| Grétar Magnússon

Lucas í landsliðið á ný

Lucas Leiva hefur verið kallaður upp í brasilíska landsliðið fyrir komandi landsleikjahlé.  Brasilíumenn leika tvo vináttuleiki við Suður-Kóreu og Zambíu.


Lucas veit sem er að hann þarf að standa sig gríðarlega vel í þessu verkefni til að eiga möguleika á því að spila með þjóð sinni á HM næsta sumar.  Hann segir að nú verði hann að grípa tækifærið eftir langa fjarveru frá landsliðinu.

,,Ég veit að ég verð prófaður í þessum vináttuleikjum en þetta er í mínum höndum núna.  Ég verð að vera viss um að ef ég spila, þá spili ég vel í þessum tveimur leikjum.  En þetta snýst ekki bara um þessa tvo leiki, á æfingum og utan vallar þegar ég er í kringum aðra leikmenn verð ég að vera faglegur og tengjast hópnum."

Lucas hefur spilað 20 landsleiki fyrir þjóð sína til þessa en síðan hann meiddist gegn Chelsea í nóvember árið 2011 hefur hann ekki leikið landsleik.  Hann meiddist svo í fyrsta heimaleik Liverpool á síðasta tímabili sem enn frekar aftraði honum frá því að vera kallaður upp í landsliðið.  Nú þegar hann er búinn að ná sér 100% af sínum meiðslum er hann klár í slaginn til að berjast um sæti í hópnum.

,,Það hefur verið draumur minn lengi að spila fyrir Brasilíu á Heimsmeistaramóti á heimavelli," sagði Lucas.  ,,Fyrir alla brasilíska leikmenn er þetta risastórt.  Stundin verður sérstök og ég vil vera hluti af henni."

,,Það er alltaf erfitt að koma sér í hópinn því það eru svo margir leikmenn að slást um hituna.  En ég er kominn í hópinn á ný og verð að sannfæra stjórann um að ég eigi að vera þarna áfram.  Þetta er tækifærið sem ég er búinn að vera að bíða eftir síðan ég meiddist á hné."


,,Ég hef virkilega saknað andrúmsloftsins sem er í kringum liðið.  Að spila fyrir land mitt er mjög þýðingarmikið fyrir mig og ég hlakka til þess að njóta þessarar reynslu á ný."

,,Vonandi stend ég mig vel.  Það er ekki langt í HM núna og ekki margir leikir hjá landsliðinu eftir fram að móti.







TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan