| Heimir Eyvindarson

Lucas fer hvergi

Mikið hefur verið rætt um framtíð Lucas Leiva hjá Liverpool. Slúðurblöð hafa haldið því fram að hann verði seldur í janúar, helst til Inter Milan sem hefur sýnt honum áhuga. 

Lífið hefur ekki beint leikið við Lucas Leiva síðustu árin. Hann var á góðri leið með að verða lykilmaður í liði Liverpool þegar hann meiddist illa í leik gegn Chelsea í lok nóvember 2011. Eftir að hann kom til baka úr þeim meiðslum hefur hann í raun aðeins verið skugginn af sjálfum sér. Hann hefur þó unnið sér fast sæti í liðinu aftur og margir vilja meina að innkoma hans sé stór þáttur í skánandi gengi liðsins að undanförnu.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um framtíð Brasilíumannsins hjá félaginu, en strax í haust sögðu nokkuð áreiðanlegar heimildir s.s. Tony Barrett frá því að Lucas hefði fengið þau skilaboð frá Rodgers að hann mætti finna sér nýtt félag í janúarglugganum. Rodgers hefur svosem ekki staðfest það með beinum hætti, en hefur þó sagt að hann og Lucas hafi rætt saman um möguleg vistaskipti.

Roberto Mancini stjóri Inter Milan hefur staðfest að hann hafi áhuga á að fá Brassann í sínar raðir, en það hefur ekkert formlegt boð borist frá ítalska félaginu.

,,Við vitum af áhuga Inter, en það hefur ekkert boð borist í Lucas. Við myndum heldur ekki taka vel í slíkt á þessum tímapunkti. Lucas hefur verið að spila vel og liðið er á uppleið. Það væri ekki gott að missa hann núna, en það verða áframhaldandi vangaveltur í fjölmiðlum um framtíð hans út janúarmánuð. Það er öruggt mál", segir Brendan Rodgers.

,,Við höfum rætt málin og væntanlega setjumst við niður í vor og metum stöðuna upp á nýtt, en eins og er vil ég ekki sleppa honum. Ég held líka að hann sé ánægður í augnablikinu. Hann er fastur maður í liðinu og er að spila vel."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan