| Sf. Gutt

Af spjöldum sögunnar!

Match programme

Á þessum degi fyrir 40 árum vann Liverpool sinn stærsta sigur í sögu félagsins. Liverpool gekk berserksgang og rótburstaði norska liðið Strømsgodset 11:0. Metsigur og metið stendur ennþá 40 árum seinna.

Leikurinn var fyrri leikur liðanna í 1.umferð Evrópukeppni bikarhafa. Liverpool vann FA bikarinn um vorið eftir að leggja Newcastle United að velli 3:0. Strømsgodset, sem er frá Drammen, komst í Evrópukeppni bikarhafa með því að vinna norsku bikarkeppnina árið 1973.

Liverpool byrjaði vel og skoraði fyrsta mark leiksins á 3. mínútu. Alec Lindsay skoraði úr víti sem dæmt var á markmann norska liðsins. Liverpool keyrði yfir norsku bikarmeistarana og var 5:0 yfir í hálfleik. Eftir hlé bætti Liverpool við sex mörkum. Af þeim sex mörkum skoraði Liverpool þrjú á síðustu fimm mínútum leiksins. Þar með varð metsigur staðreynd.

Það kom svo sem ekki á óvart að Ray Clemence markmaður Liverpool skyldi ekki skora. Á hinn bóginn var ótrúlegt að níu leikmenn Liverpool skyldu skora. Af útileikmönnum Liverpool var Brian Hall sá eini sem ekki náði að skora. Aðeins þeir nafnar Phil Boersma og Phil Thompson skoruðu meira en eitt mark. 

Það mátti hafa fimm varamenn í Evrópuleikjum á þessum tíma. Það var greinilega ekki verið að hvíla menn neitt þrátt fyrir mikla yfirburði því byrjunarliðið lauk leiknum og engum var skipt af velli. 

Phil Thompson, sem skoraði tvö mörk, var alls ekki viss hver staðan væri þegar komið var fram í síðari hálfleik. ,,Ég var orðinn alveg ruglaður í öllum þessum mörkum þegar komið var fram í síðari hálfleik. Ég gaf mig meira að segja á tal við Emlyn Hughes til að reyna að átta mig á hver staðan væri."

Liverpool: Ray Clemence, Tommy Smith, Alec Lindsay, Phil Thompson, Peter Cormack, Emlyn Hughes (Fyrirliði), Phil Boersma, Brian Hall, Steve Heighway, Ray Kennedy og Ian Callaghan. Varamenn: Frank Lane, Chris Lawler, John McLaughlin, Alan Waddle og Jimmy Case.

Mörk Liverpool:  Alec Lindsay, víti, (3. mín.), Phil Boersma (13. og 40. mín.), Phil Thompson (30. mín. og 74. mín.), Steve Heighway (42. mín.), Peter Cormack (65. mín.), Emlyn Hughes (76. mín.), Tommy Smith (85. mín.), Ian Callaghan (87. mín.) og Ray Kennedy (88. mín.). 

Áhorfendur á Anfield Road: 24.743.

Seinni leikur liðanna fór fram á Ullewaal leikvanginum í Osló 1. október. Ray Kennedy tryggði Liverpool sigur með eina marki leiksins á 17. mínútu leiksins. 

Efst má sjá forsíðu leikskrár Liverpool sem gefin var út fyrir leikinn við Strømsgodset.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan