis kæmi inn í liðið enda þekkir hann vel til í Portúgal. Margir hefðu á sama hátt talið líklegt að Diogo Jota myndi byrja en hann var varamaður. Alls voru sex breytingar gerðar frá sigurleiknum á móti Watford.

Andrúmsloftið á Ljósvangi fyrir leik var rafmagnað og heimamenn í vígahug. Liverpool náði þó strax tökum á leiknum og komst yfir á 17. mínútu. Andrew Roberton tók horn frá vinstri. Boltinn rataði beint á  Ibrahima Konaté sem skallaði óverjandi í markið. Fyrsta mark hans fyrir Liverpool!

Allt gekk að óskum og á 34. mínútu jók Liverpool forystuna. Trent Alexander-Arnold sendi inn í vítateig Benfica á Luis Díaz. Hann skallaði boltann þvert fyrir markið á Sadio Mané sem skoraði örugglega af stuttu færi. Falleg sókn. Mohamed Salah fékk svo upplagt færi til að bæta stöðuna enn meir rétt fyrir lok hálfleiksins. Trent sendi á hann og hann komst í gott færi í vítateignum en Odysseas Vlachodimos sá við Egyptanum og varði. Mohamed fann sig ekki í leiknum. Samt stórgóð staða í hálfleik. 

Benfica hafði ekki náð að ógna að neinu ráði í fyrri hálfleik en það voru aðeins búnar fjórar mínútur af síðari hálfleik þegar þeir náðu að laga stöðuna. Rafa sendi fyrir frá hægri. Boltinn fór beint á Ibrahima sem hitti ekki boltann. Darwin Núñez var fyrir aftan Frakkann og þakkaði gott boð með því að skora örugglega. Slæm mistök hjá Ibrahima og heimamenn komnir inn í leikinn. 

Ekki var að undra að leikmenn Benfica væru grimmir á næstu mínútum eftir markið enda vel hvattir áfram af stuðningsmönnum sínum. Darwin átti bæði skot og skalla sem fóru yfir. Á 60. mínútu átti svo Éverton skot úr vítateginum sem Alisson Becker varði vel. Benfica voru mun betri en í fyrri hálfleik en Liverpool að sama skapi verri. Jürgen Klopp var ekki ánægður með gang mála og skipti þeim Jordan Henderson, Roberto Firmino og Diogo Jota inn á 61. mínútu. Leikur Liverpool færðist til betri vegar í kjölfarið. 

Liverpool hafði fín tök á leiknum á lokakaflanum og náði að bæta stöðu sína mikið þremur mínútum fyrir leikslok. Naby Keita sendi þá inn fyrir vörnina. Boltinn rakst aðeins í varnarmann og féll þar með fyrir fætur Luis sem komst inn í vítateiginn. Hann lék á Odysseas og sendi boltann svo í autt markið. Kolumbíumaðurinn fagnaði vel og innilega með félögum sínum. Ekki dró úr fögnuðinum að Luis skyldi hafa skorað á móti Benfica helstu keppinautum Porto sem hann lék með. Á lokaandartökunum hefði Liverpool getað skorað fjórða markið. Jordan lagði upp færi fyrir Diogo en Odysseas varði. Sigur Liverpool hefði því getað verið stærri en hann á að vera nógu stór til að liðið komist áfram í undanúrslit. 

Liverpool spilaði mjög vel í fyrri hálfleik. Heimamenn komust inn í leikinn en Liverpool endaði vel. Góður sigur sem gefur sterka von um áframhald. Samt má ekkert út af bera. Nú er að snúa sér að næsta verkefni sem er ærið!

Benfica: Vlachodimos, Junior, Otamendi, Vertonghen, Grimaldo, Weigl, Taarabt (Meité 70. mín.), Ferreira Silva, Matias Ramos (João Mário 87. mín.), Sousa Soares (Yaremchuk 82. mín.) og Núñez. Ónotaðir varamenn: Seferovic, Cupido Goncalves, Lazaro, Radonjic, Bastião Dias, Magalhães de Almeida, Goncalves Bernardo, Aleixo Leite og Rodrigues da Silva

Mark Benfica: Darwin Núñez (49. mín.).

Gult spjald: Adel Taarabt. 

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Gomez 89. mín.), Konaté, van Dijk, Robertson, Keïta (Milner 89.mín.), Fabinho, Thiago (Henderson 61. mín.), Salah (Jota 61. mín.), Mané (Firmino 61. mín.) og Díaz. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Oxlade-Chamberlain, Jones, Minamino, Tsimikas, Matip og Elliott.

Mörk Liverpool: Ibrahima Konaté (17. mín.), Sadio Mané (34. mín.) og Luis Díaz (87. mín.).

Gult spjald: Thiago Alcântara.

Áhorfendur á  Estadio da Luz: 59.657.

Maður leiksins: Fabinho Tavarez. Hugsanlega voru einhverjir betri. En hann lék lykilhlutverk á miðjunni með því að verja vörnina og byggja upp spil. Fáir ef nokkrir betri í hans stöðu.   

Jürgen Klopp: Núna er hálfleikur og við erum tveimur mörkum yfir. Í leikhléi í dag vorum við líka tveimur mörkum yfir en vissum vel að leikurinn var ekki búinn. Þetta er nákvæmlega það sem við vitum núna þegar verkið er hálfnað. Núna þurfa þeir að koma til Anfield og við verðum að færa okkur það í nyt.

Fróðleikur

- Ibrahima Konaté skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool. 

- Markið hans var númer 350 sem Liverpool skorar á útivelli á valdatíð Jürgen Klopp.

- Hann var 20. leikmaður Liverpool til að skora á þessu keppnistímabili. 

- Sadio Mané skoraði 15. mark sitt á leiktíðinni. 

- Luis Díaz skoraði þriðja mark sitt fyrir Liverpool. 

- Luis hefur aldrei verið í tapliði á móti Benfica í átta leikjum með Poto og Liverpool. 

- Liverpool hélt heinu í fyrri hálfleik 19. leikinn í röð. Það er nýtt félagsmet!

- Liverpool vann áttunda útileik sinn í röð í öllum keppnum. Það er líka nýtt félagsmet.

- Liverpool vann fimmta útisigur sinn í röð í Evrópukeppni þeirra bestu. Það er jöfnun á félagsmeti. Liverpool gerði það áður á leiktíðinni 1983/84. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan