| Sf. Gutt

Öflugur endurkomusigur!


Liverpool vann í kvöld öflugan endurkomusigur á Luton Town á Anfield Road. Liverpool var undir í hálfleik en eftir hlé stóð ekkert í vegi fyrir Rauða hernum sem vann 4:1. Með þessu hélt Liverpool sér á toppi deildarinnar!

Það lá fyrir áður en leikurinn hófst að bryetingar yrðu á liðinu vegna mikilla meiðsla. Alls mátti telja 11 leikmenn Liverpool meidda. Segja má að Liverpool hafi ekki haft neinn hreinræktaðan framherja en Luis Díaz, Cody Gakpo og Harvey Elliott leiddu framlínuna. Fimm ungliðar Liverpool voru á varamannabekknum.

Strax í byrjun leiks sparkaði Caoimhin Kelleher langt frá marki sínu fram á Luis Díaz sem komst í góða stöðu vinstra megin í vítateig Luton. Kólumbíumaðurinn náði ekki almennilegu valdi á boltanum og færið rann út í sandinn. Rétt á eftir var Luis aftur aðgangsharður eftir undirbúning Harvey Elliott en skot Luiz fór framhjá. 

Það kom svo mark hinu megin á vellinum úr fyrstu sókn Luton á 12. mínútu. Tahith Chong fékk sendingu inn í vítateiginn vinstra megin. Hann náði skoti úr þröngri stöðu sem Caoimhin varði en boltinn fór undir Írann yfir á landa hans Chiedozie Ogbene og hann skallaði í autt markið af stuttu færi. Markið kom eins og köld vatnsgusa framan í heimafólk í slagveðrinu!

Liverpool hafði sótt fram að markinu og hélt því sannarlega áfram. Samt gekk spilið ekki nógu vel. Sendingar voru stundum of stuttar eða þá of langar. En sóknin hélt áfram. Á 32. mínútu gaf Wataru Endo inn í vítateiginn á Lus en hann náði ekki að stýra boltanum í markið. Þegar flautað hafði verið til hálfleiks var Luton enn með forystu. 

Liverpool sótti í átt að Kop stúkunni í síðari hálfleik og það sást strax að liðið var betur stemmt en fyrir hlé. Eins settu stuðningsmenn Liverpool aukinn kraft í hvatningarhróp sín. Nú fór allt í gang!

Liverpool jafnaði á 56. mínútu. Alexis Mac Allister tók horn frá hægri. Inni í vítateignum hljóp Virgil van Dijk sig lausan og skallaði boltann framhjá Thomas Kaminski í marki Luton. Nokkrum andartökum seinna skaut Conor Bradley föstu skoti í vítateignum sem Thomas varði naumlega með öðrum fæti sínum. Enn liðu nokkur andartök. Conor tók innkast ekki fjarri endalínunni hægra megin. Hann kastaði á Alexis sem sendi boltann rakleitt fyrir markið á Cody Gakpo og Hollendingurinn skallaði auðveldlega í markið af stuttu færi. Tvö mörk á tveimur mínútum og Liverpool komið yfir!

Áfram hélt sókn Liverpool og Thomas gerði vel í að verja frá Virgil. Fyrirliðinn ætlaði að skalla en boltinn fór af öxlinni hans og af krafti að marki! Aftur gaf Alexis fyrir. hver sókn Liverpool rak aðra og Luton átti í vök að verjast. 

Liverpool gerði út um leikinn á 71. mínútu. Andrew Robertson gaf inn í vítateiginn á Luis Díaz. Hann lék að vinstra markteigshorninu og þrumaði boltanum í markið. Luis fagnaði innilega enda hafði honum gengið illa með góð færi í leiknum. Uppi í stúku fagnaði faðir hans ekki síður.

Á 90. mínútu skoraði Liverpool fjórða markið. Andrew vann boltann og gaf á ungliðann Jayden Danns  sem var nýkominn til leiks í sínunm fyrsta leik. Hann sendi inn í teiginn á Cody. Varnarmaður tæklaði boltann frá honum en boltinn féll fyrir fætur Harvey Elliott og hann þrumaði boltanum upp í vinstra hornið. Fallegt mark hjá Harvey sem spilaði sinn 100. leik með uppáhaldsliðinu sínu. Það var fagnað vel og innilega í Musterinu þegar leiknum lauk. Jürgen Klopp fagnaði fyrir hnefafagni sínu fyrir framan allar fjórar stúkurnar og Rauðliðar fóru kátir heim!

Liverpool spilaði stórvel og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Liverpool átti reyndar í erfiðleikum með að finna taktinn í fyrri hálfleik en allt small saman eftir hlé og þá stóð ekkert í vegi Rauða hersins. Sannarlega öflugur endurkomusigur!     

Liverpool: Kelleher, Bradley (Robertson 68. mín.), Quansah, van Dijk, Gomez, Mac Allister (McConnell 89. mín.), Endo, Gravenberch (Clark 78. mín.), Elliott, Gakpo og Díaz (Danns 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Konaté, Tsimikas, Gordon og Nyoni.

Mörk Liverpool: Virgil van Dijk (56. mín.), Cody Gakpo (58. mín.), Luis Díaz (71. mín.) og Harvey Elliott (90. mín.).

Gul spjöld: Joe Gomez og John Achterberg.

Luton Town: Kaminski, Mengi, Osho, Bell, Ogbene, S Lokonga (Mpanzu 45. mín.), Barkley, Doughty (Kaboré 74. mín.), Morris, Chong (Clark 63. mín.) og Woodrow (Townsend 58. mín.). Ónotaðir varamenn: Krul, Potts, Berry, Burke og Nelson. 
 
Mark Luton:  Chiedozie Ogbene (12. mín.).

Gul spjöld: Alfie Doughty, Cauley Woodrow, Ross Barkley og Issa Kaboré.
 
Áhorfendur á Anfield Road: Ekki vitað.  

Maður leiksins: Alexis Mac Allister. Argentínumaðurinn var frábær á miðjunni. Hann spilaði boltanum vel og dreif liðið áfram. Svo átti hann tvær stoðsendingar!

Jürgen Klopp: ,,Við þurftum að spila inn í rétt svæði því pressa til að ná boltanum gagnast lítið nema að boltinn vinnist á góðum svæðum. Þetta gerðu strákarnir sannarlega og síðari hálfleikurinn var eins og þrumuveður. Vá! Vá!" 


Fróðleikur

- Virgil van Dijk skoraði í þriðja sinn á leiktíðinni. 

- Cody Gakpo skoraði 11. mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Luis Díaz er einu marki á eftir Cody á markalistanum. 

- Harvey Elliott skoraði í annað sinn á sparktíðinni. 

- Harvey spilaði í 100. sinn fyrir hönd Liverpool. Hann er búinn að skora átta mörk og leggja upp fimm.

- Ungliðinn Jayden Danns spilaði sinn fyrsta leik með Liverpool. Hann var í fyrsta sinn í aðlliðshópi Liverpool. 

- Þetta var í fyrsta sinn sem liðin leika saman í deildarleik á Anfield frá leiktíðinni 1991/92.

- Þá lenti Liverpool líka undir en sneri leiknum sér í hag. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan