| Grétar Magnússon

Hörmungar í Napoli

Liverpool voru niðurlægðir í Napoli í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni. Liðið sá aldrei til sólar, lokatölur 4-1 fyrir heimamenn.

Það er skemmst frá því að segja að frá fyrstu mínútu var ljóst í hvað stefndi. Napoli menn mættu grimmir til leiks og eftir aðeins fimm mínútur hafði vítaspyrna verið dæmd þegar skot fór í hönd James Milner í teignum. Zielinski fór á punktinn og skoraði örugglega. Áður en vítið var dæmt hafði Victor Osimhen komist innfyrir eftir stungusendingu, komist framhjá Alisson og skotið í stöngina úr þröngu færi. Hættumerkin blöstu við en leikmenn gestanna brugðust alls ekki rétt við þeim. Önnur vítaspyrna var dæmd eftir myndbandsdómgæslu þegar van Dijk og Osimhen áttust við í teignum og vítaspyrna réttur dómur. Osimhen tók vítið sjálfur en Alisson varði vel og skot leikmanns Napoli úr frákastinu fór yfir markið. Hinumegin skapaðist lítil hætta uppvið mark heimamanna, það var helst að okkar menn ógnuðu úr föstum leikatriðum en aldrei varð nein teljandi hætta á ferðum. Virgil van Dijk bjargaði svo á línu eftir að Osimhen hafði komist auðveldlega framhjá Gomez en annað markið leit kvöldsins ljós eftir rúmlega hálftíma leik. Liverpool menn voru eins og keilur á vellinum þegar Anguissa fékk boltann í teignum eftir þríhyrningsspil og hann kom boltanum í netið. Rétt fyrir hálfleik skoraði svo varamaðurinn Simeone eftir að Gomez var enn og aftur alls ekki nógu grimmur í varnarleiknum. Staðan í hálfleik 3-0 og ekki stóð steinn yfir steini í leik gestanna.


Klopp tók Gomez skiljanlega útaf í hálfleik og Joel Matip kom inná. Hörmunganar héldu áfram því eftir aðeins 85 sekúndur lá boltinn í netinu og staðan orðin 4-0. Ótrúlegt að horfa á hversu auðvelt það var fyrir leikmenn Napoli að spila sig í gegnum vörn og miðju þeirra rauðu. Luis Díaz minnkaði muninn með góðu marki á 49. mínútu og eftir það róaðist leikurinn og liðin bættu ekki við mörkum. Hörmungar frammistaða og nú er ljóst að liðið þarf að fara að rífa sig í gang, ekki seinna vænna. Þetta er vissulega áhyggjuefni svo ekki sé meira sagt.

Napoli: Meret, Di Lorenzo, Rrahmani, Kim, Olivera (Mário Rui, 74. mín.), Anguissa, Lobotka, Politano (Lozano, 58. mín.), Zielinski (Elmas, 74. mín.), Kvaratskhelia (Zerbin, 57. mín.), Osimhen (Simeone, 41. mín.). Ónotaðir varamenn: Nunes Jesus, Sirigu, Östigard, Zanoli, Gaetano, Raspadori, Ndombélé.

Mörk Napoli: Zielinski (5. mín. (vítí) og 47. mín.), Anguissa (31. mín.) og Simeone (44. mín.).

Gult spjald: Rrahmani.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez (Matip, 45. mín.), van Dijk, Robertson, Elliott (Arthur, 77. mín.), Fabinho, Milner (Thiago, 62. mín.), Salah (Jota, 62. mín.), Firmino (Núnez, 62. mín.), Díaz. Ónotaðir varamenn: Adrián, Davies, Tsimikas, Phillips, Bajcetic.

Mark Liverpool: Luis Díaz (49. mín.).

Gul spjöld: van Dijk og Milner.

Maður leiksins: Luis Díaz var sá eini sem sýndi eitthvað lífsmark í leiknum.

Jürgen Klopp: ,,Vandamálin sem við glímdum við í kvöld voru augljós. Númer eitt, Napoli spiluðu mjög góðan leik og við spiluðum mjög illa. Af hverju spiluðum við svona illa? Við getum ekki litið framhjá byrjuninni og hvernig það gerðist. Þetta hófst á vítaspyrnu og svo stuttu seinna var annað víti dæmt. Í svona andrúmslofti er það ekki auðvelt en augljóslega spiluðum við ekki nógu vel. Við vorum aldrei þéttir, ég man ekki eftir atvikum í leiknum þar sem við vorum þéttir. Í 60 mínútur náðum við aldrei að pressa nógu vel og við töpuðum mörgum boltum einfaldlega vegna þess að við vorum of langt í burtu frá mönnum."

Fróðleikur:

- Þetta er 47. keppnistímabilið sem Liverpool leikur í Evrópukeppni. 

- Af þessum 47 leiktíðum hefur Liverpool spilað 27 sinnum í keppni þeirra bestu í Evrópu. Það er Evrópukeppni meistaraliða eða Meistaradeildinni. 

- Arthur Melo lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool.

- Luis Díaz skoraði fjórða mark sitt á leiktínni. 

- Lið sem hefur tapað fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildar hefur aldrei náð að sigra keppnina.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan