| Sf. Gutt

Stórsigur og áfram í undanúrslit!


Liverpool komst áfram í undanúrslit Deildarbikarsins eftir að hafa unnið stórsigur 5:1 á West Ham United á Anfield Road. Liðið lék stórvel og hafði algjöra yfirburði í leiknum.

Liverpool tók öll völd frá fyrstu mínútu. Það var í raun bara eitt lið á vellinum í kvöld. Liverpool komst yfir á 28. mínútu.  Jarell Quansah braut sóknartilraun West Ham á bak aftur og sendi fram á Dominik Szoboszlai. Ungverjinn fékk boltann hægra megin fyrir utan vítateiginn. Hann tók við boltanum og hamraði hann svo neðst út í fjærhornið af drjúglöngu færi. West Ham komst varla fram fyrir miðju og það var undarlegt að Liverpool hefði ekki stærri forystu í hálfleik.

Liverpool jók forystuna á 56. mínútu. Darwin Núnez sendi inn í vítateiginn vinstra megin á Curtis Jones. Hann lék nær og skaut svo góðu skoti út í fjærhornið. Markmaður West Ham var kannski ekki nógu vel á verði því færið var þröngt. Áfram hélt Liverpool að skora. Á 71. mínútu braust varamaðurinn Ibrahima Konaté fram og gaf á Cody Gakpo. Hann tók við boltanum, lék nær vítateignum og skoraði svo með góðu skoti. Hollendingurinn fagnaði vel en honum hefur ekki gengið nógu vel síðustu vikurnar.

Upp úr þurru náði West Ham að laga stöðuna sex mínútum seinna í svo til sinni fyrstu sókn sem eitthvað kvað að. Jarrod Bowen fékk sendingu fram, lék á Jarrell og skoraði svo með góðu bogaskoti út í hægra hornið. En Liverpool lék þetta ekki á sig fá. Á 81. mínútu átti Darwin gott skot sem small í stönginni. Boltinn hrökk til Mohamed Salah, sem var kominn til leiks, en hann náði ekki að stýra boltanum í autt markið. En Mohamed bætti úr mínútu seinna. Enn einn varamaðurinn, Trent Alexander-Arnold, sendi frábæra sendingu fram á Mohamed. Hann lék inn í vítateiginn vinstra megin og skoraði svo með hárnkvæmu skoti neðst út í fjærhornið. 

Áfram hélt Rauði herinn. Tveimur mínútum seinna gaf Trent á Curtis. Hann tók við boltanum rétt fyrir framan miðju og tók á rás. Hann lék alla leið inn í vítateiginn þaðan sem hann skoraði með öruggu skoti. Frábær rispa hjá Curtis og fallegt mark! Undanúrslitin tryggð!

Liverpool spilaði mjög vel í kvöld. Reyndar var West Ham vart með en leikmenn Liverpool voru snarpir og í raun mun snarpari en í síðustu leikjum. Stórgott kvöld í Musterinu! 

Liverpool: Kelleher, Gomez, Quansah, van Dijk (Konaté 60. mín.), Tsimikas (Bradley 69. mín.), Szoboszlai (Salah 60. mín.), Endo (Alexander-Arnold 60. mín.), Jones, Elliott, Gakpo (Díaz 78. mín.) og Núnez. Ónotaðir varamenn: Adrián, Clark, Gordon og McConnell.

Mörk Liverpool: Dominik Szoboszlai (28. mín.), Curtis Jones (56. og 84. mín.), Cody Gakpo (71. mín.) og Mohamed Salah (82. mín.).

Gult spjald: Darwin Núnez.

West Ham United: Areola, Coufal (Kehrer 72. mín.), Mavropanos, Ogbonna, Johnson, Soucek, Álvarez (Ings 81. mín.), Kudus (Ward-Prowse 72. mín.), Fornals, Benrahma (Lucas Paquetá 57. mín.) og Bowen. Ónotaðir varamenn: Fabianski, Cresswell, Zouma, Emerson og Mubama.

Mark West Ham: Jarrod Bowen (77. mín.).

Gult spjald: Edson Álvarez.

Áhorfendur á Anfield Road: 57.332.

Maður leiksins: Curtis Jones. Fyrir utan mörkin tvö spilaði hann frábærlega. Hann gæti vel látið til sín taka í jólaleikjunum.

Fróðleikur

- Liverpool hefur tryggt sér sæti í undanúrslitum Deildarbikarsins. 

- Dominik Szoboszlai skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni.

- Curtis Jones skoraði fyrstu tvö mörk sín á keppnistímabilinu. 

- Cody Gakpo er kominn með sjö mörk á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah skoraði 15. mark sitt á sparktíðinni. 

- Fyrra mark Curtis Jones var 500. mark Liverpool í Deildarbikarnum frá upphafi vega. 

- Alls voru 57.332 áhorfendur á Anfield. Þetta er metfjöldi fyrir Deildarbikarleik á Anfield. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan