| Grétar Magnússon

Dirk Kuyt fékk ógrynni skilaboða

Dirk Kuyt segir að hann hafi fengið ótal mörg góð skilaboð frá stuðningsmönnum Liverpool eftir að hann tilkynnti að hann myndi ganga til liðs við tyrkneska félagið Fenerbahce.

Kuyt, sem er 31 árs, var oftar en ekki á varamannabekknum á síðasta tímabili og viðurkennir hann að það hafi haft áhrif ákvörðun hans að færa sig um set.

,,Síðasta tímabil mitt hjá Liverpool var ekki það besta," sagði Kuyt.  ,,Mér fannst ég hefði átt að spila meira og því, eftir sex ár, fannst mér ég þurfa að breyta til á ferlinum, fá nýja reynslu, nýtt land, nýtt fólk í kringum mig og þess vegna ákvað ég að fara."

,,Ég átti stórkostleg ár og frábæra liðsfélaga hjá Liverpool.  Félagið var frábært, fólkið var frábært og fólkið frá Liverpool - textaskilaboðin, símtölin, tölvupóstarnir, öll tístin sem ég fékk á aðganginn minn á Twitter - það er ótrúlegt hversu mikla virðingu fólkið sýndi mér og það snart mig djúpt."

,,Allir óskuðu mér góðs gengis og sögðu að þeir myndu sakna mín."

Kyut er sem stendur að undirbúa sig fyrir Evrópumeistaramótið í Póllandi og Úkraínu með Hollendingum viðurkennir að ákvörðunin um að yfirgefa Liverpool hafi verið ein sú erfiðasta sem hann hafi tekið.

Hann bætti við:  ,,Ein hliðin á peningnum er sú að maður verður leiður yfir því að yfirgefa félagið eftir sex ár.  En á hinni hliðinni hlakkar mann til og ég held að Fenerbahce sé frábært félag, þeir eiga líka frábæra stuðningsmenn og ég hlakka til þess að takast á við nýjar áskoranir."

Kuyt viðurkennir einnig að hafa neitað tilboði frá Hamburg til þess að geta spilað í Meistaradeildinni með tyrkneska félaginu.  Kuyt hefur ekki spilaði í þeirri ágætu deild síðan 2009 með Liverpool og hann sagði:  ,,Ég ræddi við Hamburg, umboðsmaðurinn minn ræddi við þá líka og ég hafði góða tilfinningu fyrir því félagi."

,,En þegar upp var staðið leist mér best á Fenerbahce.  Fyrir mér var það virkilega mikilvægt að spila í Meistaradeildinni."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan