| Sf. Gutt

Sögulegur sigur í Þýskalandi!

Liverpool vann sögulegan sigur í Þýskalandi í kvöld. Rauði herinn lagði Red Bull Leipzig 0:1. Liðið er því enn sem komið er með fullt hús stiga í Meistaradeildinni. 

Heimamenn byrjuðu heldur betur og fyrsta ógnin kom frá þeim eftir rétt tæpan stundarfjórðung. Amadou Haidara átti þá skot rétt utan vítateigs en Caoimhin Kelleher var fljótur niður og varði af öryggi. Caoimhin lenti í vandræðum fimm mínútum seinna. Hann kom þá út að hliðarlínu hægra megin á móti leikmanni Leipzig og ætlaði að skalla boltann út af. Skallinn var of laus og Benjamin Sesko náði boltanum. Hann var fljótur að átta sig og skaut að auðu markinu en boltinn fór sem betur fer framhjá. 

En svo fór Liverpool að ná tökum á leiknum. Það skilaði sér í marki á 27. mínútu. Liverpool sótti fram vinstra megin. Kostas Tsimikas gaf fyrir yfir á fjærstöng á Mohamed Salah sem skallaði í gagnstæða átt. Boltinn sveif í átt að markinu og virtist ætla í markið en Darwin Núnez ákvað að tryggja ferð boltans í markið með því að pota honum inn af örstuttu færi. Það var ekki að undra að Úrúgvæinn fagnaði innilega.

Fimm mínútur liðu og þá gaf Cody Gakpo fyrir á Darwin sem náði föstum skalla en Ungverjinn Péter Gulácsi gerði vel í markinu með því að slá boltann yfir. Péter var á mála hjá Liverpool frá 2008 til 2013. Fjórum mínútum seinna fékk Liverpool horn. Virgil van Dijk náði góðum skalla eftir hornið sem Kostas tók en aftur sló Péter boltann yfir. Enn sótti Liverpool og Darwin fékk boltann í vítateignum. Hann hugðist leika upp að endamörkum en leikmaður heimamanna felldi hann. Allir reiknuðu með vítaspyrnu enda brotið augljóst en dómarinn dæmdi ekkert og ekki fékk hann ábendingu frá sjónvarpsdómaranum. Fáránlegt að ekki skyldi vera dæmt víti! Liverpool yfir í hálfleik. 

Liverpool byrjaði síðari hálfleik af krafti. Á 49. mínútu kom Darwin boltanum fyrir frá hægri. Tveir varnarmenn Leipzig rugluðust í ríminu og náðu ekki að hreinsa. Boltinn hrökk til Cody sem skaut að marki af stuttu færi en Péter bjargaði vel. 

Nú var lengi vel tíðindalítið og Liverpool var með góð tök á leiknum. Þegar 20 mínútur voru eftir náði Liverpool frábæru samspili sem endaði með því að Dominik Szoboszlai gaf á Alexis Mac Allister. Argentínumaðurinn náði góðu skoti við vítateiginn en boltinn hafnaði í þverslánni. 

Tveimur mínútum seinna ógnuðu heimamenn í fyrsta skipti í langan tíma. Ibrahima Konaté missti boltann á miðjum vallarhelmingi sínum. Í kjölfarið fékk Benjamin boltann í vítateignum vinstra megin en Caoimhin var vandanum vaxinn og varði skot hans. Leipzig sótti áfram og Xavi Simons náði góðu skoti en Írinn sló boltann yfir. Stórgóð markvarsla. 

Liverpool stóð sóknir Leipzig af sér og mínútu fyrir leikslok náði Liverpool snarpri sókn. Cody fékk boltann vinstra megin og lék inn á völlinn við vítateiginn. Hann skaut svo föstu skoti sem stefndi upp í hornið fjær en Péter varði enn og aftur af prýði. 

Liverpool hélt út og vann sögulegan sigur. Aldrei áður hefur liðið unnið fyrstu sex útileiki sína á leiktíð. Leipzig er mjög sterkt lið og er efst í þýsku deildinni ásamt Bayern Munchen. Liverpool spilaði vel, sýndi seiglu og það skilaði sigri. 

Red Bull Leipzig: Gulacsi; Geertruida (Bitshiabu, 74. mín.), Orban, Lukeba, Henrichs; Nusa, Vermeeren (Kampl, 74. mín.), Haidara (Elmas, 86. mín.), Simons (Poulsen, 78. mín); Sesko (Baumgartner, 74. mín.) og Openda. Ónotaðir varamenn: Silva, Vandevoordt og Gebel.

Gul spjöld: Castello Lukeba og Lutsharel Geertruida.

Liverpool: Kelleher; Alexander-Arnold (Gomez, 75. mín.), Konate, Van Dijk, Tsimikas (Robertson, 75. mín.); Szoboszlai, Gravenberch, Mac Allister; Salah (Diaz, 63. mín.), Nunez (Jones, 74. mín.) og Gakpo. Ónotaðir varamenn: Jaros, Davies, Endo, Quansah, Morton og Nyoni. 

Mark Liverpool: Darwin Núnez (27. mín.).

Gult spjald: Alexis Mac Allister. 

Áhorfendur á Red Bull Arena: 45.228.

Maður leiksins: Darwin Núnez. Úrúgvæinn var slitduglegur og barðist eins og ljón. Hann skoraði sigurmarkið og getur vel við unað eftir að hafa fengið byrjunarliðssæti vegna meiðsla Diogo Jota. Svo má ekki gleyma að hann átti að fá vítaspyrnu. 

Arne Slot: ,,Við spiluðum erfiðan útileik við Leipzig sem er lið í efsta styrkleikaflokki. Við stjórnuðum leiknum á löngum köflum. Það var helst á síðustu mínútunum sem okkur gekk illa að gera það."

Fróðleikur

- Liverpool setti félagsmet með sigrinum. Liðið hefur hingað til unnið alla sex útileiki sína á keppnistímabilinu.

- Darwin Núnez skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. 

- Arne Slot er fyrsti framkvæmdastjóri Liverpool frá Bill Shankly til að stjórna Liverpool til sigurs í sínum fyrstu þremur leikjum í Evrópukeppni þeirra bestu. 

- Mohamed Salah lék sinn 69 leik í Meistaradeildinni. Hann er þar með orðinn þriðji leikjahæsti leikmaður Liverpool í keppninni. 

- Jamie Carragher er leikjahæstur leikmanna Liverpool í keppninni með 91 leik. Steven Gerrard kemur annar með 87 leiki.

- Liverpool hefur ekki tapað fyrir þýskum liðum í síðustu 13 leikjum. Liverpool hefur unnið tíu af leikjum og gert þrjú jafntefli.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan