Dejan Lovren

Fæðingardagur:
05. júlí 1989
Fæðingarstaður:
Zenica, Króatíu
Fyrri félög:
NK Karlovac, Dinamo Zagreb, NK Inter Zapresic (lán), Lyon, Southampton
Kaupverð:
£ 20000000
Byrjaði / keyptur:
27. júlí 2014

Dejan Lovren voru fimmtu kaup sumarsins 2014 og þriðji leikmaðurinn sem kemur til félagsins frá Southampton það sumar.  Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára þegar kaupin voru staðfest er Lovren reynslumikill leikmaður en hann hefur leikið í Meistaradeildinni og í lokamóti Heimsmeistaramótsins.

Hann er sterkur í loftinu, þykir öruggur á boltann og er með mikla leiðtogahæfileika sem hafa hjálpað honum að ná langt í knattspyrnuheiminum.

Lovren fæddist í Zenica 5. júlí 1989 og hóf ferilinn hjá NK Karlovac. Árið 2004 vakti hann athygli Akademíu Dinamo Zagreb eftir að hafa leikið gegn liði þeirra.  Ferill hans hjá Dinamo var hraður, aðeins 17 ára að aldri var hann kominn í aðalliðshóp félagsins.

Í upphafi tímabilsins 2007-08 - sem var hans fyrsta tímabil sem atvinnumaður - var hann lánaður til NK Inter Zapresic þar sem hann öðlaðist dýrmæta leikreynslu sem byrjunarliðsmaður í 29 leikjum af 33 í deildinni það tímabilið. Félagið lenti í 11. sæti í deildinni.  Aðeins 19 ára að aldri fékk hann svo tækifæri með aðalliði Dinamo tímabilið þar á eftir.

Hann nýtti tækifærið til fullnustu og var fljótur að vinna sér sæti í byrjunarliðinu hvort sem var í deildinni heima fyrir eða í Evrópukeppni en þar skoraði hann einmitt sitt fyrsta mark fyrir félagið í UEFA Cup, Dinamo urðu svo einnig deildarmeistarar.

Árið 2009 var hann svo kallaður upp í króatíska landsliðið fyrir leik í undankeppni HM 2010 gegn Hvíta-Rússlandi en hann spilaði svo sinn fyrsta leik ekki fyrr en tveim mánuðum síðar í vináttuleik gegn Katar.

Í janúar 2010 var hann svo seldur til franska liðsins Lyon, eftir að hafa spilað alls 66 leiki fyrir Dinamo Zagreb. Alls spilaði hann 9 leiki fyrir Lyon til loka leiktíðar. Á sínu fyrsta heila tímabili spilaði hann reglulega fyrir félagið og stóð sig sérstaklega vel í Meistaradeildinni þar sem hann skoraði sitt fyrsta mark - á útivelli gegn Benfica - er Lyon komust í 16-liða úrslit keppninnar en féllu þar út fyrir Real Madrid.

Lovren skoraði sitt fyrsta mark fyrir landslið Króatíu með góðum skalla gegn Möltu er liðið tryggði sér örugglega sæti í úrslitakeppni EM 2012. Slaven Bilic kallaði hann svo upp í 23 manna hóp fyrir lokakeppnina en Lovren þurfti að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla.

Hjá Lyon vegnaði honum áfram vel og liðið náði þriðja sæti deildarinnar tímabilið 2012-13 og það tímabil skoraði hann einnig sitt annað landsliðsmark með þrumuskoti gegn Joe Allen og félögum í Wales í undankeppni HM.

Eftir rúmlega 70 leiki í Frakklandi var hann svo keyptur til Southampton sumarið 2013. Hann var ekki lengi að venjast enska boltanum og hélt áfram að sýna hvers hann er megnugur í vörninni. Hann spilaði alls 31 leik fyrir suðurstrandarliðið og margir muna eftir sigurmarki hans gegn Liverpool á Anfield haustið 2013 í leik sem endaði 0-1 fyrir gestina.

Hann spilaði svo alla þrjá leiki Króata í riðlakeppni HM í Brasilíu 2014 en liðið komst ekki upp úr riðlinum eftir tap fyrir Mexíkó í leik sem réði því hvort liðið fylgdi Brasilíu uppúr A-riðli.

Í lok júlí voru svo félagaskipti Lovren formlega tilkynnt og ljóst að sterkur varnarmaður hefur gengið til liðs við félagið.

Tölfræðin fyrir Dejan Lovren

Tímabil Deild Bikar Deildarbikar Evrópa Annað Alls
2014/2015 26 - 0 4 - 0 2 - 1 6 - 0 0 - 0 38 - 1
2015/2016 24 - 0 1 - 0 4 - 0 10 - 1 0 - 0 39 - 1
2016/2017 29 - 2 0 - 0 3 - 0 0 - 0 0 - 0 32 - 2
2017/2018 29 - 2 0 - 0 0 - 0 14 - 0 0 - 0 43 - 2
2018/2019 13 - 1 1 - 0 1 - 0 3 - 0 0 - 0 18 - 1
2019/2020 10 - 0 1 - 0 1 - 0 3 - 1 0 - 0 15 - 1
Samtals 131 - 5 7 - 0 11 - 1 36 - 2 0 - 0 185 - 8

Fréttir, greinar og annað um Dejan Lovren

Fréttir

Í nærmynd

Skoða önnur tímabil